03.02.1982
Sameinað þing: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2209 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

354. mál, efnahagsmál

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl., Eiður Guðnason, hefur gert ítarlegan samanburð á loforðum ríkisstj. og efndum. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það.

Í fyrri hluta þessara umr., sem útvarpað var, ræddi ég stefnumörkun okkar Alþfl.-manna og tillögur okkar í efnahagsmálum, og ég vísa til þess um það efni. Ég vil þess vegna nota tímann núna til að benda á fáeinar staðreyndir fyrst og fremst sem við stöndum frammi fyrir í efnahagsmálum, með tilliti til þess hvernig ástandið er núna.

Efnahagsinnihald þeirra ráðstafana, sem ríkisstj. boðar, er í rauninni fyrst og fremst tvennt: Það eru 5.8% niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum í því skyni að lækka framfærsluvísitölu um sem því nemur og þar með kaupið í landinu og 0.2% lækkun með tollabreytingum. Á þessum grundvelli er það spá Þjóðhagsstofnunar, að framfærsluvísitalan muni hækka um 40–42% á árinu og byggingarvísitalan um 45%. Við vitum að vísu að spár Þjóðhagsstofnunar hafa tilhneigingu til að vera í lægri kantinum. En þegar þessi spá er gerð er gert ráð fyrir að engar grunnkaupshækkanir verði á árinu. Næsta spurning hlýtur þess vegna að verða sú: Hvernig mun þá kaup þróast? Samkv. þessari spá mundi kaupið hækka um 33%. Þarna mundi því mælast 5–7% kaupmáttarskerðing. Ég segi „mælast“, vegna þess að þegar menn tala um kaupmátt hér eru notaðir mælikvarðar eins og framfærsluvísitala sem allir vita náttúrlega að er úrelt orðin með öllu. Til viðbótar þeirri kaupmáttarskerðingu, sem þannig mælist, miðað við þær aðgerðir sem ákveðnar hafa verið, þau markmið sem menn stefna að og stefna í 40–42% verðbólgu, — til viðbótar þeirri kaupmáttarskerðingu, sem þannig kemur glögglega fram í forsendum þessarar spár, mun kaupmáttur fyrir sakir þessara ráðstafana lækka um 4%. Hann mun gera það í raun og sannleika vegna þess að þær vörur, sem greiddar eru niður, vega of þungt í vísitölunni. Þegar 6% eru greidd niður má gera ráð fyrir að upp undir 2/3 af því séu falstölur, þannig að hér muni verða 4% kaupmáttarskerðing í framfærslu heimilanna til viðbótar því sem ég rakti áðan.

Sú stefna, sem hér er boðuð og sagt að eigi að skila 35% verðbólgu á árinu, skilar því 42% verðbólgu, en forsendurnar fyrir því eru heildarkaupmáttarskerðing í reynd sem nemur 9–11%. Þetta eru einkar athyglisvert. Nú munu allir vera sammála um að þær tillögur og þær aðgerðir, sem hér hefur verið gripið til, séu upp úr hugmyndafræðibók Alþb. Þeir segja það líka sjálfir , Alþb. menn, að þetta séu þeirra tillögur, og eru hreyknir af því.

Framsfl. er mjög ólukkulegur þessa stundina, eins og hér hefur verið vitnað til, vegna þess að hann háði sinn bardaga fyrir efnahagsráðstöfunum á síðum Tímans og í öðrum fjölmiðlum, en ekki í ríkisstj., ef marka má niðurstöðuna. Framsókn er í rauninni orðin eins konar útibú frá Alþb. Hver hefði trúað að Alþb.-menn yrðu svona lukkulegir með þá frammistöðu að skerða kaupmáttinn í kringum 10% á árinu og hrósuðu sér af því? Mig minnir að sá flokkur hafi talað mikið um að standa vörð um kjör launafólks.

