03.02.1982
Sameinað þing: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2221 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

354. mál, efnahagsmál

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég hafði satt að segja ekki ætlað mér að taka frekari þátt í þessum umr. en ég hafði þegar gert, en eftir ræðu forsrh. get ég ekki stillt mig um að segja hér nokkur orð.

Hæstv. forsrh. byrjaði ræðu sína á að amast við því, að umr. skyldi haldið áfram eftir að hinni eiginlegu útvarpsumr. lauk. Ég man dæmi þess, að svo hefur verið haldið á málum sem nú, að umr. hefur verið haldið áfram eftir að útvarpsumr. sjálfri lauk. Mér sýnist að forsrh. hafi verið nokkur nauðsyn á að komast hér að, þó ekki væri nema til þess að koma að nauðaómerkilegum aths. við ræður okkar sjálfstæðismannanna sérstaklega.

Mér varð það á að grípa fram í við upphaf ræðu hæstv. forsrh., svo ómerkilegar þóttu mér aths. hans, eins og t. d. að vera að tala um að ræða mín við útvarpsumr. hefði ekki fengið náð í Morgunblaðinu. Ég skal segja hæstv. forsrh. það, að ég er ekki að tala hér á Alþingi sérstaklega fyrir Morgunblaðið og ég hef engar áhyggjur af því, þó að ræður þær, sem ég flyt hér á Alþingi, birtist ekki í Morgunblaðinu. En við stjórnarandstæðingar megum vera afskaplega þakklátir fyrir að ræða hæstv. forsrh. hefur birst í Morgunblaðinu orð fyrir orð. Ég held að það vanti að vísu formálann sem hann hafði fyrir aðalefninu. Ég held að það sé mesti stuðningur við stjórnarandstöðuna að sem flestar ræður forsrh. séu birtar í Morgunblaðinu.

Það er merkilega lítið sem menn virðast hafa að gera í forsrn. ef þeir geta dundað sér við að telja saman hve margar blaðsíður hafi komið út af Morgunblaðinu síðan útvarpsumr. var haldin,

— 256, ef ég hef tekið rétt eftir. Mér þótti þetta sem sagt ódýrt, ég notaði víst orðið„billegt“ þegar ég greip fram í fyrir hæstv. forsrh., og ég ítreka það enn. Mér þóttu þetta ódýrar aths. hjá sjálfum forsrh.

Ráðh. talaði um að engin ábending hefði komið fram frá þm. Sjálfstfl. í þessum umr. um hvað gera skyldi. Þetta er rangt hjá forsrh., og til þess að fara ekki að endurtaka það, sem áður hefur verið sagt, verð ég að biðja hann um að lesa ræður okkar yfir.

Það má kannske spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji sig í raun og veru vera að fylgja fram stefnu Sjálfstfl. í efnahags- og atvinnumálum í þessari ríkisstj. Heldur hann það virkilega? Þá er kominn tími til fyrir okkur að fara að lesa saman stefnuna. Hann mundi kannske mæta svo sem eins og á einum þingflokksfundi. Þá gætum við talað saman um það mál.

Hann eyddi nokkrum orðum í það í ræðu sinni áðan að tala um að stjórnarandstaðan væri klofin, hún hefði ekki einu sinni getað orðið sammála um nál. hér á dögunum. Ég skal segja hæstv. forsrh. það, ef hann veit það ekki, að stjórnarandstaðan er í tveimur flokkum, og ég má kannske segja honum það í leiðinni, að Sjálfstfl. er einn flokkur, þó að hann virðist ekki vita það.

Um fölsun vísitölunnar ræddi forsrh. nokkrum orðum. Það er ekki ríkisstj. sem er að falsa vísitöluna. Nei, ekki aldeilis. Það er einhver nefnd úti í bæ. Á að fara að klína því á kauplagsnefnd? Hvað er maðurinn að tala um?

Hæstv. forsrh. sagði að ríkisstj. væri andvíg þeirri stefnu að skapa þyrfti atvinnuleysi til að ná niður verðbólgu. Hvað er hæstv. ráðh. að tala um? Hver hefur haldið fram slíkri stefnu? Hefur stjórnarandstaðan verið að halda slíku fram? Ég segi nei og aftur nei. Ég kannast ekki við það. Og ráðh. er enn að tala um að ríkisstj. hafi náð markmiðum sínum, m. a. því markmiði að halda uppi fullri atvinnu. Veit ráðh. ekki hvers vegna grundvallaratvinnuvegir þjóðarinnar hafa ekki þegar stöðvast? Ég skal þá segja honum það. Það er vegna þess að ýmis jafnvel öflugustu atvinnufyrirtæki landsins í sjávarútvegi hafa verið neydd til að taka lán, kreppulán svokölluð, til þess að stöðvast ekki. Það mætti útvega hæstv. forsrh. lista frá Byggðasjóði um lánsbeiðnir þaðan, neyðarköllin sem þangað hafa verið send. Mér þykir einkennilegt ef hæstv. forsrh. fylgist ekki betur með en hér kemur fram.

Þessar umr. hafa nú staðið í þrjá klukkutíma. Forsrh. hefur látið sig hafa það að sitja undir þessum umr. öllum, en aðrir ráðherrar voru ekki viðstaddir í dag, utan hæstv. félmrh. sem sat hér í hálftíma fyrir hlé. Það eru að vísu fjórir ráðherrar hér núna, sem sýna forsrh. þá virðingu að hlusta á hans ræðu, en þeir töldu sig ekki þurfa að hlusta á hér í dag. Það segi ég að sé óvirðing við Alþingi, og það breytir engu þó að það sé mál forsrh. að leggja fram þá skýrslu sem hér er til umr. Í þessum umr. hafa verið dregin fram ýmis ummæli einstakra ráðh. Það hafa verið dregin fram atriði sem sýna að það er Alþb. sem ræður ferðinni í þessum málum öllum, og stjórnarandstæðingar hafa gjarnan viljað ræða við einstaka ráðh. um þau atriði. En þeir eru bara ekki til viðtals um það. Þeir vilja ekki standa fyrir sínum málum hér á hv. Alþingi. Það er komið í ljós.

Ég tek undir orð hv. þm. Eiðs Guðnasonar, sem hann viðhafði hér í dag, að það er verkefni fyrir hæstv. forseta Sþ. að tala við ráðh. um þetta atriði, hvernig þeir gegna þingskyldum sínum. Þetta er nefnilega ekki í fyrsta skipti sem það kemur fyrir á þessu Alþingi að ráðherrar sýna þinginu algert virðingarleysi. Það hljómar dálítið einkennilega að þurfa að segja þetta þegar ákveðnir menn í núv. ríkisstj. virðast bera mjög virðingu Alþingis fyrir brjósti og nota hvert tækifæri til að tala um það, m. a. hér í dag.

Það þótti fréttaefni í hljóðvarpi í gær að þm. Sjálfstfl. tóku ekki til máls í ákveðnu máli. Mér þykir það meira fréttaefni, að hvorki ráðherrar Alþb. né Framsfl. hafa talið ástæðu til að sitja fyrri hluta þessa fundar, þegar stjórnarandstæðingar töluðu, og þar af leiðandi ekki að hlusta á ræður stjórnarandstæðinga, svo að ég tali nú ekki um að þeir telji sig þurfa að svara nokkru sem hér hefur komið fram.