04.02.1982
Sameinað þing: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2233 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

146. mál, nafngiftir fyrirtækja

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. hér á hinu háa Alþingi sem finna má á þskj. 169. Fsp. er til hæstv. viðskrh. og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hvaða ákvæði eru í lögum um nafngiftir fyrirtækja, svo sem verslana, verksmiðja, veitinga- eða gistihúsa eða annarra fyrirtækja, svo að nöfn þeirra samrýmist íslensku máli?

1. Séu engin lagaákvæði í gildi, eru þá áform um að setja slík lög?“

Á árinu 1958 var lagt fram hér á Alþingi frv. til l. um breyt. á lögum nr. 43 13. nóv. 1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, og frv. til l. um veitingasölu, gistihúsahald o. fl. Efni þessara frv. var sem hér segir, með leyfi forseta:

2. Frv. um breyt. á lögum um veitingasölu, gistihúsahald o. fl.: Þar var, í þeim lið sem fjallar um skilyrði til að stofna slíkan veitingarekstur, lagt til að sá liður hljóðaði svo m. a.:

„Hefur meðmæli bæjarstjórnar eða hreppsnefndar, þar sem hann ætlar að reka atvinnu, enda beri veitingastaðurinn eða gistihúsið nafn, sem að dómi skrásetjara samrýmist íslensku málkerfi. Ágreiningi, sem rísa kann út af nafni, má skjóta til nefndar þeirrar, sem starfar samkv. lögum nr. 33/1953.“

Hitt frv. hljóðaði svo eða frvgr., með leyfi forseta:

„Hver sá, er rekur verslun, handiðnað eða verksmiðjuiðnað, skal hlýða ákvæðum þeim, er hér fara á eftir, um nafn það, er hann notar við atvinnuna og um undirskrift fyrir hana (firma), enda beri fyrirtækið íslenskt nafn.“

Bæði þessi frv. urðu að lögum, en í breytingu á öðru frv. var kveðið svo á, að örnefnanefnd skyldi skera úr ágreiningi sem upp kæmi.

Á Alþingi 1962 var flutt stjfrv. til heildarlaga um veitingasölu, gistihúsahald o. fl., en við samningu þess sýnist ekki hafa verið hirt um að sinna þessum lagabreytingum, sem orðið höfðu, þannig að lög þau um veitingasölu og gististaðahald o. fl., nr. 53 frá 1963, sýnast ekki hafa þessi ákvæði.

Í blaðaskrifum, sem orðið hafa á þessum vetri um þróun í þá átt að skýra íslensk fyrirtæki erlendum nöfnum, hefur komið fram, að langt er síðan örnefnanefnd hefur fengið nokkur vafamál til umsagnar. Þeir, sem skrásetja fyrirtæki hér á landi, munu vera hlutafélagaskrá, firmaskrá hjá borgarfógeta og vörumerkjaskrá hjá iðnrn. Hjá borgarfógeta munu vera skráð önnur fyrirtæki í Reykjavík en hlutafélög. Það var því nokkurt vafamál í mínum huga til hvers ætti í raun og veru að beina þessari fsp., en við athugun kom í ljós að hæstv. viðskrh. hlyti að vera sá aðili.

Á síðustu öld unnu áhugamenn um íslenska tungu það afrek að hreinsa málið af erlendum áhrifum sem þá ógnuðu því verulega. Það, sem þá varð tungunni vafalítið til bjargar, var að alþýða manna talaði og kunni enn hreint íslenskt mál, en dansksinnuð yfirstétt var orðin ótalandi og óskrifandi, eins og embættisbréf frá þessum tíma sýna, sem í dag væru gamanmál, vona ég, í hugum okkar. Nú sækja erlend áhrif á tungu okkar að okkur öllum með aukinni fjölmiðlatækni. Lágmarkskrafa hlýtur að vera að þeir, sem tala vilja þokkalega íslensku, séu ekki daglega neyddir til að bögglast með erlendar nafngiftir ýmissa fyrirtækja sem þeir þurfa að sækja til og margir hverjir kunna engan veginn að nota eða bera fram. Fjölmörg fleiri rök má færa til þess, hve óæskilegar þessar nafngiftir eru. Íslensk sérkenni mega gjarnan haldast í heimi þar sem fjölmörg þjóðlönd verða í æ ríkari mæli án fyrri sérkenna. Ferðamálaráð er vel vitandi um þessa hættu og hefur reyndar ályktað um að nafngiftir sem þessar séu langt frá því æskilegar.

Ég skal ekki, herra forseti, lengja málflutning minn. Öllum hv. alþm. eru þessar umr. vel kunnugar, en það er mat mitt, að Alþingi beri að gæta að og vernda íslenska tungu, og þess vegna hefur þessari fsp. verið beint til hæstv. viðskrh.