04.02.1982
Sameinað þing: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2263 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

151. mál, landgræðslu- og landverndaráætlun 1982--86

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég vil, eins og aðrir þeir sem hér hafa tekið til máls um þessa till. til þál., tjá stuðning minn við hana, og dregur það ekki úr því áliti mínu á verkinu að ég kom lítils háttar að því að fjalla um hana þar sem ég mætti á tveimur fundum í forföllum aðalmanns okkar sjálfstæðismanna í nefndinni sem fjallaði um þessa till. Ég er sannfærður um að hún muni geta orðið til góðs og hún verði gott framhald af hinni fyrri till., sem ég tel að hafi sýnt góðan árangur þó að mér sé ljóst að við höfum alls ekki getað fengið fullnægjandi úttekt á því, hvað hefur gerst við þá aðgerð sem till. ákvað. Ég vil þess vegna taka undir það sem hér hefur komið fram í þessum umr., að það er mikil nauðsyn að sem best sé staðið að því að kortleggja landið til þess að hægt sé að fylgjast nægilega vel með því, hvernig starfinu miðar áfram í því að græða landið upp og verja það ágangi.

Ég hefði ekki þurft að kveðja mér hér hljóðs hefði ekki óvænt komið til álita og komið til umræðu efni sem var ekki beint í tengslum við þessa till., heldur frekar í tengslum við till. um landnýtingaráætlun sem hér var til umr. fyrir nokkrum dögum. Ég get ekki annað en tekið það til mín sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði, að ýmsir bændur hér, sem um þessi mál hafa fjallað virtust ekki hafa skilning á því, að ofsetið land drægi úr fallþunga dilka. Mig minnir að hann orðaði það eitthvað á þessa leið. Þetta er í fyrsta lagi ekki rétt. Ég hafði ekki nein orð um að ofnytjað land kynni ekki að draga úr fallþunga. Hins vegar benti ég á að það er mat landnýtingarráðunautar Búnaðarfélags Íslands, að það, sem fyrst og fremst dragi úr fallþunga dilka sé ef féð er of þétt í högum, jafnvel þó að grasið sé nóg. Ef það er sett of þétt inn í hagana nær það ekki fullnægjandi vexti.

Hins vegar gerði ég nokkra tilraun til að leiðrétta það sem kom fram í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar þá, að íslenskir bændur mundu fá jafnmikið dilkakjöt þó að þeir fækkuðu fé sínu um 400–500 þús. fjár. Ég leiddi þar til sanninda niðurstöður sem landnýtingarráðunautur hafði unnið vegna fyrirspurna Stéttarsambands bænda um það, hvort fjölgun sauðfjár á undanförnum árum mundi hafa orsakað minnkandi fallþunga dilka. Landnýtingarráðunautur kemst að þeirri niðurstöðu, að þar sé ekki beint samband á milli, það séu svo margir liðir sem valda því, hver fallþunginn sé, að þessi einn ráði ekki úrslitum í því efni.

Mér þykir rétt að láta það koma fram, að það verður ekki með neinum sanni sagt að bændur séu yfir höfuð andvígir því, að gerðar séu áætlanir um hvernig landið er nýtt, og að þeir vilji ekki stuðla að því, að það sé nýtt með skynsamlegum hætti. Það hefur komið fram hvað eftir annað, bæði með aðgerðum bænda og ályktunum, að það er þeim áhugamál að landið sé í sem bestu horfi. Ég vil t. d. geta þess, að það var ekki búið að semja neina áætlun um landvernd og gróðurnýtingu þegar bændur í minni heimasveit ákváðu að hætta að reka hross til afréttar. Síðan eru að verða 30 ár og síðan hafa ekki verið rekin hross á afréttinn. Vitaskuld var það gert til að vernda gróðurinn. Ég tek því þess vegna ekki þegjandi að það sé borið á mig eða aðra bændur að okkur sé sama um landið. Ég kalla það svo að manni sé sama um landið ef það er borið upp á okkur með réttu að við teldum að beitarþungi hefði ekkert að segja.

Ég spurðist m. a. fyrir um hvaðan hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefði þær fréttir, að víða væru ofsetnir afréttir, og ég óskaði eftir að fá upplýsingar um hvar þeir afréttir væru. Það er sú spurning sem bændur hafa beint sérstaklega til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, en ekki fengið svör við. Það er grundvallaratriði, að við vitum hvar meinið er, til þess að við getum komist fyrir það. Það er mitt álit.

Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög, en ég get ómögulega annað en komið örlítið að því sem hv. þm. las áðan upp úr sendibréfi frá Hákoni Bjarnasyni fyrrv. skógræktarstjóra, þar sem hann viðhafði þau orð, að hér væri unnið að uppgræðslu lands að dönsku fræi og áburði væri hent út í loftið. Hvað eiga svona fullyrðingar að þýða? Hvað segja þær? Þær segja að manni, sem er svona „fanatískur“ í sínum umsögnum, verður vart að treysta í því sama máli. Ég vil þá leiða til vitnis annan mann, sem hefur nokkra þekkingu á því, hvernig hefur farið um þann gróðurauka sem átti að verða samkv. landgræðsluáætluninni, og það er landgræðslustjóri sjálfur, Sveinn Runólfsson, sem segir svo í viðtali við Þjóðviljann sem birt er 30. og 31. jan. s. l.:

„Samkvæmt landgræðslulögum er ekki ætlast til þess, að Landgræðsla ríkisins framkvæmi meiri háttar rannsóknir, heldur skuli Rannsóknastofnun landbúnaðarins framkvæma þær. Hins vegar hefur Landgræðsla ríkisins framkvæmt ýmsar athuganir á notkun tilbúins áburðar, svo og samanburðarathuganir á grastegundum.“ — Og hann heldur áfram: „Við skulum gera ráð fyrir þeirri forsendu, að gróðurlendið minnki að jafnaði um 2 þús. hektara á ári, en það veit enginn upp á víst. Nú hefur árlega verið dreift um 3 þús. tonnum af fræi og áburði á vegum Landgræðslu ríkisins. Ef helmingurinn af þessu magni fer í enduráburðargjöf, þá eru eftir 1500 tonn til nýgræðslu. Þurfi 500 kg til þess að græða upp einn hektara, eins og láta mun nærri, þá græðum við árlega upp 3 þús. hektara. Þetta bendir til þess, að við séum í sókn í gróðuraukningu landsins, en ekki á undanhaldi eins og sumir telja.“

Þetta er álit landgræðslustjóra á því, hvernig er að „fleygja dönskum fræjum út í loftið“. Því miður getur hann ekki fullyrt um þessar tölur, eins og hann tekur fram: „Það bendir til,“ segir hann. Við getum ekki, hvorki hann né Hákon Bjarnason, hvorki nú né fyrir 40 árum, fullyrt um hvernig okkar starf gengur í þessum efnum fyrr en við fáum nákvæmari úttekt á því sem verið er að gera, með gróðurkortagerð eða með öðrum hætti.