04.02.1982
Sameinað þing: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2249 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

151. mál, landgræðslu- og landverndaráætlun 1982--86

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að draga mjög á langinn þessa umr. sem hér hefur farið fram um gagnmerka þáltill. um landgræðslu- og landverndaráætlun, enda er nú svo komið að hér í salnum eru varla eftir nema bændur og Alþfl.-menn, og á það vel við að vísu.

Ég vil byrja á að þakka hæstv. landbrh. fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt alveg frá upphafi á því að flýta framgangi og gerð þessarar till. Þó vil ég einkum og sér í lagi þakka formanni nefndarinnar, sem að þessu verki vann, fyrir sérstaklega góða stjórn og röggsamlega framgöngu í því að koma þessu máli áleiðis og góða og mikla hæfileika til að finna málamiðlun hverju sinni þegar ekki blés allt of byrlega fyrir nefndinni og menn voru ekki á eitt sáttir um hvert veita skyldi fjármagninu.

Þessi till. ber það með sér að mínu mati og hlýtur að vera mat annarrá þeirra sem lesa grg. till., að fengist hefur viðurkenning á þeirri skoðun, að beitarstjórn hér í landinu hafi ekki verið næg og að þessi beitarstjórn hljóti fyrst og fremst að byggjast á vísindalegum athugunum, m. a. gróðurkortagerð og öðru slíku, ítölu og fleiri atriðum þar að lútandi. Ég vil líka geta þess, að ég tel að í þessari till. fari mjög saman, eins og ég hef ævinlega óskað eftir, hagsmunir landbúnaðarins annars vegar og gróðurverndarsjónarmið hins vegar. Ég tel — og hef alltaf sagt í öllum ræðum mínum hér, að búfjárbeit í þessu landi þurfi að vera innan skynsamlegra marka, og ég hef jafnframt flutt þá skoðun, að allar líkur væru á að með aukinni beitarstjórn mætti stórauka fallþunga dilka og þá jafnframt fækka búfé í landinu bændum að skaðlausu. En ég skal ekki fara langt út í þá sálma. Þetta eru býsna viðkvæm mál, ég geri mér ljósa grein fyrir því.

Ég vil í þessu sambandi geta þess, að ég tel að landbrn. þyrfti sem skjótast að fara að huga að hinni gífurlega auknu hrossaeign landsmanna, sem t. d. í nágrenni bæja og borga hefur valdið umtalsverðu tjóni á bithögum og það svo alvarlegu að um er að ræða nær gereyðingu gróðurs á sumum stöðum. Ef það er svo að í landinu séu um 50 þús. hross og við margföldum það með tölunni 5, sem er líklega nokkuð varlega gert, og fáum út 250 þús. fjár til viðbótar þeim fjárstofni sem fyrir er í landinu, þá er um að ræða mjög umtalsvert viðbótarálag á beitarland, þó ekki sama beitarland og sauðfé notar. En þarna er á ferðinni vandamál sem þarf að huga að.

Annað atriði, sem ég vildi nefna og beina til hæstv. landbrh., er það sem ég hef verið að impra á í flestum ræðum hér um landbúnað, að við þurfum að haga búskap eftir landsháttum. Þetta er eitt af þeim stóru málum sem þarf að taka föstum tökum í landbúnaði á Íslandi. Eins og sakir standa er búskap lítið hagað samkv. landsháttum, heldur eru menn með hvers konar blöndu af búskap og taka þá lítið tillit til þess, hvar hagkvæmast er að vera með sauðfé og vera með kýr og annan búfénað. Ég vil sérstaklega benda á í grg. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ein meginforsenda fyrir árangri í landgræðslu og gróðurvernd er, að búfjárbeit verði innan þeirra marka sem beitarþol og ástand gróðurs leyfir.“

Hér er fengin, eins og ég sagði áðan, mjög dýrmæt viðurkenning á þeirri skoðun, sem a. m. k. við Alþfl. menn höfum flutt í mörg ár, að úthagi, sérstaklega afrétturinn, væri ofbeittur. Hér á landi er aðeins beitt ítölu á einum afrétti, þ. e. Landmannaafrétti, og á þessu þarf að verða breyting. Eins og fram kemur í grg. leggur nefndin áherslu á að svo fljótt sem ástæður leyfi verði komið á ítölu fyrir landið allt. Þetta er mjög veigamikill þáttur þeirrar áætlunar sem hér liggur fyrir.

