04.02.1982
Sameinað þing: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

151. mál, landgræðslu- og landverndaráætlun 1982--86

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og áður hefur komið fram hjá þeim ræðumönnum sem á undan mér hafa talað var með afgreiðslu landgræðsluáætlunar 1974 hafinn nýr kapítuli í samskiptum íslensku þjóðarinnar við land sitt. Málið er alls ekki á þá einu hlið, að ákveðið sé að borga stórfé úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar með þátttöku allra landsmanna, ekki síður þéttbýlisbúa en annarra, til þess að græða þau sár sem gengnar kynslóðir hafa veitt landinu. Málið er einnig á þá hlið, að um leið og umsjónarmenn landsins taka við því fé taka þeir að sjálfsögðu við þeirri ábyrgð að meðhöndla þessa auðlind lands okkar sem er gróðurinn með þeim hætti, að sú aðstoð, sem verið er að veita þeim af sameiginlegu fé þjóðarinnar, verði ekki unnin fyrir gýg. Öllum skyldum fylgja nokkrar ábyrgðir, öllum réttindum fylgja skyldur. Þeir, sem taka við þessu fjármagni og njóta góðs af því, verða auðvitað að gera sér það fyllilega ljóst, að því fylgja ákveðnar skyldur, sem ég er alveg, sannfærður um að þeir eru menn til að rísa undir.

Hér er m. ö. o. vonandi verið að stiga fyrstu skrefin í þeirri merkilegu þróunarsögu í samskiptum okkar við land okkar, að tekin verði upp raunhæf landnýting þar sem í senn sé lögð áhersla á að græða upp land með þátttöku þjóðarinnar allrar og ekki síður að nýta þá uppgræðslu og það land, sem fyrir er, með skynsamlegum hætti bæði bændum og þjóðarheildinni til velfarnaðar. Það er vissulega ánægjulegt að þrátt fyrir alla þá deilu, sem oft hefur orðið um nýtingu náttúruauðlinda, bæði náttúruauðlinda fastalandsins og náttúruauðlinda sjávarins, hér á Alþingi, séu allir þingflokkar sammála um að reyna að marka þessa stefnu. Ber e. t. v. að skilja það svo, að þær deilur, sem uppi hafa verið milli manna um þessi efni, séu meira á yfirborðinu heldur en hitt.

Mjög nýlega var hér á Alþingi rætt um sambærilega hluti þegar til umr. var þáltill. um landnýtingaráætlun sem þm. úr öllum flokkum standa að, en 1. flm. þess máls var hv. þm. Davíð Aðalsteinsson. Í því sambandi urðu nokkrar umr. um nýtingu lands og landgæða. Er ósköp eðlilegt, að um það sé nokkuð rætt, og skiljanlegt, að það séu viðkvæm mál fyrir alla aðila, sérstaklega þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta um nýtingu náttúruauðlinda, þegar rætt er um skynsamlegustu nýtingu þeirra og aðgerðir til að stemma stigu við ofnýtingu eða rányrkju. Öll vitum við að það er viðkvæmt mál fyrir fiskimenn okkar þegar rætt er um nauðsyn þess að takmarka sókn í fiskstofnana, sem eru auðlind sjávarins. Og það er ósköp skiljanlegt að það sé einnig viðkvæmt mál fyrir þá sem búskap stunda þegar rætt er um nauðsyn þess að koma í veg fyrir rányrkju og ofnýtingu gróðurs. Þetta er ósköp skiljanlegt. En menn verða engu að síður að gera sér ljóst að það er nauðsynlegt að slík umræða eigi sér stað og að til slíkra aðgerða verði gripið, því að það nær auðvitað ekki nokkurri átt að skattleggja þjóðarheildina til þess að græða land ef ekki er frá því gengið fyrir fram og í góðu samkomulagi allra aðila, að sú framkvæmd verði nýtt með sem bestum og öruggustum hætti án þess að hætta sé á rányrkju.

Ég ætla ekki að fara að rifja upp þær deilur sem þá áttu sér stað, aðeins með örfáum orðum að benda mönnum á efni skýrslu um landgræðsluáætlun 1981–1985, sem alþm. hafa fengið, og hvernig sú skýrsla svarar ýmsum þeim spurningum sem vöknuðu í þeirri umræðu.

