04.02.1982
Sameinað þing: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2226 í B-deild Alþingistíðinda. (1885)

345. mál, leiguskip Skipaútgerðar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Fsp. mín til hæstv. ráðh. hljóðar svo:

„1. a. Hvaða skip er Skipaútgerð ríkisins nú með á leigu? Er fyrirhuguð fjölgun þeirra?

b. Undir hvaða flaggi sigla þau?

c. Samkv. hvaða samningum er lögskráð á þau?

2. Er farið að ákvæðum íslenskra laga og samningum við innlend stéttarfélög um fjölda áhafnarmanna?“ Nú standa mál þannig, að Skipaútgerð ríkisins hefur haft á leigu skip og annað íslenskt skipafélag hefur haft á leigu systurskip þess sem nú hefur verið ákveðið að Ríkisskip eða Skipaútgerð ríkisins kaupi. Um þessi leiguskip og öll önnur leiguskip, sem eru á leigu hjá íslenskum skipafélögum, sem munu vera 8 eða 9 að tölu, a. m. k. mun Hafskip vera með 3, 3 vera hjá Eimskipafélagi Íslands og a. m. k. 2 hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga, — um þau háttar þannig að um áhafnarfjölda, en áhafnirnar eru skipaðar erlendum mönnum nær algerlega, er ekki farið að íslenskum samningum eða lögum. Hafandi í huga, að þessi félög öll, og þar á meðal Skipaútgerðin, eru með leiguskip hlýtur auðvitað, til viðbótar því sem hér er verið að spyrja um, að vakna sú spurning, hvernig standi á því, að eitthvað af alvöruskipafélögunum, sem verða að standa undir sínum rekstri, geti hreinlega ekki staðið undir því að reka tvö leiguskip til viðbótar til nauðsynlegrar þjónustu við þá sem við strendur landsins búa. En um það ætla ég ekki að ræða núna.

Þessar spurningar liggja hér fyrir. Um leið er auðvitað rétt að vekja athygli á því, sem líka fellur undir embætti siglingamálastjóra og reyndar alþjóðlegar reglur, að þær stöðugu breytingar, sem verið er að gera á mælingarreglum skipa, ná auðvitað ekki nokkurri átt lengur. Ég held að íslenski löggjafinn, og þá þær stofnanir sem um þetta fjalla ásamt rn. hæstv. samgrh., verði að fara að huga að þessu máli allalvarlega vegna þess að það virðist vera hægt að mæla skip niður eftir því hvernig þurfi að komast í kringum gildandi lög í hverju landi og samninga um fjölda áhafnarmanna. Það er aðeins á einni tegund íslenskra skipa sem íslensk lög hafa verið þverbrotin með þegjandi samþykki viðkomandi yfirvalda, — þar á ég við hæstv. dómsmrh., bæði núverandi og fyrrv., og hæstv. sjútvrh., bæði núv. og fyrrv., — og á ég þá við hina svokölluðu minni togara, en á þeim hafa, frá því að þeir komu til landsins verið þverbrotin þau gömlu góðu lög sem samþykkt voru á sínum tíma, lífsnauðsynleg lög, vökulögin. En að sjálfsögðu eru það nokkurs konar vökulög og vökusamningar sem gerð eru í sambandi við verslunarskipin þegar verið er að gera kröfu til ákveðins fjölda manna. Þetta eru einu vinnustaðirnir á Íslandi þar sem réttur skipstjórans, yfirmannsins og stjórnandans, er svo ótvíræður að það er hægt að láta þá, sem um borð eru, vinna eins og skepnur án þess að fá nokkra hvíld fyrr en viðkomandi yfirmönnum þóknast. Auðvitað hafa reglur verið settar og samningar verið gerðir þess vegna.

Það er því að gefnu tilefni að þessi fsp. er borin fram til hæstv. ráðh. vegna Skipaútgerðar ríkisins sem hefur verið staðin að því að brjóta þessar reglur. Þar hefur verið staðið að því að brjóta önnur lög. Þar á ég við uppsagnarákvæði, sem sett voru í lög ekki alls fyrir löngu, og reyndar fleiri lög í sambandi við viðskipti atvinnurekenda og þeirra launþega sem hjá þeim vinna.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta nema frekara tilefni gefist til.