Ég vil enn fremur, með leyfi forseta, fá að lesa hér úr grg. þar sem segir:

„Nefndin er þess fullviss, að ástand gróðurs á hálendi og sums staðar á láglendi sé þannig, að fylgjast verði nánar með honum og hafa meiri stjórn á nýtingu gróðursins en aðstaða hefur verið til. Tillögur nefndarinnar byggjast m. a. á því, að gróðureftirlitsmaður hefji störf hið fyrsta hjá Landgræðslu ríkisins.“

Þetta er líka nýr háttur og mjög veigamikill. Embætti gróðureftirlitsmanns getur orðið mjög veigamikill þáttur í því að hafa gott eftirlit með ágangi í gróður, bæði á afréttum og eins í heimahögum og hvarvetna þar sem búfé fer um. Þegar nefndin fjallaði um þetta mál komu að vísu fram skoðanir þar sem dýpra var tekið í árinni um ástand gróðurs á afrétti, þ. e. á hálendi og á láglendi.

Ekki þótti þó ástæða til að taka það inn í grg. eins og það lá fyrir, og er þetta orðalag með samþykki allra nm. Síðan segir, með leyfi forseta, og er veigamikið atriði enn fremur:

„Með aukinni beitarstjórnum vinnst margt, m. a. endurnýjun gróðurs og meiri hagkvæmni við landgræðslu og búskap. Til að ná markvissum árangri í beitarstjórn þarf hún að byggjast á rannsóknum á beitarþoli og ástandi gróðurs á hverjum tíma.“

Hér kemur einnig að þætti sem ég hef ávallt og ævinlega lagt ríka áherslu á, en það eru rannsóknirnar. Það er ekki nóg fyrir okkur að hafa stofnun, sem heitir Rannsóknastofnun landbúnaðarins og gerir margar mjög merkilegar og marktækar rannsóknir, ef ekki er eftir þeim farið. Þetta á líka við um aðrar rannsóknastofnanir, svo sem Hafrannsóknastofnun og fleiri slíkar, en því miður höfum við rekið okkur á það hér á hinu háa Alþingi og úti í samfélaginu yfirleitt að menn eru ekki sérlega áfjáðir í að fara að ráðum þeirra sérfræðinga sem við erum að búa góðar aðstæður í þessum stofnunum til að þeir geti unnið að sínum verkefnum.

Þá langar mig að geta þess, sem segir hér í grg. og ég legg líka mjög mikla áherslu á og tel mikils virði og vil fá að lesa, með leyfi forseta:

„Til þessa hefur ítölu aðeins verið komið á í einum afrétti.“ — Ég gat þess áðan að það væri Landmannaafréttur. — Unnið er að gerð ítölu fyrir nokkra hreppa og hefur það verk staðið lengi, einkum vegna skorts á grunnkortum af láglendi.“

Hér er komið að einum flöskuhálsinum í sambandi við skynsamlega nýtingu gróðurlendis á Íslandi, að það skortir mjög kort, — ekki öll kort, það væri ekki rétt hjá mér, — það skortir grunnkortin einkum og sér í lagi. Á þessu sviði þarf að vinna mikið starf því að ef þær upplýsingar, sem grunnkortin gefa, liggja ekki fyrir er mjög erfitt um alla ákvarðanatöku og erfitt um skynsamlega nýtingu landsins.

Ég nefndi áðan ítöluna. Ég lagði á það áherslu við nefndarstörfin að ekki aðeins þyrftum við, eins og ég gat um áðan, að reyna að haga búskap í þessu landi eftir landsháttum, heldur yrðum við — til þess að reyna að hlífa viðkvæmum gróðri á afrétti — að reyna að auka beit í heimahögum. Þetta er hægt að gera á margvíslegan hátt. Hefur m. a. verið sannað og sýnt fram á að þetta er unnt í Rangárvallahreppi og á Landi, þar sem borið hefur verið á heimahaga þar sem beitt hefur verið miklum fjölda fjár, miklu fleira fé en menn töldu að þeir hagar gætu borið. Það er líka þess að geta, að heimahagar þola mun meiri ágang en afrétturinn þar sem gróður er mun viðkvæmari einfaldlega vegna þess að hann stendur hærra og er á allan hátt miklu viðkvæmari fyrir öllum ágangi.

Mig langar einnig, herra forseti, — ég skal fara að stytta mál mitt, — að benda á tvö atriði sem ég tel mjög mikils virði í þessari áætlun: Það eru fjármunir sem fara til héraðsskógræktaráætlana. Þar held ég að sé á ferðinni mjög merkilegt mál og t. d. séu hinir svokölluðu bændaskógar mál sem þurfi að leggja miklu meiri áherslu á en gert hefur verið. Við höfum séð í nágrenni Hallormsstaðar árangur af þessu starfi. Sá árangur er svo stórkostlegur að allir hljóta að hrífast sem hann sjá.