Til þess að mæta þessu er talað m. a. og sérstaklega um niðurskurð á fjárlögum. Nokkur atriði hafa verið nefnd, komið fram í ræðum ráðh. Það er t. d. talað um niðurskurð á ferðalögum til útlanda. Ég skil það í sjálfu sér ósköp vel að hæstv. fjmrh. skuli hafa ofboðið utanferðir samráðh. sinna og talið ástæðu til að gera það að sérstöku stefnumiði að draga úr þeim. Hvort hann hefur árangur sem erfiði er ég ekki jafnviss um. Það er líka talað um að draga úr kostnaði við Landhelgisgæsluna. Ég get í sjálfu sér skilið það líka að hæstv. fjmrh. hafi ofboðið kostnaður sem hafi verið lagður á Landhelgisgæsluna á árinu. Ég skil þetta svo, að á því ári, sem nú er nýhafið, verði t. d. ekki farið með neina rostunga til Grænlands. — En auðvitað spyrja menn sjálfa sig hvort það verði um raunverulegan niðurskurð að ræða. Hvort hér verður um raunverulegan samdrátt í ríkisútgjöldum að ræða mun ráða miklu um hvort þetta 42% mark næst. Ef ekki verður um raunverulegan samdrátt í ríkisútgjöldum að ræða fer það mark líka forgörðum.

Jafnframt er talað um niðurskurð á framlögum til fjárfestingarlánasjóða. Það skiptir máli hvert verður framhaldið á því, jafnvel þó að sá niðurskurður eigi sér stað. Verða tekin erlend lán í staðinn fyrir þann niðurskurð, sem þarna á sér stað, eða verður dregið úr útlánum sjóðanna? Reynslan hefur verið sú, að það hafa verið tekin erlend lán í staðinn. Það er ávísað á erlend lán. Ef það gerist áfram mun ekki heldur þetta 42% mark ríkisstj. standast.

Við Alþfl.-menn bentum á það við upphaf þessa árs og í sambandi við 7% kaupskerðingu ríkisstj. 1. mars, að ef ekki yrði fylgt skynsamlegri peningamálapólitík mundi nákvæmlega það sama gerast núna hjá þessari ríkisstj. og hjá ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Ofþenslan í peningamálum og reyndar í erlendum lántökum, sem hefur verið geigvænleg á s. l. ári, mundi sprengja þetta allt af sér og árangurinn mundi renna út í sandinn. Þessu spáðum við Alþfl.-menn og þetta hefur komið fram. Það var einmitt þetta sem gerðist. Verðbólgan hljóp fljótt í sama farið þó að það tækist aðeins að draga úr hraða hennar með góðri aðstoð úr Hvíta húsinu.

Útlánaaukning bankakerfisins hefur verið geigvænleg á undanförnu misseri, og jafnframt hefur það gerst, að innlánaaukningin hefur stöðvast. Fólk hefur tapað trú á að innlánin héldu verðgildi sínu. Fólk hefur í annan stað ekki haft efni á því að safna sparifé. Það sér ekkert til nýrra vinnubragða í peningamálastjórn hjá núv. ríkisstj. Fortíð ríkisstj. í peningamálum hræðir og þó alveg sérstaklega þær geigvænlegu lántökur sem hafa átt sér stað á þessu ári, en enn frekar þau áform sem uppi eru fyrir næsta ár samkv. lánsfjáráætlun, þar sem nota á helminginn af erlendum lánum til að endurnýja gömul lán, velta á undan sér, og þriðjunginn, sem þá er eftir, í hrein eyðslulán.

Enn er það svo, að gert er ráð fyrir að lækka tolla — hefur verið samþykkt — og talið að það muni nema 22 millj. kr. En það var einkar athyglisvert í ræðu hæstv. fjmrh. í Ed. í gær, að hann upplýsti jafnframt að tollafgreiðslugjaldið ætti að gefa 50–60 millj. kr. Það á sem sagt að úthluta almenningi 22 millj., en taka af honum 50–60 millj. kr. Ekki er þetta umhyggja fyrir fólkinu í landinu. Þetta er hluti af þeim skollaleik sem um er að ræða.

Einn er sá kafli í efnahagsskýrslu ríkisstj. sem lætur nærri sanni. Það er inngangskaflinn um efnahagshorfur. Við höfðum minnst á það fyrir jól, Alþfl.-menn, að það horfði heldur skuggalega í þessum efnum og jafnframt að menn skyldu vara sig á því að steypa sér í þær erlendu lántökur sem fyrirhugaðar væru, þegar grundvöllurinn undir efnahagslífinu væri eins ótraustur og raun ber vitni og horfur á samdrætti í þjóðartekjum mundi greiðslubyrðin enn þyngjast. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. frá því að hún var stofnuð var talað um 15% greiðslubyrði af erlendum lántökum sem markmið. Nú er talað um 20%. Mönnum finnst þetta kannske lítill munur, bara 5 prósentustig. En menn gæti að því, að 5 prósentustigahækkun þarna er þriðjungurinn af því sem að var stefnt. Þetta er 331/3% hækkun á greiðslubyrðinni. Þetta er auðvitað geigvænleg þróun.