Í umræðum um landnýtingaráætlunina kom það m. a. fram hjá nokkrum hv. þm., að vafasamt væri að nokkurs staðar væri um að ræða ofnýtingu gróðurlendis, vafasamt vegna þess að ekki hefði enn þá fengist um það niðurstaða hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins og öðrum til þess bærum aðilum, hvert væri beitarþol viðkomandi afréttarlanda.

Ég leyfði mér að benda á að sama máli gegndi um ágreining varðandi sóknarþunga og þot fiskstofna. Þar er ekki samkomulag á milli þeirra sem hagsmuna eiga að gæta, t. d. um hvað þorskstofninn þolir mikla veiði, hvað loðnustofninn þolir mikla veiði né heldur hvað síldarstofninn þolir mikla veiði. Engu að síður hafa menn þó getað orðið sammála um að oft á tíðum hafi sóknarþunginn í þessar auðlindir verið of mikill. Það eru því engin rök fyrir því, að sóknarþungi sé ekki of mikill, þó að menn hafi ekki orðið sammála um hver sé hæfilegur sóknarþungi. Það eru ekki heldur nein rök fyrir því, að um ofnýtingu á gróðurlendi sé ekki að ræða, þó að menn séu ekki orðnir sammála um það, hver sé hæfileg nýting. En gott og vel, við skulum ekki deila frekar um þetta. Við skulum líta á það sem landgræðsluáætlunin sjálf hefur um þessi mál að segja.

Hvert skyldi vera það svar sem landgræðsluáætlunin gefur við þessari spurningu? Hvert er álit þeirra sem hana semja? Á bls. 19 í skýrslu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins stendur orðrétt, með leyfi forseta: „Gróðurrannsóknir hafa leitt í ljós að afréttir landsins eru víða full- eða ofnýttir, en á láglendi er víða gróðurlendi sem ekki er fullnýtt til beitar.“ Þetta er niðurstaða Rannsóknastofnunar landbúnaðarins sem liggur til grundvallar þeirri áætlun sem nú á senn að fara að afgreiða, álit Rannsóknastofnunarinnar og svar hennar. Úrskurður hennar í þessu ágreiningsefni okkar þm. er, eins og ljóslega kemur fram, að afréttir landsins séu víða full- eða ofnýttar.

Ég vil enn fremur benda hv. alþm. á lýsingarnar sem gefnar eru af landgræðsluaðilum á bls. 43, 44 og 45 í þessari skýrslu. Þar stendur t. d. um svæðið Lúdent í Suður-Þingeyjarsýslu að svæðið hafi verið illa farið af beit. Þar stendur einnig um Reykjanes, Gullbringusýslu, um Hafnaheiði, að ljóst sé að óskynsamlegt fjárhald eigi þarna verulegan hlut að máli. Samkvæmt þeim skýrslum, sem við höfum í höndunum, er m. ö. o. ljóst í fyrsta lagi, að Rannsóknastofnunin telur að margar afréttir séu full- eða ofnýttar, í öðru lagi nefnir hún nokkur dæmi um það, og í þriðja lagi nefnir hún enn fremur dæmi um það þar sem ástandið er svona vegna ofbeitar.

Á bls. 60 í þessari sömu skýrslu er þetta enn endurtekið. Þar stendur orðrétt, með leyfi forseta: „Gróðurrannsóknirnar hafa leitt í ljós að afréttir landsins eru víða full- eða ofnýttir.“ Hér er því ekki um að ræða fullyrðingar af minni hálfu sem byggðar séu á vafasömum upplýsingum, eins og látið var í veðri vaka, heldur er hér um álit að ræða sem er lagt fyrir Alþingi af hæstv. landbrh. sem niðurstaða sérfræðistofnana. Um það er svo hins vegar að sjálfsögðu deilt, hversu víðtækar þessar ofnytjar séu, á hvaða svæðum þeirra gæti og á hvaða svæðum ekki. Ég get ekki skorið úr því deilumáli fremur en aðrir alþm. Mér skilst að Rannsóknastofnun landbúnaðarins eigi sjálf erfitt með að skera úr um það. En hitt liggur fyrir, það er álit hennar, að gróðurlendi landsins, afréttir og hálendi, sé víða full- eða ofbeitt, og jafnframt að mjög víða stafi slæmt ástand gróðurfars af mikilli beit.

