02.02.1982
Sameinað þing: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2179 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

171. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Í fjarveru formanns Alþb., hæstv. félmrh., vil ég láta það koma hér fram, að þegar þessi till. var afgreidd í ríkisstj. lýstu ráðherrar flokksins því yfir, að Alþb. stæði ekki að flutningi till. og mundi ekki greiða henni atkvæði.

Alþb. er, eins og öllum hér er kunnugt, andvígt aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Okkur finnst ekki eðlilegt, á grundvelli þeirrar afstöðu, að við séum að taka þátt í afgreiðslu máls af þessu tagi. Mér finnst rétt að þessi afstaða komi hér fram og hún liggi skýrt fyrir við upphaf meðferðar þessa máls hér á Alþingi.

Jafnframt held ég að það sé nauðsynlegt að hv. Alþingi kynni sér nokkru nánar en hér hefur komið fram meðferð þessa máls á Spáni. Þar hefur verið hörð andstaða gegn aðild Spánar að Atlantshafsbandalaginu. M. a. hefur sá flokkur, sem er í alþjóðlegu bandalagi með Alþfl. hér, Sósíalistaflokkur Spánar, bræðraflokkur Alþfl., beitt sér harðlega gegn því að Spánn gerist aðili að Atlantshafsbandalaginu. Ég held ég fari rétt með að allir þingmenn þess flokks hafi greitt atkvæði gegn því á þingi Spánar þegar það var til afgreiðslu. Jafnframt komu fram á þjóðþingi Spánar óskir að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um aðildina, svo að það gæti legið ljóst fyrir hvort meiri hluti spænsku þjóðarinnar væri því fylgjandi, að Spánn gengi þetta skref.

Margar ástæður liggja því að baki að stór hluti spænska þingsins og spænsku þjóðarinnar, ef ekki meiri hluti þjóðarinnar, er andvígur því, að Spánn gerist aðili að Atlantshafsbandalaginu. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að við meðferð þessa máls hér á Alþingi fáum við í utanrmn. og þinginu í heild nánari lýsingar á meðferð málsins á Spáni. Ástæðan er sú, að því miður er saga Spánar á þann veg, að lýðræði á eftirstríðsárum á sér þar mjög skamma ævi. Það eru ekki nema nokkur misseri síðan við lá að herinn tæki völdin á nýjan leik á Spáni. Þeir, sem staðið hafa vörð um lýðræðið á Spáni og harðast og lengst barist fyrir endurreisn þess, óttast mjög að tengsl Spánar við hernaðarbandalagið NATO kunni að verða til þess að styrkja herinn á Spáni í sessi og gefa honum gæðastimpil sem geri honum kleift að taka völdin og brjóta lýðræðið niður í skjóli aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu, á sama hátt og herforingjastjórnin í Grikklandi tók völdin og drap lýðræði þar í landi og fangelsaði stjórnmálamenn í áraraðir í skjóli aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu, á sama hátt og herinn í Tyrklandi hefur tekið völdin þar og heldur þeim í skjóli aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu.

Það eru lýðræðisöflin á Spáni sem vilja forða þjóðinni frá því að verða á ný fórnarlamb valdatöku herforingjastjórnar. Þau óttast mjög að aðild Spánar að þessu hernaðarbandalagi og þar með þátttaka spænska hersins í hernaðarsamstarfi af þessu tagi kunni að styrkja hernaðaröflin í landinu í sessi.

Því miður er það þannig, að kenningin um Atlantshafsbandalagið sem varnarbandalag lýðræðisþjóða hefur í reynd ekki staðist. Ég segi: því miður, vegna þess að þótt ég sé andvígur þessu bandalagi hefði ég þó kosið að sú kenning, sem það er byggt á, að það eigi að standa vörð um lýðræði, reyndist raunhæfari en orðið hefur. Um þessar mundir er eitt af ríkjum Atlantshafsbandalagsins án lýðræðis. Þar ríkir grimmdarstjórn herforingja. Þar eru verkalýðsfélög bönnuð, stjórnmálaflokkar bannaðir, þúsundir stjórnmálamanna í fangelsum, frjálsir fjölmiðlar bannaðir og allt það, sem við teljum kjarnaþætti í lýðræðislegu stjórnarfari, hneppt í fjötra. Á Grikklandi var um áraraðir sams konar ástand. Í Portúgal var það einnig um langan tíma.

Ég hef hlýtt á ræður margra spænskra stjórnmálamanna sem óttast mjög, að fyrir þeirra landi kunni að liggja sömu örlög innan tíðar, og sjá aðildina að Atlantshafsbandalaginu ekki sem skref í lýðræðisátt, heldur sem skref í þá átt að styrkja hernaðaröflin í sessi í spænska þjóðfélaginu, kunni að vera spor í þá átt að grafa lýðræðinu á Spáni gröf þó að það kunni að þjóna hernaðarhagsmunum ýmissa erlendra ríkja sem gjarnan vilja hafa Spán að hernaðarvini, hvað svo sem líður stjórnarfarinu í því landi. Það er þess vegna sem bræðraflokkur Alþfl. á Spáni barðist hart, eins hart og hann gat, gegn aðildinni að Atlantshafsbandalaginu. Það er þess vegna sem þau öfl á Spáni, sem áratugi í útlegð og áratugi neðanjarðar í spænsku þjóðfélagi börðust gegn fasistastjórn þeirri sem þar var, börðust einnig gegn því, að land þeirra gengi í hernaðarbandalagið NATO.

Ég held að það sé nauðsynlegt, þegar við hér á Íslandi — sérstaklega þeir sem ætla sér að standa að því að samþykkja þessa till. — erum að fjalla um hana, að gera sér grein fyrir því, hverjar eru röksemdir með og móti í því ríki sem þarna á í hlut, þeirra andstæðinga sem þarna koma við sögu, þótt vissulega sé sú venja í gildi að viðurkenna fullgildisrétt hverrar þjóðar og stjórnvalda þar í landi til þess að ákveða með formlegum hætti þátttöku í alþjóðlegu samstarfi, hvað svo sem liður afstöðu minni hlutans í viðkomandi landi. Það er vissulega grundvallarregla sem ætíð verður sjálfsagt höfð í heiðri. Engu að síður skulum við ekki láta umræðuna um aðild Spánar að Atlantshafsbandalaginu fara fram hjá okkur án þess að ræða hér um vanda þeirra ríkja sem í þessu bandalagi starfa, þegar herforingjastjórnir hafa tekið völdin í aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins, eins og nú hefur verið í Tyrklandi, hefur gerst í Grikklandi, verið í Portúgal og verið lengi á Spáni og margir óttast að þar kunni að verða einnig jafnvel innan skamms. Þá kemur sú staðreynd til íslenskra forráðamanna, að þeir eru á lögformlegan hátt orðnir bandamenn þeirra herja sem í heimalöndum sínum hafa gerst forgöngumenn þess að brjóta lýðræðið niður og bera nú í einu aðildarríki Atlantshafsbandalagsins ábyrgð á því, að stjórnmálaflokkar eru bannaðir, að verkalýðsfélög eru bönnuð, að frjálsir fjölmiðlar eru bannaðir, að fyrrverandi forsætisráðherra landsins er í fangelsi, að þúsundir stjórnmálamanna hafa verið hnepptir í fangelsi og sætt þar pyntingum og þar sem öll sú starfsemi, sem við kennum við kjarnann í lýðræðinu sjálfu, hefur verið hneppt í fjötra.