03.02.1982
Sameinað þing: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2212 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

354. mál, efnahagsmál

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar þessar umr. hefjast nú að nýju held ég að rétt væri að benda hæstv: forseta á að sumir þm., sem hafa tekið þátt í umr. og gert fsp., sinna ekki skyldum sínum að vera hér viðstaddir. Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og Kjartan Jóhannsson hafa t. d. bæði beint ásökunum til ráðh. um að þeir væru ekki viðstaddir og auk þess krafist svara við ýmsu. Þess vegna finnst mér lágmarksskylda að þessir menn séu viðstaddir þegar fundurinn byrjar.

Annars vil ég svara því til vegna aðfinnslna sumra hv. þm. um að ekki séu allir ráðh. hér staddir, að ég ætla að það sé venja í þingi að þm. láti sér nægja að sá ráðh., sem flytur mál og er í fyrirsvari fyrir það, sé viðstaddur til andsvara og til að hlýða á mál manna. Ég held að, það sé ekki venjuleg krafa að þm. geri sig svo stóra að krefjast þess, að öll ríkisstj. hlýði á mál þeirra. Þessi skýrsla er flutt af forsrh. og hann hefur veríð viðstaddur þessar umr. allar.

Þegar útvarpsumræður eru hafðar um eitthvert mál er að vísu heimild í þingsköpum til að halda umr. áfram eftir að útvarpsumræðum lýkur. Hitt er þó langalgengast, að umr. sé lokið um leið og útvarpsumræðum lýkur. Sá háttur, sem hér er á hafður, er að sjálfsögðu heimill samkv. þingsköpum, en heldur óvenjulegur, og menn geta getum að því leitt, hvers vegna þessi háttur er á hafður. Það er enginn vafi á því, að sumir þeirra, sem töldu sig sjálfkjörna til að taka þátt í útvarpsumræðunum, en komust ekki að, hafa nú viljað láta ljós sitt skína hér. En í þessu sambandi er það athyglisvert, að ræður þeirra tveggja hv. þm., sem hér töluðu fyrir hönd stjórnarandstæðinga í Sjálfstfl., hafa ekki fundið náð fyrir augum Morgunblaðsins. Það er nefnilega venja að eftir útvarpsumræður eru ræður þm. Sjálfstfl. birtar daginn eftir eða allra næstu daga í því blaði. Frá þessu hefur verið brugðið nú og leiða menn mjög getum að því, hvað valda muni. Það eru nú liðnir fimm útkomudagar blaðsins án þess að sjáist tangur eða tetur af þeim ræðum sem hér voru fluttar af þeim hv. þm. Friðrik Sophussyni og Ólafi G. Einarssyni. (ÓE: Veit forsrh. nokkra skýringu á þessu?) Já, ég hef skýringu á því. (ÓE: Megum við ekki heyra hana?) Hún er vafalaust sú, að það er dómur Morgunblaðsins og væntanlega stjórnarformanns þess, að það sé ekki fengur að því að birta þessar ræður. (Gripið fram í.) Ja, ég hef ekki heyrt aðra frambærilega skýringu á þessu. Það má vel vera að Morgunblaðið beri fyrir sig plássleysi, en vart er það frambærilegt því að þessa daga hefur Morgunblaðið komið út í 256 bls. auk Lesbókar, svo að nóg ætti plássið að vera fyrir þessar merku ræður. En einhverjar hljóta ástæðurnar að vera fyrir því. Ef hv. þm. Ólafur G. Einarsson tekur hér nú aftur til máls eftir sína frægu ræðu frá því um daginn, þá skilur hann kannske að nokkru hvers vegna ræður þeirra hafa ekki fundið náð fyrir augum blaðsins, sem er sem sagt mjög óvenjulegt. (Gripið fram í.) Hvað ætlar hv. þm. að segja meira? (ÓE: Ég sagði: Þetta var billegt.) Billegt? Ég held að það væri afskaplega „billegt“ fyrir Morgunblaðið að birta ræðu Ólafs G. Einarssonar. (Gripið fram í: Mjög ódýrt.) Ég skil ekki að það kosti mikið. En eitthvað kemur þetta við kaunin á hv. þm., sem er kannske ekki undarlegt, því að ræða hans var með þeim hætti að lítill sómi var að.

