04.02.1982
Sameinað þing: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

151. mál, landgræðslu- og landverndaráætlun 1982--86

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir málflutning hæstv. ráðh. Í sjálfu sér er óþarfi að eyða löngu máli til viðbótar við það sem hæstv. landbrh. og hv. síðasti ræðumaður viðhöfðu hér, enda er um þetta mál fjallað nokkuð ítarlega í því áliti sem hv. þm. hafa til aflestrar og að þessu er í ljósum dráttum vikið í till. sjálfri, þ. e. hvað þessi landgræðslu- og landverndaráætlun felur fyrst og fremst í sér.

Ég sé ástæðu til að þakka það nefndarstarf sem liggur að baki till. til þál. Þar hefur að mínum dómi verið unnið nokkuð vel. Ég vil jafnframt þakka þá málsmeðferð sem þar hefur verið viðhöfð, þ. e. að sú nefnd, sem starfaði síðast að málinu, var skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka, en eins og við vitum er nauðsynlegt, ekki síst í ljósi þess málefnis sem hér er fjallað um, að um það ríki breið og góð samstaða.

Ég geri ráð fyrir að í öllu þessu starfi og þeim tillögum, sem hér liggja fyrir, hafi menn haft til hliðsjónar þá reynslu sem fékkst vegna framkvæmdar landgræðsluáætlunar sem samþykkt var 1974. Ég hygg að sú reynsla verði nokkuð notadrjúg, og eftir því sem ég fæ best séð er sú verkefnaröð, sem hér er sett upp, viðunandi.

Ég vil í því sambandi minna sérstaklega á eitt atriði. Það er óþarfi að fara að lesa þetta upp eða fara nákvæmlega í hvern þátt, en ég vil leggja áherslu á eitt. Það er undir liðnum ýmislegt, þar sem stendur: „Samvinnuverkefni stofnana, sem aðild eiga að landgræðsluáætlun, frærækt, skjólbelti, úttekt á árangri.“ — Og þar stendur sérstaklega: „Stuðningur við fræðslustarf og þátttöku samtaka áhugamanna um skógrækt og landgræðslu.“ Ég held einmitt að það sé mjög mikilvægt að virkja hina ýmsu áhugamenn um landvernd sem víðast um landið. Það er mála sannast og sú vísa er aldrei of oft kveðin, hversu nauðsynlegt er að gera sem allra flesta ábyrga og virka í starfi. Ég held að það verði kannske best gert með því að styrkja og hvetja hina fjölmörgu áhugamenn, bæði einstaklinga og þá sem hafa myndað með sér félagsskap, til að stuðla að landvernd og landbótum. Ég skil þessa till. til þál. svo, að hún sé sett fram af sóknarhug, ekki aðeins sem vörn, og þannig eigum við að hugsa og þannig eigum við að setja málin fram. Auðvitað hlýtur það að verða okkar stefna, okkar mark, að auka landgæðin, ekki aðeins að stemma stigu við frekari gróðureyðingu og jarðvegseyðingu. Við eigum að reyna, eftir því sem frekast er kostur, að vinna á nýjan leik það sem tapast hefur.

Áætlanir sem þessar er auðvitað nauðsynlegt að setja fram. Það er mjög varasamt að vinna af handahófi að slíkum verkefnum, bæði að því er varðar fjárútlát og framkvæmdaþættina sjálfa. Það er hægt að eyða í slíkt mjög miklu fé án þess að verulegur árangur náist. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, að það er framkvæmdin sem skiptir allra mestu máli, en ekki hversu stórar fjárfúlgur eru látnar í verkefnið. Auðvitað segir það eitthvað.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér í einstökum atriðum hvaða þættir valda að mínum dómi mestu um gróður- eða jarðvegseyðingu á okkar blessaða landi. Um það er og verður sjálfsagt alla tíð deild, hvaða þættir ráða þar mestu, en auðvitað er það einkum tvennt sem þar kemur til: Það er veðurfar sem við búum við, það er lega landsins, en jafnframt búfjárbeit, það geri ég mér fyllilega ljóst, og önnur umgengni sem rekja má til okkar manna.

Í sambandi við áhrif veðurfars er augljóst að við getum gert ýmislegt sem dregur úr skaðvænlegum áhrifum erfiðs og óhagstæðs veðurfars á gróðurmold og gróðurfar á landi okkar. Ég vil ekki draga neinn einn þátt þarna út úr. Ég hygg að það sé skynsamlegast að líta yfir þetta svið í víðasta skilningi, og að mínum dómi er það gert í því nál., sem liggur fyrir, og jafnframt með vísan til þessarar till. til þál. og hvernig hún er sett fram.

Eins og ég hef sagt áður ríkir alger pólitísk eining um þetta mál. Ég fæ ekki annað séð, miðað við hvernig það er sett fram, og ég vil fagna því enn á ný. Ég segi þetta ekki vegna þess að ég telji það til einhverra tíðinda, síður en svo. Ég vil minna á þá till. til þál. um gerð landnýtingaráætlunar sem hér hefur raunar verið vikið að. Ég vonast til þess, að um þá áætlun verði samviskusamlega fjallað í nefnd. Að því var vikið í framsögu fyrir því máli á sinni tíð, að gerð landnýtingaráætlunar væri eðlileg, ekki síst í framhaldi af og samhliða landgræðslu- og landverndaráætlun. Um þessi bæði mál mætti auðvitað segja margt. Hver einstakur þáttur er í sjálfu sér efni til langrar umræðu.

Ég vil leggja áherslu á að landgræðslu- og landverndaráætlun er ekki tímabundið verkefni. Hún er stöðugt verkefni. Í raun og sannleika þarf slíkt verkefni alla tíð að vera í gangi vegna þess að ef það verður stöðvun á framkvæmdum, ef það kemur eitthvert hlé, getum við átt á hættu að glutra niður þeim ávinningum sem þegar eru ljósir. Áætlanir eins og þessi gera okkur auðvitað auðveldara fyrir að ráða fram í tímann, bæði að því er varðar framkvæmdirnar sjálfar og það fjármagn sem við verðum að afla og verja til framkvæmda.

Ég ætla að lokum að vona að það verði staðið við þessa áætlun. Ég á ekki von á öðru og vænti þess, að að ýmsum þeim undirbúningsframkvæmdum, sem hér hefur verið vikið að, svo sem kortagerð, verði unnið af krafti, ekki síst í ljósi þess, að það er nauðsynlegur þáttur einmitt til að stuðla að og auðvelda gerð draga að landnýtingaráætlun.

Ég vil endurtaka áhersluatriði sem ég gat um áðan. Við þurfum að leggja allt kapp á að virkja áhugamenn um allt land til að vinna meira og betur. Áhuginn er mjög víða fyrir hendi, en það er nauðsynlegt að ýta undir þann áhuga. Sem betur fer eru fjölmargir sem sýna frumkvæði á ýmsum þessum sviðum. Þann áhuga má ekki drepa í dróma. Við eigum heldur að ýta undir hann.

Ég vonast til þess, að sú nefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, vinni vel og dyggilega, þannig að áætlunin geti fengið samþykki á hinu háa Alþingi hið allra fyrsta.