13.10.1981
Sameinað þing: 2. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs um þingsköp. Eins og öllum þingheimi er kunnugt er alvarlegt ástand í sambandi við rekstur sjávarútvegsins. Síldveiðiflotinn liggur í höfn vegna deilna um síldarverð, það eru deilur út af loðnuverði, almennt fiskverð liggur ekki fyrir og alvarleg staða fiskvinnslu í landinu. Það er því ósk mín og þingflokks Sjálfstfl. til hæstv. forseta, að þessi mál verði tekin til umr. í Sþ. á morgun, og þá jafnframt óskað eftir því, að hæstv. sjútvrh. skýri frá stöðu þessara mála þannig að Alþingi fylgist með því sem verið er að gera og hvers er að vænta. Ég tel það skyldu þingsins að fylgjast með, og þingmenn eiga að hafa tækifæri umfram aðra í þeim efnum, en ekki að lesa fréttir í blöðum hverju sinni.

Ég ætla ekki á þessu stigi að ræða þetta mál efnislega, eins og ég sagði hæstv. forseta, en endurtek þessa ósk okkar um að fundur verði haldinn í Sþ. á morgun og að hæstv. sjútvrh. sjái sér þá fært að gefa skýrslu um stöðu þessara mála.