Í ræðum þeirra hv. fjögurra þm., sem nú hafa takið til máls, eru fjölmörg atriði sem rædd hafa verið áður, bæði í útvarpsumræðum ítarlega og einnig í sambandi við önnur mál að undanförnu. Gerist því engin þörf á að fara út í þau atriði öll. En það er athyglisvert, að ræða hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar var í upphafi fyrst og fremst upplestur úr blöðum frá því í fyrra og frá því um áramót, samtöl við menn þar sem mismunandi áherslur voru lagðar á ýmis atriði í sambandi við efnahagsmál. Með þessu ætlaði hv. þm. náttúrlega að sýna ágreining innan ríkisstj. En þessi málflutningur hv. þm. er auðvitað algjör tímaskekkja því að efnahagsaðgerðir hafa nú verið skýrðar fyrir Alþingi og lagðar fram fyrir alþjóð, efnahagsaðgerðir sem öll ríkisstj. og allir ráðherrar eru algjörlega sammála um. Er þess vegna heldur seint að verið að fara núna að þylja upp úr gömlum blaðagreinum eða samtölum. Hins vegar sýnir þetta hvílík röksemdafátækt er hér á ferðinni hjá þessum hv. þm., eins og raunar hefur komið fram hjá öllum þeim fjórum hv. þm. stjórnarandstöðunnar úr Sjálfstfl. sem þátt tóku í útvarpsumræðunum, þar sem hvergi örlar á einu einasta úrræði. Þetta er samtíningur, upplestur úr blöðum, blaðagreinum og blaðaviðtölum, sumum gömlum, án þess að nokkuð bóli á einni einustu ábendingu um hvað þeir telji að gera skuli.

Þegar þessi hv. þm. leggja nú svo mikið upp úr því að reyna að sýna fram á að eitthvað hafi verið skiptar skoðanir og ólíkar áherslur á ýmsum atriðum í efnahagsmálum í desember og fyrri hluta janúar, þá eru þeir kannske um leið að reyna að breiða yfir það sem gerst hefur tvo síðustu daga hér í þingi, þar sem stjórnarandstaðan er nú svo heillum horfin að þegar fyrsta frv. í sambandi við efnahagsaðgerðir ríkisstj., um lækkun tolla á heimilistækjum, er flutt hér í þingi, þá gat stjórnarandstaðan ekki einu sinni staðið saman í því efni, heldur klofnaði hún í báðum deildum og þurfti að skila tveimur álitum bæði í Ed. og Nd.

Þegar hlýtt er á mál hv. þm. Lárusar Jónssonar hér er margt þar sem vekur furðu, auðvitað hvað málflutningur er þar innihaldslítill, en ekki síst eitt atriði. Hv. þm. hefur gert sér mjög títt um að deila á ríkisstj. fyrir að ganga í ýmsum efnum gegn stefnu Sjálfstfl., eins og hann kallar það. En þegar í þessum efnahagsaðgerðum eru nú í ýmsum efnum tekin upp atriði sem Sjálfstfl. hefur á sinni stefnuskrá, — ég skal nefna dæmi: að draga úr opinberum afskiptum af verðlagsmálum, að lækka ríkisútgjöld, að gefa sveitarfélögunum frjálsari og rýmri hendur um ákvörðun í mikilvægum málum, — þá hefur þessi hv. þm. samt allt á hornum sér og verður eiginlega þeim mun eldsúrari sem fleiri stefnumál sjálfstæðismanna komast áleiðis. Hann um það, en það sýnir hver hin málefnalega staða er.

Í máli þeirra hv. þm. Lárusar Jónssonar og Kjartans Jóhannssonar var sagt að vísitöluspá Þjóðhagsstofnunar nú væri sú, að eftir þessar efnahagsaðgerðir yrði verðbólgan á þessu ári 40–42%. Þessi ummæli beggja þm. er röng — alröng. Það er margtekið fram af forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar, að það, sem hér er um að ræða, er alls ekki spá Þjóðhagsstofnunar. Hann hefur tekið það skýrt fram munnlega og bréflega — og það vita þessir hv. þm. báðir — að það, sem hér er um að ræða er framreikningur, eins og forstöðumaðurinn kallar það, framreikningur á verðbólgu eins og hún mundi vera miðað við ýmis skilyrði, en alls ekki spá um verðbólguna. Ég tel að þessir hv. þm. ættu að sjá sóma sinn í að leiðrétta þetta ranghermi sitt.