Í annan stað vildu menn halda því fram, að sú gróðureyðing, sem þarna er verið að ræða um og við ætlum nú m. a. að reyna að stemma stigu við og snúa þar vörn í sókn, stafaði af beitarþunga. Mér er fyllilega ljóst að það eru margar ástæður sem valda gróðureyðingu á hálendi landsins og í heimahögum. Mér er það eins vel ljóst og öðrum þm., að þar er síður en svo við bændur að sakast í flestum tilvikum. Þéttbýlisbúar, sem þarna eiga leið um, spilla oft stórkostlega gróðri, eins og ég leyfði mér að benda á fyrr í minni ræðu um umgengni um landið. Hins vegar neita ég því, sem fram kom í umr. hér fyrr um sambærilegt mál, að beitin ætti enga sök á þessu. Ég tel að beitin eigi þar einnig sök, þó menn geti að sjálfsögðu um það deilt, hve mikil sú sök sé.

Við skulum enn bera niður í þessari sömu skýrslu um landgræðsluáætlun til þess að kanna álit þeirra sem hana hafa samið. Á bls. 5 í landgræðsluáætluninni segir svo um áburðardreifingu með flugvélum og sáningu mel- og grasfræs, með leyfi forseta: „Þessi aðstoð er enn fremur bundin skilyrðum um meðferð landsins og hefur þannig náðst samkomulag um að leggja af afréttargöngu hrossa á mjög mörgum afréttarsvæðum og stytta beitartíma sauðfjár.“ Hvers vegna skyldu þessi skilyrði hafa verið sett, að létta beitarþunga af þeim löndum sem á að taka til uppgræðslu? Skyldi ástæðan ekki vera sú, að þeir, sem skilyrðin setja, telja að beitarþunginn sé of mikill til þess að gróðurstarfið geti borið árangur, öðruvísi en menn fallist á að sæta þeim skilyrðum að létta þessum beitarþunga nokkuð af? Ég held að það sé alveg auðsætt.

Við skulum enn fremur líta á bls. 11. Þar segir, með leyfi forseta: „Enn sem fyrr verður að leggja megináherslu á að stöðva alla hraðfara gróður- og jarðvegseyðingu í byggð. Ekki er unnt að stöðva uppblástur og vinna að uppgræðslu á þessum svæðum nema að friða þau algerlega fyrir ágangi búfjár.“ Skyldi þessi niðurstaða hafa orðið í skýrslu hæstv. landbrh. ef þeir, sem þetta tóku saman og eiga að vera þeir sérfræðingar sem best vita, hefðu ekki verið þeirrar skoðunar, að beitin hafi áhrif á gróðurfarið og það sé mjög varasamt, þar sem um uppgræðslu lands sé að ræða, að beita landið nema með sérstakri varfærni og sérstöku eftirliti?

Á bls. 16 segir enn fremur og er ítrekað að góður árangur hafi náðst í beitarstjórn á undanförnum árum þar sem um áburðarnotkun og grasfræsgjöf hafi verið að ræða, enda, eins og þar segir, hafi slík aðstoð verið „bundin þeim skilyrðum, að bændur fylgdu reglum Landgræðslu ríkisins um meðferð landsins“.

Á bls. 44 í skýrslunni segir, eins og ég gaf dæmi um áðan um tiltekið uppgræðslusvæði, að ljóst hafi verið að gróðureyðing þar hafi átt rætur sínar að rekja til óskynsamlegs fjárhalds.

