04.02.1982
Sameinað þing: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2234 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

146. mál, nafngiftir fyrirtækja

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. hefur beint til mín tveimur fsp. um nafngiftir fyrirtækja.

Fyrst er spurt um hvaða ákvæði séu í lögum um nafngiftir fyrirtækja, svo sem verslana, verksmiðja, veitinga- eða gistihúsa eða annarra fyrirtækja, svo að nöfn þeirra samrýmist íslensku máli.

Þessari spurningu er fljótsvarað. Ákvæði um þetta er einungis að finna í 8. gr. laga nr. 42 frá 1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, eins og greininni var breytt með lögum nr. 24 frá 1959 sem hv. fyrirspyrjandi gerði grein fyrir í sambandi við fsp. Í þessari lagagrein er gert ráð fyrir að fyrirtæki, sem starfa á sviði verslunar, handiðnaðar eða verksmiðjuiðnaðar, beri nafn er samrýmist íslensku málkerfi. Mat á því, hvort nafn fullnægi þessu skilyrði, falli undir þá aðila er annast skráningu þessara fyrirtækja. Firmu skal að jafnaði tilkynna til verslanaskrár, en þær halda lögreglustjórar, sýslumenn og bæjarfógetar og í Reykjavík borgarfógetaembættið. Viðskrn. annast þó skráningu hlutafélaga eða hlutafélagaskrá. Ágreiningi, sem rísa kann út af nafni, má skjóta til örnefnanefndar sem starfar samkv. lögum nr. 35 frá 1953, um bæjanöfn o. fl.

Af þeim upplýsingum, sem aflað hefur verið, má ráða að skráningaraðilar hafa að meginstefnu til skýrt 8. gr. firmalaga svo, að heimili væri að skrá fyrirtækin undir erlendu nafni ef nafnið félli að hljóð- og framburðarkerfi íslensks máls. Nú eru ugglaust ýmsir þeirrar skoðunar, að nöfn margra fyrirtækja séu varla í samræmi við þessar skýringarreglur, og geta bent á dæmi máli sínu til sönnunar. Ástæður þessa geta verið ýmsar og skal ég rekja þær helstu:

Í fyrsta lagi getur verið um fyrirtæki að ræða sem hafa fengið nafn sitt skráð áður en 8. gr. firmalaga var breytt og lögbundið var að nöfn fyrirtækja skyldu samrýmast íslensku málkerfi að dómi skráningaraðila til þess að þau fengjust skráð. Þá á ég við endurskoðunina á lögunum frá 1903 sem fór fram 1959, eins og áður segir.

Í annan stað tekur 8. gr. aðeins til fyrirtækja á sviði verslunar, handiðnaðar og verksmiðjuiðnaðar. Af því leiðir t. d. að veitinga- og gistihús þurfa ekki að fullnægja kröfum greinarinnar um nafn er samrýmist íslensku málkerfi.

Í þriðja lagi fá ýmis fyrirtæki skráð vörumerki hjá vörumerkjaskrá iðnrn. og auglýsa síðan vörur sínar og þjónustu undir vörumerkinu sem verður þá nafn fyrirtækisins í huga almennings enda þótt rétt nafn geti verið allt annað. Hafa orðið mikil skrif í blöð í vetur um tiltekin fyrirtæki hér í borginni. Ég held að öll þessi fyrirtæki hafi verið skráð undir ágætum íslenskum nöfnum sem hlutafélög, en hafi verið rekin undir öðrum nöfnum.

Þá vaknar spurningin um það, hvað heimildir ganga langt til varðandi slíkt. Í vörumerkjalögum mun ekki vera að finna ákvæði sambærilegt við 8. gr. firmalaga, en ekkert er því til fyrirstöðu, að fyrirtækin geti fengið erlend orð eða orðasambönd skráð sem vörumerki að öðrum skilyrðum þeirra fullnægðum. Nánari lýsingu á skráningu vörumerkja verð ég hins vegar að vísa til hæstv. iðnrh.

Í fjórða og síðasta lagi verður að leggja áherslu á að í þessum efnum eins og mörgum öðrum er vandratað meðalhófið. Það, sem sumum finnst geta gengið sem nafn á fyrirtæki, kann öðrum að þykja hin versta útlenska.

Síðari fsp. er efnislega á þá leið, hvort áform séu uppi um að setja lagaákvæði er tryggi að nafngiftir fyrirtækja samrýmist íslensku máli. Er gengið út frá að svarið við fyrri fsp. hafi leitt í ljós að engin slík lagaákvæði væru í gildi. Hér er því til að svara, að ég hef ekki hugsað mér að flytja sérstaki lagafrv. er gengi í þessa átt. Hv. fyrirspyrjanda er hins vegar að sjálfsögðu heimilt að leggja slíkt frv. fyrir Alþingi telji hann þess þörf. En umr. verða áreiðanlega um þetta mál þegar firmalögin verða tekin til endurskoðunar, sem vonandi ætti að geta orðið áður en langt um líður, og ég hef stefnt að því, að sú endurskoðun gæti hafist ekki síðar en um n. k. áramót. Það er nú þannig með mörg af þessum lögum, að það eru ekki mjög margir sérfræðingar, sem vinna að endurskoðun á lögum skyldum þessum, og nú eru nokkur lög í endurskoðun, þannig að ég geri ekki ráð fyrir að þessi heildarendurskoðun geti hafist fyrr en um næstu áramót. Að sjálfsögðu verða þessi atriði tekin til endurskoðunar, enda þörf á því að mínu mati. Í sambandi við þá endurskoðun finnst mér koma til athugunar að rýmka 8. gr. laganna þannig að hún nái til allra fyrirtækja, en ekki aðeins til þeirra sem starfa á sviði verslunar, handiðnaðar eða verksmiðjuiðnaðar.

Ég verð þó að lokum að játa það, að ég efast um að lagasetning af þessu tagi geri mikið gagn ein sér. Mestu máli skiptir að efla alla umræðu um íslenskt mál. Þar hafa að sjálfsögðu fjölmiðlar miklu hlutverki að gegna. En það er ástæða til að undirstrika það sem ég kom inn á áður í mínu svari, að það er býsna algengt að það eru skrásett hlutafélög undir íslenskum nöfnum, t. d. veitingarekstur, svo að ég taki dæmi, og síðan er viðkomandi rekstur eða þjónusta rekin undir vörumerki, sem er skrásett, eða undir erlendum nöfnum, eins og mörg dæmi má nefna um.