04.02.1982
Sameinað þing: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

146. mál, nafngiftir fyrirtækja

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir hans svör og einnig hv. allshn. Nd., sem hefur sýnt áhuga á þessu máli, sem mér var ókunnugt um, en ég tel mjög af hinu góða. Mér er auðvitað ljóst að þetta mál er ekkert auðleyst. Ég held þó að nauðsynlegt sé að huga að þessu og t. d. væri það verðugt verkefni allshn. Hins vegar vekur það nokkra athygli mína, ef hægt er að láta skrá hlutafélag undir e. t. v. sómasamlegu íslensku nafni, en síðan er það kannske einungis stofnað utan um fyrirtæki, sem heitir erlendu nafni. En þetta er eflaust ein af hinum mörgu kúnstum viðskiptalífsins sem mér hefur alltaf gengið dálítið illa að skilja.

En það, sem vakti undrun mína, var að hæstv. viðskrh. lýstu yfir að hann hefði ekki neinn hug á því að leggja fram frv. í þessa veru, sem mér fyndist satt best að segja vera jafnvel verkefni hans í samráði við ýmis önnur hæstv. ráðuneyti. Ég vil a. m. k. benda hæstv. viðskrh. á og hans góða flokki, að ég hygg að það færi að fara hrollur um hið háa Alþingi ef hæstv. forseti. skýrði bæ sinn Hollywood og hv. formaður þingflokks framsóknarmanna byggi í Manhattan í Húnavatnssýslu. Þetta finnst mönnum auðvitað algerlega fráleitt, en það er ekkert fráleitara en það sem við búum við hér í Reykjavík. Enn þá hefur íslensk bændastétt ekki talið það eftir sér að finna bústöðum sínum íslensk nöfn, og ég held að það sé engin goðgá að ætlast til hins sama af okkur borgarbúum, ef við viljum skíra fyrirtæki okkar eða bústaði sérnöfnum.

En ég vil sem sagt þakka fyrir svar hæstv. ráðh. og undirtektir hv. þm. Vilmundar Gylfasonar og vænti þess, að Alþingi sinni þessu máli a. m. k. með umr. og helst með frv.-flutningi.