Og á bls. 47 segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Fylgst hefur verið með notkun beitilanda úr lofti og af láði, sérstaklega hefur verið fylgst með ástandi gróðurs við afréttargirðingar, sem sums staðar hefur nálgast verulegt hættuástand. Einnig hefur verið unnið að því að draga úr upprekstri stóðhrossa á viðkvæm afréttarlönd og fækka beitardögum þeirra, þar sem þau keppa um beitargróður við sauðfé á ofsetnum afréttum.“

Ég vænti þess, herra forseti, að þm. hafi e. t. v. ekki verið búnir að lesa þessa landgræðsluáætlun þegar umr. fóru fram um till. nokkurra þm. um landnýtingaráætlun. En ég held að það fari ekkert á milli mála, eftir að menn hafa kynnt sér þessa tilvitnanir mínar, hvaða skoðun þeir menn, sem landgræðsluáætlunina hafa samið og skýrsluna hafa gert sem hér er vitnað í, hafa á þeim ágreiningsefnum sem urðu í þeirri umr. Menn geta vissulega neitað þeirra röksemdum ef þeir kæra sig um, lokað augunum fyrir staðreyndum og lýst sig ósammála þeim niðurstöðum sem komist er að í þessari landgræðsluáætlun, en þá meta menn meira eigið brjóstvit en niðurstöður þeirra sérfróðu manna sem þarna leggja hönd á plóginn.

Þá kom einnig fram í þessum umr. að efast var mjög um að bein tengsl væru á milli beitar og fallþunga. Það var efast um að ofbeit á afréttarlöndum ætti nokkurn þátt í því að minni fallþungi næðist af þeim svæðum en annars staðar. M. ö. o. var dregið í efa að hægt væri að sjá nokkur bein tengsl væru annars vegar á milli þeirra svæða, þar sem ekki er talið að ofbeit sé og fallþungi er mikill, og hins vegar þeirra svæða, þar sem talið er að um ofbeit sé að ræða og fallþungi er lítill. Við höfum slík svæði á landinu. Má segja að þetta fylgist nokkuð að þegar á heildina er litið, að fallþungi er langt yfir meðallagi á þeim svæðum, þar sem talið er eftir rannsóknum gróðurrannsóknarmanna að ekki sé um ofbeit að ræða, og svo hins vegar að fallþungi af þeim svæðum er lítill, þar sem talað er um að um ofbeit sé að ræða, eða þar sem menn verða að beita fé sínu mjög í heimahaga vegna þess að afréttir eru takmarkaðar. Menn töldu að ekkert beint samhengi væri þarna á milli. Ég tek það þó sérstaklega fram, að það er ekki skoðun Sveins Hallgrímssonar. Hann telur að það sé. Og það telja einnig þeir sem hafa sett saman þá áætlun sem hér liggur á borði okkar, því að á bls. 27 í þessari bók, svo að ég gefi eitt dæmi þar um, er birt mynd og myndartextinn hljóðar svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Of mikið beitarálag skaðar gróðurlendin og dregur úr fallþunga dilka.“ Ég held að menn geti varla deilt við mig miklu lengur um þetta. Þeir ættu þá frekar að snúa sér að hæstv. landbrh. — eða öllu heldur þeim mönnum sem hafa lagt honum þessa skýrslu í hendurnar.

Hitt er öllu verra, hæstv. forseti, ef það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Egils Jónssonar hér síðast, að hann sé leyndur þessum upplýsingum og meira að segja formaður þingflokks Alþfl., sem — eins og menn verða nú varir við — hefur mikinn áhuga á landbúnaðarmálum, enda eru nánast ekki orðnir eftir hér í salnum aðrir en þm. Alþfl. og nokkrir bændur, að undanteknum einum ágætum þm. Alþb. (Gripið fram í.) Tveimur. Þá held ég að ekki fari hjá því, að hv. þm. Egill Jónsson verði að stofna til betri tengsla við sérfræðistofnanir landbrn. um landnýtingarmál áður en hann fer að fullyrða öllu meira.

Herra forseti. Þá var einnig spurt um það á sínum tíma, hvaða sérfræðimenntuðu menn það væru sem ég hefði sótt upplýsingar mínar til um landnýtingarmál. Mér barst í dag bréf frá einum þessara manna. Ég hef leyfi hans til þess að lesa bréfið. Bréfið er dagsett 30. jan. 1982 og hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

„Kæri Sighvatur Björgvinsson.

