04.02.1982
Sameinað þing: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2252 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

151. mál, landgræðslu- og landverndaráætlun 1982--86

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. — Ég vil eins og aðrir fagna því, að þessi till. skuli vera komin hér fram og til umræðu. Mér finnst athyglisvert að samstaða skuli hafa náðst um þessa till., samstaða um þau markmið sem í till. felast, og er óþarfi af mér að fara að lesa þau upp því að það er búið að gera a. m. k. tvívegis í þessum umr.

Eins og fram hefur komið var þetta mál mjög vel undirbúið. Fyrir 1974 náðist einnig samstaða um þá till. sem þá var flutt, og það hefur enn fremur verið unnið mjög skynsamlega, að ég tel, að undirbúningi þessarar till. núna. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið gert á svipaðan hátt og var t. d. hjá okkur, að þeir menn, sem okkar þingflokkur tilnefndi í nefndina, komu nokkrum sinnum til okkar á þingflokksfund til að ræða þetta mál. Það hefur því sjálfsagt farið fram umræða í öllum þingflokkum um málið á vinnslustigi.

Hitt er auðvitað aftur annað mál, hverjum af þessum stefnumálum er hægt að ná með því fjármagni sem er tilgreint í till. En stefnumarkinu ber að fagna og vænta þess, að þegar gerð verður úttekt á árangri, eins og segir í 4. lið í till., og komi það í ljós, að markmiðunum verði ekki náð með því fjármagni sem hér er tilgreint, þá verði samstaða um að auka við það fjármagn þegar málið fer í endurskoðun að þremur árum liðnum. Það er enginn vafi á því, að t. d. varðandi 5. liðinn, að verjast landbroti, er engin áætlun til um hvað slíki kunni að kosta. Ég hygg að þar sé um miklu stærra verkefni að ræða en flestir gera sér ljóst.

Í þessum umr. hefur verið talað um að búskap sé ekki hagað eins og hagkvæmast væri. En ég er ekkert viss um að menn geri sér yfirleitt grein fyrir hvað þeir eru að fjalla um þegar talað er um hvað sé hagkvæmast. Þó í hlut eigi jarðir sem jafnvel liggja hlið við hlið, þá er ekki vist að það sé hagkvæmt að hafa t. d. kýr á annarri jörðinni þó að það sé á hinni, vegna þess hvernig landið er, o. s. frv. Það er margt sem kemur þarna til greina. Jafnvel þó að það séu langskólagengnir menn er ekki víst að þeir geri sér grein fyrir hver munurinn getur verið á jafnvel jörðum í sömu sveit í þessu tilliti.

Annað, sem er rætt um og hefur verið fjallað um hér á þingi hvað eftir annað, er beitarþolið. Auðvitað þarf að fylgjast með því, en það er ákaflega erfitt að gera áætlanir um beitarþol landsins nema vita fyrir fram hvernig tíðarfar verður á hverju sumri. Og það á sjálfsagt langt í land að veðurfræðingar okkar geti sagt fyrir um hvernig tíðarfar og hitastig verður á næsta sumri. Hins vegar er auðvitað hægt að fylgjast með því, hvernig afrétturinn grær á hverju ári. En það getur munað þriðjungi frá ári til árs hvað einn afréttur þolir miðað við tíðarfar. Og þá getum við séð hvað er erfitt og flókið að eiga við þetta verkefni.

Ég vonast til þess, að þetta mál komist fljótt í gegnum þingið og samstaða verði um að ná þeim markmiðum sem í till. felast, og komi það í ljós, sem ég er ákaflega hræddur um, að þessir fjármunir dugi skammt, þá verði líka samstaða um að bæta þar við þegar málið verður endurskoðað.