27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

25. mál, afkoma iðnfyrirtækja í eigu ríkisins

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. Það er ekki efni til þess í fsp.-tíma að efna til almennra atvinnumálaumræðna. Mér skilst að þær hafi orðið hér í Sþ. á undanförnum dögum svo að það er að bera í bakkafullan lækinn að hefja slíkar umr. núna, enda ætlaði ég ekki að gera það með þessari fsp.

Ég vil aðeins ítreka að það, sem kom hér fram um afkomu ríkisfyrirtækja, var ekki frá mér, heldur frá hæstv. iðnrh. Ég hélt að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson treysti upplýsingum sem kæmu frá hæstv. iðnrh. Hann gaf yfirlit um afkomu þessara fyrirtækja og hún er eins og þar kom í ljós. Ég hélt því fram, að afkoma ýmissa einkafyrirtækja væri líka slæm, en það getur vel verið að hún sé eins góð og hv. þm. vill vera láta í sumum fyrirtækjum. Við skulum vona það. En það sýnir þá líka að kannske er einhver munur á í hvaða formi fyrirtækin eru rekin.