02.02.1982
Sameinað þing: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2183 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

52. mál, iðnkynning

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt eftirtöldum hv. alþm.: Halldóri Ásgrímssyni, Páli Péturssyni, Guðmundi G. Þórarinssyni, Stefáni Guðmundssyni og Níelsi Á. Lund, að flytja till. til þál. um íslenska iðnkynningu. Með leyfi hæstv. forseta hljóðar tillgr. svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. í samvinnu við samtök iðnaðarins og neytenda að hrinda af stað kynningu á íslenskum iðnaði er hafi það að markmiði:

a) að stuðla að aukinni sölu á framleiðslu og þjónustu íslensks iðnaðar,

b) að skapa jákvæðari afstöðu almennings til íslensks iðnaðar,

c) að bæta aðstöðu íslensks iðnaðar.“

Í sjálfu sér verður ekki um það deilt, að iðnaður gegnir mjög þýðingarmiklu hlutverki í íslenskri efnahagsþróun, enda hefur verið mikið ritað og rætt um þau mál nú síðari ár. Í ljósi þess, að iðnaðurinn eigi að taka við 6000–6500 manns á næstu 7–8 árum, er greinilegt hversu mikið er í húfi að nú verði unnið að málefnum iðnaðarins af framsýni og þrótti á öllum sviðum.

Segja má að þáttaskil hafi orðið í íslenskum iðnaði upp úr 1970 með tilliti til þess að standa mitt í ölduróti hins stóra markaðskerfis Evrópu. Allan síðasta áratug og allt fram á þennan dag hefur verið um það deilt, með hvaða hætti skyldi hyggilegast staðið að þeirri aðlögun að fríverslun sem óhjákvæmileg var og leiddi af sér harðnandi samkeppni. Ég er þeirrar skoðunar, að almennt talað hafi íslenskur iðnaður þrátt fyrir allt staðið sig nokkuð vel með tilliti til gerbreyttra aðstæðna nú síðasta áratug, enda þótt út af hafi brugðið að sjálfsögðu í einstökum tilfellum.

Eins og kunnugt er er okkar hagkerfi að mestu leyti byggt upp með tilliti til sjávarútvegs, enda eru yfir 70% af útflutningstekjum landsmanna af sjávarafurðum. Hinar ýmsu efnahagsaðgerðir undanfarinna ára hafa því eðlilega í flestum tilvikum mótast meira af þörfum sjávarútvegs en annarra atvinnuvega. En sú vísa er aldrei of oft kveðin, hversu nauðsynlegt er að hafa í huga heildaráhrif einstakra efnahagsaðgerða á atvinnuvegina og efnahagslífið. Menn verða að sjá fyrir heildaruppbyggingu þó svo ekki verði komist hjá því að sinna ýmsum sérþörfum atvinnuvega og atvinnugreina.

Það mætti eyða löngu máli í að ræða starfsskilyrði atvinnuveganna, sem er að sjálfsögðu margflókið mál, og í þessu sambandi iðnaðar og samkeppnisaðstöðu hans við erlendan iðnað, bæði heima og heiman. En þar hygg ég að vegi þyngst margvíslegar íþyngjandi aukaverkanir verðbólgu síðustu ára. Hér eru að sjálfsögðu engin ný sannindi á ferð eins og menn þekkja. Við þessar aðstæður í íslensku efnahagslífi hafa menn glímt við að byggja upp iðnað í harðri samkeppni við erlenda iðnaðarvöruframleiðslu.

Iðnaðarframleiðslan hér á landi óx þó um 70% frá 1970 til 1979, en þjóðarframleiðslan í heild um 50%, þrátt fyrir þá viðurkenndu staðreynd, að iðnaðurinn hefur ekki notið aðstöðu í ýmsu tilliti til jafns við aðra undirstöðuatvinnuvegi, t. d. að því er varðar fjármagn og opinbera fyrirgreiðslu. Sem betur fer hafa íslensk fyrirtæki, bæði í framleiðslu- og þjónustuiðnaði, sýnt aðlögunarhæfni og styrk í ört vaxandi samkeppni við erlenda framleiðendur. Hitt er ljóst, að á mörgum sviðum á iðnaðurinn mjög undir högg að sækja og fer í ýmsum atriðum halloka í þeirri samkeppni. Til marks um hlutdeild iðnaðar í íslensku efnahagslífi sakar ekki að minna á að árið 1978 skilaði iðnaðurinn um það bil 35% þjóðarframleiðslunnar ef miðað er við tekjuvirði vergrar þjóðarframleiðslu. Af útflutningi eru iðnaðarvörur um það bil 22%. Hlutur iðnaðar er um það bil 16% í heildargjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Talið er að árið 1979 hafi verið um 100 þús. ársstörf hér á landi. Við iðnað störfuðu þá rúmlega 30 þús. manns, þ. e. við framleiðsluiðnað, þjónustuiðnað og byggingariðnað, eða 30% starfandi fólks.