Ég sé af blöðum að þú átt í höggi við íhaldsbændasjónarmið á Alþingi. Af því tilefni sendi ég þér tvo bæklinga sem geta lagt þér vopn í hendur gegn fullyrðingum þeirra og mér liggur við að segja rökleysu. Ritgerðir þessar eru ekki nýjar af nálinni, sú elsta er nákvæmlega 40 ára þessa dagana. Samt er ekki farið að slá neitt í hana. Hún er ekki skemmtileg aflestrar, sennilega með því leiðinlegasta sem ég hef skrifað. En hún er samt þess virði, að þú rennir augum yfir hana. Hinar tvær eru miklu auð- og fljótlesnari. Ég býst við að niðurlag síðustu ritgerðarinnar falli vel að smekk þínum og flokksbræðra þinna.

Mér meira en óar hve gáleysislega síðasta landgræðsluáætlun er samin. Í fimm ár hefur Landgræðslan hent dönsku grasfræi og dýrum áburði út í loftið. Og nú á að halda þessu áfram án þess að menn hafi kynnt sér tilgangsleysi slíkrar uppgræðslu. Einu notin, sem af þessu hafa komið, er að dilkar hafa verið vænni en ella í allmörgum sveitum. En grösin hverfa aftur til moldarinnar um leið og tekur fyrir áburðargjöf. Taktu viljann fyrir verkið.

Vinsamlegast,

Hákon Bjarnason.

Eftirmáli: Þú mátt nefna mitt nafn hvar sem er í sambandi við umræður eða skrif. Með kveðju. Hákon.“

Þá er ljóst að einn sá maður sem mestrar virðingar hefur notið meðal landverndarmanna á Íslandi og var nýlega sérstaklega heiðraður af öllum þeim eða flestöllum sem áhuga hafa á þeim málum, hann telur að ýmislegt í þeim sjónarmiðum, sem við Alþfl.-menn höfum haldið fram í þessum máli, sé rétt, og — eins og hann segir hérna — heimilar mér að nefna sitt nafn í sambandi við slíkar umræður eða skrif þegar ég telji að á því þurfi að halda.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara öllu fleiri orðum um þetta, en vil þó aðeins ljúka þessari umr. af minni hálfu með því að vitna í nokkur orð sem kannske skýra álit Hákonar Bjarnasonar nokkru frekar. Hann segir í einni ritgerða sinna orðrétt svo: „Þáttur ofbeitarinnar í eyðingu landgæða er svo umfangsmikill, að mjög er erfitt að gera honum viðunandi skil í stuttum kapítula.“ Samt tekur hann við að gera honum þau skil. Ég hef ekki tíma eða aðstöðu til að lesa þau skrif öll, en hann kemst m. a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Er ekki dæmalaust til þess að vita, að þrátt fyrir allar framfarir og framkvæmdir á sviði ræktunar skuli rányrkja og örtröð hafa aukist stórkostlega? Það er ekki nema gott eitt að segja um aukna ræktun og hún mætti sannarlega vera meiri en hún er. En það er hörmulegt til þess að vita, að ræktunin hefur haft þann agnúa í för með sér, að rányrkjan á óræktuðu landi hefur vaxið samfara hinni auknu ræktun. Það getur ekki verið hagur neins,“ heldur Hákon áfram, „að bústofninn aukist svo að örtröð í beitilöndum verði svo mikil að arður búpenings minnki, en þetta á sér stað í flestum sveitum landsins.“

Hv. þm. Egill Jónsson óskaði eftir að ég fyndi þeim orðum mínum stað, að ég hefði orð sérfróðra manna fyrir því, að samhengi væri á milli ofbeitar og minnkaðs fallþunga og að arður búpeningsins væri minni en hann ella væri vegna ofbeitarinnar. Ég tel að ég hafi hér fundið þessum orðum mínum stað. Ég held að enginn þm., hvorki hv. þm. Egill Jónsson né annar, geti ráðist að fyrrv. skógræktarstjóra og fullyrt að hann sé ekki til þess bær að hafa skoðanir á þessum málum, hann hafi ekki vit á því máli sem hér sé verið að fjalla um.

