04.02.1982
Sameinað þing: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2230 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

345. mál, leiguskip Skipaútgerðar ríkisins

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Án þess að ég fari að blanda mér á þessu stigi í mælingar á skipum og vökulögin, því að það er svo mikið umræðuefni að við ræðum það ekki til hlítar í fsp.-tíma, vil ég taka fram að ég er sammála því, sem hér hefur komið fram, að það er tímabært að endurskoða lög og reglur um þessi mál, og er reiðubúinn að beita mér fyrir því. Staðreyndin er einnig sú, að það er ekkert samræmi á reglum hér á landi og erlendis um mönnun skipa og margt slíkt sem þarf að athuga. Það er líka rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að aðstæður eru í sumu tilliti kannske erfiðari hér en sums staðar annars staðar. En það er einnig staðreynd að sjómannasamtökin sjálf, þar á ég við bæði farmenn og fiskimenn, hafa, a. m. k. sums staðar um landið, ekki verið fús til að fylgja þessum lögum og reglum út í ystu æsar. Þetta þekkja allir menn. Það eru því fleiri en dómsmrh. og sjútvrh. eða samgrh. sem hafa lokað augunum fyrir þessum staðreyndum. En það breytir ekki því og kannske undirstrikar þetta nauðsyn þess að endurskoða þessar reglur og koma þeim í nútímahorf. Ég vil geta þess hér, að unnið er að því að athuga t. d. kröfur um vélstjóra og fleira á skipum og því miður, þrátt fyrir marga fundi og miklar umræður, hefur ekki náðst samstaða um slíkt.

Eins og hv. þm. vita er það liður í því samkomulagi, sem gert var um stóru togarana, að mönnun þeirra verði endurskoðuð og ríkisstj. verði beðin að beita sér fyrir því. Það verður viðkvæmt mál sem kemur mjög inn á það sem menn eru hér að drepa á. Ég er sannfærður um að á t. d. minni togurunum í miklum aflahrotum er vinnuálag gífurlega mikið og óeðlilega mikið, þótt sjómenn á þeim hafi fremur kosið að hafa fyrirkomulagið þannig en að skipta á fleiri hendur því sem aflast. Það var með þetta í huga sem ég hét því fyrir nokkrum mánuðum að stofna til athugunar á vinnuálagi á sjó og hvernig það hafi þróast undanfarin ár. Mér var jafnframt bent á að Kjararannsóknarnefnd væri með þetta í athugun. Ég hef því óskað eftir að sú nefnd hraðaði þeim þætti þeirrar athugunar sem að fiskimönnum snýr sérstaklega. Ég get upplýst það hér, að ég hef fyrir nokkrum dögum fallist á, að af því fjármagni, sem sjútvrn. hefur til umráða til mörkunar fiskveiðistefnu, verði varið 250 þús. kr. til Kjararannsóknarnefndar til að gera henni þetta kleift. Ég sá enga ástæðu til, að önnur slík athugun yrði sett í gang, og fagna því, að Kjararannsóknarnefnd fjallar um þetta, og ég vona að þessi aðstoð geti orðið til þess að slíkri könnun verði hraðað.