Ég hef nefnt gróður- og jarðakortin sem ég tel mikilvægan þátt í þessari till., og síðast en ekki síst vil ég nefna það, að hér kemur fjármagn til rannsókna á vetrarþoli plantna. Þetta er nýr liður í þessari áætlun sem kemur inn á viðfangsefni RALA eða Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og er mjög mikilvægur. Ég hef hér á þingi flutt till. um auknar rannsóknir á kali og kalskemmdum, sem eru tvímælalaust dýrasta gróðureyðing sem við eigum við að stríða í þessu landi. Við þurfum að gera umtalsvert átak til að reyna að finna einhverja leið til að koma í veg fyrir hinar gífurlegu kalskemmdir sem kosta bændur- og þjóðina þá auðvitað í heild — miklu meiri fjármuni en allar aðrar gróðurskemmdir í landinu.

Þá vil ég geta þess, að í þessari tillögu er mjög mikilvægt atriði þar sem segir, með leyfi forseta:

„Nefndin telur nauðsynlegt að fylgst verði stöðugt með árangri af framkvæmd landgræðsluáætlunar og aflað sem öruggastra upplýsinga þar að lútandi.“ Ég held að það hafi komið fram í ræðu hæstv. landbrh. að hann teldi að þarna væri mikilvægt atriði á ferðinni til að koma í veg fyrir misskilning og hvers konar — skulum við segja — rangtúlkun á því, hvernig þeir fjármunir, sem þarna eru á ferðinni, verði notaðir. Það fer ekki hjá því, að menn hafi haft nokkurn grun um að fjármunir af landgræðsluáætlun hafi verið notaðir til að bera á haga, sem búfé var beitt á, og það hafi verið gert án þess að fyrir kæmi greiðsla. Það kom raunar í ljós að flestir sem höfðu notið slíkrar áburðardreifingar, höfðu greitt fyrir það, en engu að síður verður að tryggja að hvorki fræi né áburði sé dreift á lönd og lendur þar sem búfénaður kemst að nýgræðingnum og getur étið hann upp á skömmum tíma. Þá er til einskis verið að nýta þessa fjármuni og nýta þá verkkunnáttu og nýta þann mannafla eins og ætlunin er að gera.

Ég tek undir með hæstv. ráðh. að við þurfum líka að huga að útivistarmálum, og þar kemur að miklu kjarnaatriði í þessum málaflokki.: Það er það sem ég hef nefnt „sögulegar sættir“ dreifbýlis og þéttbýlis. Ég held að þar þurfi líka að vinna mikið starf til þess að ekki komi til alvarlegra árekstra.

Þetta eru þau atriði sem ég hef viljað leggja áherslu á. Ég fagna því mjög, að svo gott samkomulag skyldi takast um þessa till. sem raun varð á. Menn hafa kvartað undan því hér, að fjármagn hefði ekki fengist eins mikið hlutfallslega og var í upphaflegu landgræðsluáætluninni, en við því er ekkert að segja. Við verðum á þessum síðustu og verstu tímum að draga úr fjárveitingum til nær allra þátta þjóðlífsins og hér verður líka að gæta nokkurs sparnaðar eins og annars staðar. En við verðum að treysta því, að við getum gert betur næst, því að eins og hv. þm. Davíð Aðalsteinsson sagði réttilega áðan á þetta ekki að vera til að halda í horfinu, heldur á þetta að vera upphaf sóknar, og ég vænti þess fastlega, að svo verði.

Herra forseti. Ég vil eingöngu nota síðustu mínútuna til að þakka þeim mönnum sem unnu vel í þessari nefnd. Ég verð að segja það, að það kom mér skemmtilega á óvart að nefnd af þessum toga spunnin skyldi vinna jafnvel og þessi nefnd. Ég hafði satt að segja ekki ímyndað mér að nefndir gætu yfirleitt unnið eins hratt og vel og þessi nefnd gerði og það er auðvitað m. a. vegna dugnaðar formanns nefndarinnar. Fyrir þetta er ég þakklátur. Ég er líka þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessum nefndarstörfum. Þetta var bæði fróðlegt og skemmtilegt starf. — Ég held að ég óski ykkur að lokum til hamingju með þessa tillögu.