02.02.1982
Sameinað þing: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2181 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

171. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Áður en þessi till. fer til nefndar þykir mér rétt að lýsa því yfir, að þingflokkur sjálfstæðismanna mun styðja þetta mál.

Afstaða Alþb. kemur í sjálfu sér ekki á óvart, að það sé andvígt tillögunni.

Ég held að hugleiðingar um fylgi Spánverja við aðild að Atlantshafsbandalaginu séu í sjálfu sér óþarfar hér á hv. Alþingi. Það hefur verið tekin lögleg ákvörðun í spænska þinginu þar sem spænska þingið hefur óskað aðildar að Atlantshafsbandalaginu. Ég get ekki séð að hugleiðingar hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar um það, hvort þessi aðild muni styrkja herinn á Spáni, komi þessum umr. hér á hv. Alþingi við. Það, sem hér skiptir máli, er það sem aðilar Norður-Atlantshafssamningsins hafa fullvissað sig um, eins og stendur hér í fskj., að öryggi á Norður-Atlantshafssvæðinu mundi aukast við það, að Spánn gerist aðili að samningnum, og þess vegna hafi þeir orðið ásáttir um þennan viðbótarsamning.

Manni verður að hugsa hvort það sé þess vegna, sem Alþb. er á móti því að Spánn gerist aðili að Atlantshafsbandalaginu, að það muni styrkja þjóðir Vestur-Evrópu þegar þær eru að þjappa sér saman gegn aðsteðjandi ógnunum. Það er þetta sem mér sýnist að vaki fyrir Alþb. þegar það lýsir yfir andstöðu sinni við að Spánn gerist aðili að bandalaginu.

Þetta vildi ég láta koma hér fram áður en málið fer til nefndar.