Í öðru lagi er þess að geta, að þegar þessi framreikningur nú sýnir 40–42%, þá er náttúrlega í fyrsta lagi byggt á því, að ekkert verði gert frekar til ársloka í efnahagsmálum annað en það sem er þegar búið að ákvarða. Það liggur svo í hlutarins eðli og kemur skýrt fram í yfirlýsingu ríkisstj., að vitanlega þurfi að gera fleira til að ná því marki sem sett er, 35% frá upphafi til loka árs og verðbólguhraða um 30% í lok ársins. Í fyrra, eftir að efnahagsáætlun ríkisstj. frá því á gamlársdag 1980 var birt, var Þjóðhagsstofnun einnig beðin um sams konar upplýsingar, sams konar framreikning og nú hefur verið gerður. Niðurstaðan varð þá sú, að verðbólgan samkv. þeim framreikningi mundi verða um 50% frá upphafi til loka árs. Verðbólgan varð um 40%. Þetta verða menn að hafa í huga um leið og undirstrikað er að Þjóðhagsstofnun margtekur fram að þetta sé ekki spá eða áætlun, heldur framreikningur byggður á vissum forsendum. — Þessi framreikningur var sem sagt í janúarmánuði í fyrra, fyrir ári, 50%. Verðbólgan varð 40%. Nú er þessi framreikningur 40–42%. Við væntum þess, að okkur takist að ná því marki sem við höfum sett fram í okkar skýrslu um efnahagsaðgerðir.

Þá koma svör þessara hv. stjórnarandstæðinga: Þetta er ekkert að marka, vísitalan er fölsuð. — Það er alveg eins og þegar ríkissjóður nær jöfnuði nú tvö ár í röð, 1980 og 1981, með nokkrum greiðsluafgangi. Þá er vaðið hér upp með fullyrðingum um að verið sé að falsa ríkisreikninginn. ríkisbókhaldið og aðrir aðilar, sem að þessu standi, séu að falsa alla reikninga. Svona frammistaða, svona röksemdir, ef maður á að kalla það því nafni, er náttúrlega svo langt fyrir neðan virðingu Alþingis að þessir þm. ættu ekki að leyfa sér að bera slíkt fram.

Við skulum taka fyrra atriðið, að ríkisstj. sé að falsa vísitöluna. Hver er það sem reiknar út og ákvarðar vísitöluna? Menn skyldu halda eftir þessum ósvífnu fullyrðingum að það væri ríkisstj. Það er alls ekki ríkisstj. Það er sérstök nefnd sem heitir Kauplagsnefnd. Ég ætla að formaður hennar sé skipaður af Hæstarétti og svo er þar fulltrúi frá Vinnuveitendasambandi Íslands og annar frá Alþýðusambandi Íslands. Þessir þrír menn ákvarða framfærsluvísitöluna á hverjum tíma með aðstoð Hagstofunnar. Ríkisstj. kemur þar hvergi nærri.

Þá á fölsunin væntanlega eftir kenningu þessara manna að vera fólgin í því að verið sé að lækka tolla. Það er verið að lækka tolla á ýmsum heimilistækjum. Nú hefur verið upplýst í þessum umr. á þingi, í báðum deildum, og þessir hv. þm. vita það ósköp vel, að lækkun tolla á heimilistækjum nær engan veginn eingöngu til vara sem koma inn í vísitöluna, heldur eru þar mörg tæki og áhöld sem alls ekki snerta vísitöluna.

Þá komu þeir að því, að með niðurgreiðslunum sé verið að falsa vísitöluna. Það er vitað, að fyrir þessar efnahagsaðgerðir var prósenttala niðurgreiðslna 5%. Hún hefur verið á undanförnum árum frá 7 upp í 11%. M. ö. o.: niðurgreiðslur hafa fram að þessu verið lægri en yfirleitt áður. Með þeim niðurgreiðslum, sem nú eru ákveðnar og komnar til framkvæmda, mun hlutfall niðurgreiðslna fara upp í um 7%, sem er í lægra kanti af því sem hefur verið fjöldamörg undanfarin ár. Ég ætla t. d. að í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar hafi niðurgreiðslur verið um það bil eða stundum hærri. Þegar hv. þm. Kjartan Jóhannsson tekur sér það enn í munn, að verið sé að falsa vísitöluna, m. a. með aukningu niðurgreiðslna, þá vil ég minna á að í ríkisstj. þeirri, sem hann átti sæti í og mynduð var 1978, komust niðurgreiðslur að hlutfalli upp í 11%, urðu sem sagt miklu hærri heldur en þær eru nú og heldur en þær verða eftir þær niðurgreiðslur sem ráðgerðar eru í maímánuði.