Í upphafi máls míns gat ég þess, að iðnaðurinn þyrfti að taka við 6000–6500 manns á næstu 7–8 árum. Gera má ráð fyrir að yfir 25 þús. starfstækifæri verði að mynda fram til næstu aldamóta og verður drjúgur hluti þess fólks, sem kemur á vinnumarkaðinn, að hasla sér völl í iðnaði. Enda þótt við litum aðeins á þessar tölur er augljóst að menn mega ekki draga lappirnar þegar iðnaðurinn er annars vegar.

Ég drap áðan örfáum orðum á þær breyttu aðstæður sem urðu við EFTA-aðildina, fríverslunarsamningana. Eins og kunnugt er hafa jafnan síðan staðið deilur um það, hvort stjórnvöld á hverri tíð hafi staðið við gefin fyrirheit gagnvart íslenskum iðnaði. Ég hef ekki ætlað mér að setjast í dómarasæti í þessu tilliti, enda þýðingarlítið að sakast um orðinn hlut og hyggilegra að mínum dómi að horfa fram en aftur.

Eins og kunnugt er var aðlögunargjaldið fellt niður en jöfnunargjaldið framlengt. Gjöldum þessum var ætlaður gildistími til ársloka 1980. Jafnframt framlengingu jöfnunargjaldsins var ríkisstj. heimilað með ákvæðum til bráðabirgða að leggja á 2% jöfnunar- og aðlögunargjald eða ígildi þess til viðbótar jöfnunargjaldinu. Síðan hefur verið deilt um það, hvort réttlætanlegt væri gagnvart EFTA og EBE að láta bráðabirgðaákvæði laganna koma til framkvæmda. Sumir telja of mikið í húfi vegna hagsmuna okkar á viðskiptasvæði EFTA og Efnahagsbandalagsins í sambandi við hugsanlegar gagnaðgerðir í ljósi viðbótarjöfnunargjalds eða aðlögunargjalds, ef til kæmi, en á þetta hefur ekki reynt.

Að sjálfsögðu höfum við það í hendi okkar að jafna aðstöðu iðnaðar í samanburði við aðra atvinnuvegi hér innanlands, svo sem að því er varðar álagningarreglur og innheimtu söluskatts, prósentustig launaskatts og aðstöðugjald. Sem betur fer hefur nú verið tilkynnt af hálfu stjórnvalda að þarna muni verða gerðar leiðréttingar á næstu vikum. Ber að fagna því og sérstaklega að því er varðar launaskattinn. Auðvitað þarf að taka þessi mál mjög föstum tökum á næstu vikum og næstu mánuðum og huga í miklu ríkari mæli en gert hefur verið að jöfnun þeirrar aðstöðu sem oft hefur verið talað um.

En það, sem veldur e. t. v. mestum áhyggjum og við eigum sennilega fæst svör við, eru hinar að því er virðist margháttuðu stuðningsaðgerðir við iðnað erlendis í okkar nágrannalöndum. Eins og að líkum lætur eru þessar aðgerðir með misjöfnum hætti eftir löndum og jafnvel svæðisbundnar innan einstakra ríkja og misjafnar eftir iðngreinum. Þess vegna hlýtur að vera mjög örðugt að leggja fram óyggjandi sannanir þannig að hægt sé að beita þeim vopnum sem bíta, ef ég má svo að orði komast. Þó vilja sumir halda því fram og meðal annarra forsvarsmenn iðnaðarins, að nægar heimildir séu fyrir hendi til að staðfesta að þessar styrktaraðgerðir hafi mikil áhrif á samkeppnisaðstöðu íslensks iðnaðar. Ég vil minna á í þessu sambandi að í EFTA- og EBE-samningunum eru heimildir til tímabundinnar aðstoðar við einstakar iðngreinar sem eiga í erfiðleikum.