En þjóðhagshorfurnar gefa líka tilefni til að huga að því, að það er útlit fyrir vaxandi viðskiptahalla. Það, sem er athyglisvert í sambandi við tillögur ríkisstj., er að þetta, sem er reyndar bent á að því er varðar þjóðhagshorfur í inngangskafla skýrslunnar, mun ekkert breytast eða lítið sem ekkert við þær ráðstafanir sem gripið er til. Viðskiptahallinn, sem spáð er, mun lítið hnikast til þrátt fyrir þær ráðstafanir sem hér er gripið til, þannig að það, sem talið er forsenda fyrir aðgerðum, skilar engum árangri á þann mælikvarða sem bent er á sem forsendu.

Ríkisstj. hefur oft á undanförnu misseri hrósað sér af jafnvægi. Hún hrósaði sér framan af árinu af jafnvægi í peningamálum, innlán væru að aukast. Hún hefur ekkert minnst á jafnvægi í peningamálum nú seinustu mánuðina, enda ríkir þar svo hrikalegt ójafnvægi að annað eins hefur ekki sést um langan tíma.

Ríkisstj. hrósaði sér líka af jafnvægi í viðskiptum við útlönd á fyrri hluta ársins. Hún hefur ekkert minnst á jafnvægi í viðskiptum við útlönd síðari hluta s. l. árs. Hún talar ekki um það núna. Það stefnir líka í 500 millj. kr. halla í viðskiptum okkar við útlönd á árinu 1981, og það er útlit fyrir verulega aukningu, líklega um það bil álíka upphæð, á árinu 1982. Jafnvægi er því ekki fyrir að fara á þessu sviði.

Það var mikið talað um jafnvægi í ríkisfjármálunum hér framan af stjórnarferli ríkisstj. Það er ekki eins mikið talað um það núna, enda afhjúpað að þær jafnvægistölur, sem birtar hafa verið, hafa verið fundnar með talnaleik, talnatilfærslu milli A- og B-hluta, sem auðvitað skilar engum raunverulegum árangri í efnahagsmálum, heldur er bara til þess að sýnast út á við. Menn skulu ekki gera ráð fyrir að með slíkum talnakúnstum náist einhver árangur.

Megingallinn við þá skýrslu ríkisstj., sem hér er tekin til umr., er ekki hvað hún er eða hvað er í henni. Hann er eiginlega sá, að hún er ekki neitt. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að fara í gegnum skýrsluna. Við höfum áður séð svona plögg. Við sáum þau fyrir 13 mánuðum. Þá var svona plagg sett fram í 32 tölusettum liðum. Nú eru liðirnir 22, en ótölusettir. Það var ekkert gert með það plagg frekar en stjórnarsáttmálann, og auðvitað verður ekkert gert með þetta plagg heldur frekar en það sem á undan er gengið, og þess vegna ekki ástæða til að fara í gegnum það.

Þær bráðabirgðaráðstafanir, niðurgreiðslur o. s. frv., sem ég hef gert hér eilítið að umtalsefni, munu endast ákaflega skammt. Þetta þýðir að við stöndum áfram í sömu sporum. Við erum áfram með svipaða verðbólgu og áður. Hún er reyndar svipuð og þegar ríkisstj. tók til starfa. Við sjáum engar framfarir. Þess sér ekki stað. Það verður haldið áfram í niðurgreiðslu- og launakrukksleiknum og það á að halda áfram að grípa til bráðabirgðaráðstafana, væntanlega á 2–4 mánaða fresti. Mottó þessarar ríkisstj., stefnan sem verður lesin út út gerðum ríkisstj., er að það megi engu breyta. Þess vegna hlýtur dómurinn um þessa ríkisstj. að verða sá, að þetta sé íhaldssamasta ríkisstjórn sem nokkurn tíma hafi setið á Íslandi. — [Fundarhlé.]