Ekkert af þessum fullyrðingum fær staðist. Ríkisstj. á að vera að falsa vísitöluna. Það er ekki hún, heldur sérstök kauplagsnefnd sem reiknar hana út og ákveður hana án þess að ríkisstj. komi þar nærri. Tollalækkanirnar snerta ekki síður vörur, sem ekki eru í vísitölunni, og niðurgreiðslurnar hafa oftast nær undanfarin ár verið hærra hlutfall en nú er. Síðan leyfir hv. þm. Lárus Jónsson sér að orða það þannig, að þessar niðurgreiðslur séu orðnar hrikalegar. Ég hefði haldið að maður með viðskiptafræðimenntun, sem virðist vera talinn hér aðalsérfræðingur stjórnarandstæðinga í Sjálfstfl. í efnahagsmálum, ætti að vita betur og hlyti að gera það. Hann á ekki að slá fram slíkum fullyrðingum.

Auðvitað eru margvíslegir annmarkar á niðurgreiðslum. Ég þakka hv. þm. Friðrik Sophussyni fyrir að einn besti kaflinn í ræðu hans hér um daginn var upplestur úr grein eftir mig um niðurgreiðslur. (FrS: Hvernig væri að lesa hana aftur?) Ég meina hvert orð af því sem þar stendur. Það er augljóst að margvíslegir annmarkar eru á niðurgreiðslum, og t. d. átti ég minn þátt í því í viðreisnarstjórninni á sínum tíma að reyna að draga sem mest úr niðurgreiðslunum. En menn verða að gera sér grein fyrir því, að niðurgreiðslur eru bein afleiðing af því vísitölukerfi sem við búum við. Hvenær sem slíkt vísitölukerfi er í gangi kallar það á og knýr fram stórauknar niðurgreiðslur. Um leið og hægt væri að losna við höfuðannmarka vísitölukerfisins væri möguleiki til þess að minnka niðurgreiðslur og vissulega kemur það mjög til athugunar. Menn verða að gera sér grein fyrir því, hvert samband er þarna á milli.

Hv. þm. Lárus Jónsson spyr út af ákvæðinu um viðmiðunarkerfi: hvað þýðir þetta? Við höfum orðað það svo, að við teljum æskilegt — og í rauninni er það þegar byrjað — að hefja viðræður við fulltrúa launþega og aðra aðila vinnumarkaðarins um nýtt viðmiðunarkerfi sem sé laust við höfuðannmarka núverandi kerfis, en geti um leið tryggt kaupmátt og kjarajöfnun fyrir launþega, sérstaklega fyrir láglaunafólkið. Þessar viðræður eru nú að hefjast. Þá vill hv. þm. fá yfirlýsingar um það frá mér, hvað eigi að felast í þessari endurskoðun. Þegar verið er að framkvæma úttekt á mjög vandasömu og viðkvæmu máli, telja menn þá að það sé ráðið að telja upp fyrirfram hvað ætlast sé til að komi út úr þessari úttekt og því samkomulagi eða samningaviðræðum sem verið er að hefja? Auðvitað eru það ákaflega mörg atriði sem þarna þarf að kanna. Það væru náttúrlega mjög svo óeðlilegt og óheppileg vinnubrögð af ríkisstj. hendi að fara nú í upphafi slíkra viðræðna að telja upp öll þau atriði sem hún krefst eða óskar eftir að séu í þessu nýja viðmiðunarkerfi. Þannig á ekki að vinna að málum.

Hins vegar spyr svo hv. þm. Lárus Jónsson um það, hvort menn séu sammála í ríkisstj. um hverjir séu höfuðókostir núverandi vísitölukerfis. Ég held að það sé full samstaða, ekki aðeins meðal ráðh., heldur meðal alls þingheims og í rauninni þjóðarinnar um það, að augljóst sé að höfuðókostir núverandi kerfis eru víxlhækkanir og sjálfvirkni. Ef verðlag hækkar á einhverri vöru, hvort sem það er búvara eða annað, hækkar kaup sjálfkrafa. Við það hækkar fiskverð, við það hækkar svo verðlag aftur og vegna þess hækkar kaupgjald að nýju og þannig koll af kolli. Það er þessi sjálfvirkni og víxlhækkun sem er höfuðókostur núverandi kerfis. Innan ríkisstj. eru menn að sjálfsögðu sammála um að þetta er höfuðókosturinn, og ég dreg ekki í efa að allir þm. séu á sama máli.