Hinar ýmsu iðngreinar hér á landi eru að sjálfsögðu misjafnlega á vegi staddar. Í örstuttri framsögu ætla ég mér ekki, enda ómögulegt, að gera svo miklu máli viðhlítandi skil. Ég vil þó leyfa mér að fara nokkrum orðum um húsgagna- og innréttingaiðnaðinn.

Samkv. könnun, sem gerð var 1977, virðist hlutur innlendrar húsgagnaframleiðslu af heildarmarkaði vera um 70%. En samkv. könnun, sem gerð var 1979, var þetta hlutfall komið niður í um 50%. Á liðnu ári virðist ekki að vænta bata nema síður væri. Innflutningsskýrslur bera vitni þess, að innflutningur húsgagna hafi aukist fyrstu sex mánuði liðins árs um 83% miðað við sömu mánuði fyrra árs. Sömuleiðis virðist innflutningur innréttinga hafa aukist gífurlega á fyrri hluta ársins 1981 eða um 92%. Það er giskað á að hlutur innlendrar húsgagnaframleiðslu sé nú um það bil 25% hér á heimamarkaði.

Ég átti fyrir skömmu tal við einn ágætan húsgagnaframleiðanda hér í Reykjavík. Hann fullyrti að sumar húsgagnaverslanir hefðu eingöngu erlend húsgögn á boðstólum, ekki vegna þess að forsvarsmenn þessara verslana vildu ekki í sjálfu sér selja íslenska vöru, heldur væru þeir beittir beinum eða óbeinum þvingunum af hálfu hinna erlendu viðskiptavina í ljósi hagstæðari kjara með tilliti til þess, að innlend framleiðsla kæmi þar ekki inn fyrir dyr. Ég bað þennan ágæta mann, sem ég nefni að sjálfsögðu ekki á nafn, að segja mér þetta aftur, hvað hann gerði. En hann bætti ýmsu við sem ég ætla ekki að hafa eftir á þessum vettvangi. Okkar samtali lauk með því, að hann sagði: „Það er bara tímaspursmál hvenær við þrákálfarnir hættum í greininni.“ Ég ætla að leyfa mér að vona að þetta reynist ekki áhrínsorð.

Ég sagði í upphafi að mikið hefði verið ritað og rætt um íslenskan iðnað á undanförnum árum. Margir hafa þar komið við sögu og flest hefur þar verið fallega sagt. En ég vil þó vera sanngjarn og viðurkenna að ýmislegt hefur verið vel gert.

till. til þál. um íslenska iðnkynningu, sem hér er til umr. og vonandi verður samþykkt, leysir að sjálfsögðu ekki allan vanda íslensks iðnaðar. Því fer fjarri. En slík iðnkynning, sem hrundið væri í framkvæmd í samvinnu við samtök iðnaðarins og neytendur í landinu, er að dómi okkar flm. mjög tímabært skref fram á veginn. Ekki síst með það að markmiði að móta jákvæðara viðhorf almennings til innlendrar framleiðslu og auka hlutdeild iðnaðarins þar með á heimamarkaði. Um leið sparast að sjálfsögðu dýrmætur gjaldeyrir, að ógleymdum öðrum markmiðum iðnkynningar.

Ég hef áður minnst á hversu ríkum skyldum iðnaðurinn hefur að gegna. Þess vegna er nauðsynlegt að beita öllum tiltækum ráðum til þess að bæta samkeppnisaðstöðu hans bæði heima og heiman. Gera má honum fært að auka framleiðni þeirra greina sem fyrir eru og ýta undir nýsköpun, en um leið aukast tekjur þjóðarinnar og velferð. Þar verða allir að leggjast á eitt. Að mínum dómi þyrfti að gera miklu meira en raun hefur orðið á til þess að hvetja íslenska neytendur til kaupa á innlendum varningi í stað erlendrar framleiðslu. Í því tilliti er óumflýjanlegt að halda uppi markvissum áróðri og gera þjóðinni grein fyrir því, hvað er í húfi. Í ljósi þess er íslensk iðnkynning í sjálfu sér varanlegt verkefni en ekki tímabundið.

Herra forseti. Við flm. þessarar till. álítum að umfangsmikil kynning á íslenskum iðnaði, framleiðslu hans og þjónustu auðveldi iðnaðinum að rækja margþætt hlutverk í efnahagslífi þjóðarinnar.

Ég mælist svo til þess, að að loknum þessum hluta umr. verði till. vísað til atvmn.