Hann styður þetta enn fremur með frekari rökum og nefnir þar m. a. að á Suður- og Suðausturlandi séu dilkar allt upp í 6 kg léttari að meðaltali að því er kjötþunga snertir en á Norðvestur- og Norðurlandi. (Gripið fram í.) 6 kg, segir hann. Allt upp í 6 kg. Síðan heldur hann áfram og segir orðrétt: „Ástæður til þess munar geta verið margar, en aðalástæðan hlýtur samt að vera vanfóðrun samfara landþrengslum og of miklum ásetningi í haga á sumrum.“ (EgJ: Er þetta 40 ára skýrslan?) „Það munar sannarlega um minna en 6 kg mismun á fallþunga dilka að haustlagi“.

Herra forseti. Ég held að Hákon Bjarnason hafi getið sér það orð í sambandi við landvernd á Íslandi, að það sé algjör óþarfi fyrir hv. alþm. Egil Jónsson að vera að hlæja að honum og hans starfi hér á þingfundi. Ég held að það sé algjörlega ástæðulaust og sýni það eitt, að hv. þm. á mjög erfitt með að meðtaka skoðanir sem honum líka ekki, jafnvel þó að þær komi frá mönnum sem eru ekki bara leikmenn í þeim efnum eins og ég er, heldur mönnum sem eru almennt mjög virtir og í miklum metum í landinu og hafa getið sér miklu betra orð sem landnýtingarmenn heldur en hv. þm. Egill Jónsson. Ég leyfi mér þá að halda áfram. Hákon segir orðrétt, með leyfi forseta: „Aðalástæðan hlýtur samt að vera vanfóðrun samfara landþrengslum og of miklum ásetningi í haga á sumrum. Það munar sannarlega um minna en 6 kg mismun á fallþunga dilka að haustlagi, og svo bætist hér við flokkun kjötsins, þannig að verðmunur er langtum meiri en þungamuninum einum nemur.“

Það er sem sé álit Hákonar Bjarnasonar sem ég vitna hér til. Auðvitað geri ég mér eins og aðrir fulla grein fyrir því, að um margt af þessu má deila. En menn verða að gera sér ljóst að þó að vel geti verið að ástæða sé til að taka með varfærni því sem miklir gróðurverndarmenn fullyrða um ástand gróðurfars á landi, e. t. v. vegna þess að þeir vilja sýna of mikla varfærni, — alveg eins og verður að taka mjög varlega og með öllum fyrirvörum því sem sérfróðir menn og áhugamenn um fiskvernd fullyrða vegna þess að þeir vilja e. t. v. vera of varfærnir í þeim sökum, — þá er gersamlega ástæðulaust og raunar stórhættulegt, ekki síst fyrir þá menn sem eiga sérstakra hagsmuna að gæta, hafa atvinnu sína og viðurværi af nýtingu þessara náttúruauðlinda, — það er stórkostlega hættulegt fyrir þá aðila og raunar alla aðra að skella algerlega skollaeyrunum við viðvörunum af þessu tagi og fráleitt að taka slíkum viðvörunum með þeim hætti, herra forseti, að hlæja hæðnishlátri að mönnum sem getið hafa sér sérstakt orð og notið hafa sérstakrar viðurkenningar íslensku þjóðarinnar sem vísindamenn á sínu sviði og sem áhugamenn um landrækt og landbætur á þessu landi.

Herra forseti. Þetta vildi ég aðeins láta koma fram á þessu stigi málsins. Ég ætlaði mér ekki með því að vekja neinar deilur, þó að þær kynnu e. t. v. að fylgja í kjölfarið. Menn verða að ráða því sjálfir. En meginatriði málsins um þessa landgræðsluáætlun er þó það, að allir þingflokkar hafa náð samkomulagi um að standa að framkvæmd hennar, í þeim skilningi að sjálfsögðu að þarna sé ekki aðeins verið að leggja skyldur á herðar tiltekins hluta landsmanna, þ. e. þeirra landsmanna sem teljast ekki eiga neitt land en borga meginhluta reikningsins fyrir landgræðsluna, heldur sé einnig verið með þessu að leggja skyldur á þá sem eiga að sjá til þess að þetta heildarátak íslensku þjóðarinnar nýtist henni eins og best verður á kosið, en hverfi ekki á skömmum tíma vegna ofnýtingar þeirra gæða sem verið er að reyna að vernda með þessum hætti.