Sami hv. þm. spyr hvort ég telji að atvinnulífið hafi búið við traustan grundvöll í stjórnartíð okkar. Það hefur staðið atvinnulífi á Íslandi öðru fremur fyrir þrifum hversu mikil verðbólga hefur verið hér í fjölda undanfarinna ára. Hjöðnun verðbólgu er tvímælalaust eitt mesta hagsmunamál atvinnulífsins í landinu. Um það ættu í rauninni allir að geta verið sammála. Ég ætla að frá samtókum og fulltrúum atvinnuveganna í landinu liggi fyrir margvíslegar yfirlýsingar og samþykktir í þessa átt. Þess vegna leiðir það af sjálfu sér, að þegar verðbólgan hjaðnar, eins og hún gerði á síðasta ári, þá er það eitt út af fyrir sig veruleg hagsbót fyrir atvinnulífið í landinu. Hitt hljóta menn einnig að vera sammála um, að árangur í baráttunni við verðbólgu næst ekki án þess að um tíma herði einhvers staðar að. Það eru raunar sumir sem trúa því, að árangur náist ekki í verðbólgubaráttu án þess að svo mjög sé hert að í atvinnulífi að til atvinnuleysis komi. Þeir eru til ýmsir á okkar landi sem halda því fram. Í sumum nágrannalöndum okkar, sérstaklega einu, er ráðandi stefna að til þess að ná niður verðbólgu verði að hafa verulegt atvinnuleysi og jafnvel vaxandi um tíma. Ríkisstj. er andvíg þessari skoðun. Hún vill ekki fallast á þá kenningu, að til þess að ná því meginmarkmiði að halda uppi fullri atvinnu sé glíman við verðbólguna vonlaus, eða á hinn bóginn, ef við ætlum að ná niður verðbólgunni hljóti að skapast atvinnuleysi.

Það er ljóst að á síðasta ári tókst að ná verulegum árangri í baráttunni við verðbólguna þegar hún lækkaði úr 60 niður í um 40% frá upphafi til loka árs. Þetta tókst án þess að svo væri hert að atvinnulífinu að til nokkurs atvinnuleysis kæmi. Sú staðreynd, að á Íslandi, nær eina landinu í okkar heimshluta, kom ekki til atvinnuleysis á síðasta ári, hlýtur að teljast nokkur vitnisburður gegn þeirri staðhæfingu stjórnarandstöðunnar, að atvinnuvegir landsmanna hafi verið og séu á heljarþröm. Ef við lítum á ástandið og tökum stærsta atvinnuveg þjóðarinnar, fiskvinnsluna, þá er það mat Þjóðhagsstofnunar nú að fiskvinnslan í heild sé rekin með nær 7% hagnaði. Þegar talað er um fiskvinnsluna í heild er að sjálfsögðu átt við þessar þrjár greinar: frystingu, skreiðarframleiðslu og saltfisk.

Herra forseti. Það eru ekki mörg atriði önnur sem hér þarf við að bæta vegna þess að flest önnur atriði, sem hv. þm. hafa gert að umtalsefni, hafa verið rædd áður ýmist í útvarpsumræðunum s. l. fimmtudag eða jafnvel í öðrum samböndum. Þó er rétt að nefna hér gengismálin sem sumir hv. þm. hafa gert að umtalsefni. Þá hafa menn minnst á efnahagsáætlun ríkisstj. frá því á gamlársdag 1980 og reynt að túlka hana þannig, að hún hafi ekki staðist. Hvað segir í þeirri yfirlýsingu? Þar segir að hætt skuli við gengissig, sem þá hafði verið beitt í mörg undanfarin ár, og halda gengi sem stöðugustu næstu mánuði. Þegar við nefndum næstu mánuði höfðum við vonir um að takast mætti um þriggja mánaða skeið að halda genginu stöðugu. Þetta var mikilvægt atriði í sambandi við baráttuna gegn verðbólgunni og þá efnahagsáætlun. Þetta tókst ekki aðeins, heldur tókst að halda genginu stöðugu í fimm mánuði, í fyrstu fimm mánuði ársins í stað þriggja sem við höfðum gert okkur vonir um. Hitt, að í þeim umbyltingum, sem eiga sér stað um allan heim, og erfiðleikum í efnahagslífi og þeirri einkennilegu þróun sem á sér stað um gjaldmiðla erlendis, hvernig þeir lækka og hækka á víxl, sé hægt að slá því föstu, að gengið skuli vera óbreytt misserum og árum saman, það gat engum manni dottið í hug.

