27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

321. mál, húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að gera fsp. til hæstv. félmrh. um húsnæðismál.

Húsnæðismál ber oft á góma hér í sölum Alþingis og það er eðlilegt. Húsnæðismálin eru ein þýðingarmestu mál á hverjum tíma og ekki síður nú en oft áður. Við skulum hafa í huga það ástand sem hefur verið að skapast á undanförnum vikum og mánuðum og felst í því, að vofa húsnæðisleysisins hefur sýnt sig meir nú en um alllangt skeið áður. Athygli hlýtur því að beinast að því, hvort ekki sé þörf á aðgerðum í húsnæðismálunum og jafnvel frekar nú en oft áður. Þá beinist hugurinn að því, sem hefur gerst á undanförnum misserum, og þeirri löggjöf, sem sett var um húsnæðismál árið 1980 og okkur er í fersku minni.

Spurningin er: Hver hefur orðið árangur — ég vil nú segja árangursleysi frekar — af þessari löggjöf? Hver er reynslan af þessari löggjöf? Það er ekki að ófyrirsynju að spurt sé um það, vegna þess að þegar þessi löggjöf var sett vegnaði ekki vel í þessu efni. Og hvers vegna var það? Það var vegna þess að það var ekki vel búið að Byggingarsjóði ríkisins sem hefur verið grundvöllurinn að lánveitingum til húsnæðisbygginga á undanförnum áratugum. Raunar var Byggingarsjóður ríkisins sviptur megintekjustofni sínum, sem var launaskatturinn. Stjórnarandstaðan varaði við þessu og taldi að fyrirsjáanlegt væri að þessar aðgerðir mundu leiða til vandræða í húsnæðismálunum, samdráttar í útlánum Byggingarsjóðs ríkisins og byggingarframkvæmdum í landinu og þar með valda húsnæðisskorti þegar fram í sækti. Nú hefur þetta þegar skeð. Það er allt komið fram sem við sögðum, sem vöruðum við þeirri stefnu sem var mörkuð með þessari löggjöf.

Spurningin er: Vill ríkisstj. eitthvað læra af þessari reynslu? Með tilliti til þess er fyrsta spurningin, sem ég hef leyft mér að bera fram til félmrh., almenns efnis, hvort ríkisstj. vilji gera Byggingarsjóði ríkisins kleift að fullnægja eftirspurn eftir íbúðalánum með þeim lánskjörum, að því er varðar lánsupphæð, lánstíma og vexti, að staðið verði undir af almennum launatekjum. Þetta er fyrsta spurningin. Það er spurning um hvert ríkisstj. er að stefna í þessum málum. Á að víkja frá þeirri stefnu, sem hefur verið leitast við að fylgja á undanförnum áratugum, að búa svo að þessum málum að hinn almenni launþegi geti komið yfir sig þaki?

Herra forseti Þessari spurningu fylgja nokkrar spurningar um tiltekin efni og ég vænti þess, að hæstv. ráðh. gefi svör við þessu.