Ég gerði grein fyrir stefnu ríkisstj. í gengismálum þegar ég flutti stefnuræðu 22. okt. s. l. hér á hv. Alþingi. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar litið er til langs tíma verður að miða gengisskráningu við að jafnvægi haldist í viðskiptum við önnur lönd og tryggður sé rekstrargrundvöllur útflutningsatvinnuvega og þeirra atvinnugreina sem eiga í samkeppni við innflutning. Ríkisstj. mun miða stefnu sína við þetta grundvallarsjónarmið, en jafnframt gæta ítrustu aðhaldssemi í gengismálum.“ Þetta er sú meginstefna sem ríkisstj. fylgir í gengismálum.

Einn hv. þm., það mun hafa verið Eiður Guðnason, taldi — og raunar hafa fleiri komið inn á það — að lækkun verðbólgunnar á síðasta ári væri að þakka Bandaríkjastjórn, Hvíta húsinu, vegna þróunar dollarans. Það er næsta furðulegt að menn skuli grípa til þessarar skýringar. Þegar þetta mál er skoðað liggur það þannig fyrir í fyrsta lagi: Auðvitað var það hagur fyrir íslenska útflutningsframleiðslu hvernig dollaragengið þróaðist. En þessir ágætu menn sleppa vísvitandi öllum öðrum þáttum þessa máls. Vita þeir ekki að t. d. allar olíuvörur til landsins eru greiddar í dollurum, þar er alltaf miðað við dollaragengi. M. ö. o.: þessi mikilvægi þáttur í okkar innflutningi og okkar þjóðarbúskap hækkar auðvitað í verði um leið og dollarinn hækkar. Hvers vegna má ekki minnast á þetta? Hvers vegna má ekki minnast á það, að um leið og dollarinn hækkaði á s. l. ári lækkuðu gjaldmiðlar í Evrópu, ekki vegna gengisstefnu íslensku ríkisstj., heldur þróaðist hlutfallið milli þeirra á þessa leið? Þetta varð auðvitað til þess að valda ýmsum okkar útflutningsgreinum, sérstaklega iðnaði sem seldi mikið af vörum á Evrópumarkað, miklum erfiðleikum sem þessir sanngjörnu stjórnarandstæðingar kenndu náttúrlega alltaf ríkisstj. um. M. ö. o.: blekkingin er svo taumlaus í þessu efni, að alltaf er talið að gengisþróunin á síðasta ári í öðrum löndum hafi verið eingöngu okkur í hag og hún hafi fært okkur svo mikla búbót að þess vegna hafi vísitalan lækkað.

Það er von að hv. þm. Kjartan Jóhannsson glotti. En hann ætti heldur að reyna að feta veg sannleikans betur en hann hefur gert þegar hann kemur hingað upp í ræðustólinn aftur, því að það er ekki boðlegt, hvorki gagnvart þingheimi né þjóðinni, að telja fram aðeins eina hlið málsins, en sleppa öðrum sem mjög eru mikilvægar.

Um leið og það er auðvitað ljóst, að hækkun dollarans á síðasta ári var mikill ábati fyrir frystiiðnaðinn og þær greinar sem seldu vörur sínar í dollurum, þá er líka ljóst, að þetta olli okkur stórfelldum viðbótarútgjöldum vegna þess að það er ekki aðeins olían, sem er miðuð við dollara, heldur gildir það um fjölmargar aðrar vörur, einnig margar sem keyptar eru frá Evrópu, að verðið er miðað við dollara. Þeir erfiðleikar, sem iðnaður og fleiri greinar urðu fyrir á s. l. ári, stafa einmitt af þessari misþróun gjaldmiðlanna sem íslensk ríkisstj. gat auðvitað ekkert ráðið við. Það hefði verið heiðarlegri málflutningur hjá þessum hv. þm. að láta þessi sjónarmið koma fram. Það sýnir í rauninni málefnafátæktina að til slíks skuli þurfa að grípa.