27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

321. mál, húsnæðismál

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson hefur borið fram fsp. á þskj. 25 um húsnæðismál í 8 töluliðum.

Fyrst er almenn spurning, hvort ríkisstj. vilji gera Byggingarsjóði ríkisins kleift að fullnægja eftirspurn eftir íbúðalánum með þeim lánskjörum að því er varðar lánsupphæð, lánstíma og vexti, að staðið verði undir af almennum launatekjum.

Núv. ríkisstj. markaði stefnu sína í húsnæðismálum með setningu laga nr. 51/1980, um Húsnæðisstofnun ríkisins og félagslegar íbúðabyggingar. Með þeim lögum er fjármagn til byggingarsjóðanna, lánsfjármagn og fjárframlög, aukið mjög verulega, bæði framlög samkv. fjári. og lánsfé samkv. lánsfjáráætlun. Raunaukning útlánagetu byggingarsjóðanna á þessu ári er um 8%, og samkv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sem liggur fyrir þinginu, er um aukningu að ræða upp á 18%. Sérstök áhersla er í hinum nýju lögum lög á að auka fjármagn til byggingar verkamannabústaða og leiguíbúða sveitafélaga með því að efla Byggingarsjóð verkamanna, og eru honum tryggðir stórauknir tekjustofnar. Með þeim hætti er reynt að sinna fyrst vanda þeirra sem enga íbúð eiga og lakar eru settir í húsnæðismálum.

Lánakjör sjóðanna eru við það miðuð að auðvelda launafólki að standa undir lánum til íbúðabygginga. Byggingarsjóður ríkisins veitir lán til 26 ára með 2% vöxtum og Byggingarsjóður verkamanna veitir lán til 42 ára með 0.5% vöxtum. Öll útlán sjóðanna eru verðtryggð samkv. lánskjaravísitölu eins og hún er á hverjum tíma. Lánin hækka ársfjórðungslega. Lánsréttur ákvarðast af fokheldisstigi og koma lánin til útborgunar í þremur hlutum. Á fjórða ársfjórðungi 1981 nema lán til tveggja til fjögurra manna fjölskyldna 141 þús. kr., en þessi fjölskyldustærð vegur um 60–70% í lánveitingunum alls. Þetta lán er afborgunarlaust fyrsta árið, aðeins greiddir vextir og vísitöluálag. Síðan eru þetta jafngreiðslulán, annuitetslán, í 25 ár. Lántakandi, sem er með 72 þús. kr. í árslaun eða 6 þús. kr. á mánuði, greiðir um 4.4% af árslaunum sínum í vexti og vísitöluálag fyrsta árið af ofangreindu láni, miðað við núgildandi kjör. Næstu 25 ár greiðir hann um 10.3% á ári af þeim árslaunum sem hér eru nefnd og eru vafalaust í lægra kanti.

Ríkisstj. mun láta gera sérstaka athugun á lánsfyrirkomulagi á næsta ári. Það, sem ég hef einkum rætt þar við Húsnæðisstofnunina, er tvennt:

Það er í fyrsta lagi að kannað verði hvað það kostar að stytta mjög tímann sem líður á milli útborgunar lánshluta nýbyggingarlána. Þessi tími er alllangur núna. Lánin rýrna í verðbólgunni og þess vegna er nauðsynlegt að stytta þennan tíma. Við höfum farið fram á könnun á því, hvað það kostar mikla fjármuni að stytta þann tíma sem nú er á milli útborgunar lánshluta.

Í annan stað hef ég farið fram á athugun á því, hvað það kostar að veita nokkru hærri lán til þeirra sem eru að byggja í fyrsta sinn. Ég ítreka að hér er fyrst og fremst um að ræða spurninguna um hvað hlutirnir kosta og hvaðan fjármunir koma til þess að standa undir viðkomandi kerfum.

Það hefur ekki komið fram hér á Alþingi nein ábyrg tillaga, frá því að þessi nýju lög væru sett, um hvernig ætti að bæta úr þessum málum, þ. e. auka fjármagn til húsnæðislánasjóðanna. Það hafa komið fram yfirborðstillögur frá stjórnarandstöðunni, sem gera í rauninni ráð fyrir að teknir séu svo og svo margir milljarðar kr. og fluttir yfir til húsnæðislánakerfisins, án þess að gera grein fyrir því, hvað á í staðinn að brúa bilið hjá ríkissjóði eða hvað á að skera niður í staðinn. Þegar menn flytja slíkar tillögur þurfa þeir auðvitað að venja sig á að gera nákvæma grein fyrir hvað þeir vilja skera niður í staðinn af útgjöldum ríkissjóðs. Fyrr eru slíkar tillögur markleysa.

Í annan stað spyr hv. þm.: Hvað eru almenn íbúðarlán Byggingarsjóðs ríkisins nú há í hlutfalli við byggingarkostnað?

Við þennan samanburð undanfarin ár hefur verið miðað við byggingarkostnað íbúðar í vísitöluhúsinu á miðju ári hvers árs. Þessi íbúð er 96 m2 brúttó með sameign og hún er miðuð við 10 íbúða fjölbýlishús. Ekki hefur verið tekið tillít til þess, hvenær lánin koma til útborgunar, en fyrsti hluti er til afgreiðslu um 3–4 mánuðum frá fokheldisdegi. Síðan eru um 6 mánuðir á milli lánshluta. Á miðju þessu ári var þetta hlutfall vísitöluíbúðarinnar 33% fyrir meðalfjölskylduna, en var í fyrra samkv. eldri lögum 31%. Hins vegar er þetta hlutfall miklum mun hærra fyrir stærri fjölskyldur. Fjölskyldur með sex einstaklinga og fleiri eiga nú rétt á láni sem nemur 193 þús. kr. eða 19.3 millj. gkr.

Lán til nýbyggingar samkv. nýju lögunum er hins vegar ákveðið hlutfall af verði svokallaðra staðalíbúða. Þessar íbúðir eru vandaðar að allri gerð og þær eru hannaðar í svokölluðum parhúsum, en ekki í stórum fjölbýlishúsum eða allstórum, eins og svokallaðar vísitöluíbúðir. Hér er um að ræða fjórar gerðir staðalíbúða: fyrir einhleyping, 2–4 manna fjölskyldu, 5–6 manna fjölskyldu og 7 manna fjölskyldu og stærri. Lánin nema um 17.4% af verði staðalíbúðanna án tillits til útborgunartíma lánshlutanna.

Í þriðja lagi er spurt: Hve margar óafgreiddar lánsumsóknir hjá Byggingarsjóði ríkisins liggja fyrir og hvernig skiptast þær á milli lánaflokka?

Undanfarin ár hafa alltaf verið afgreidd frumlán til þeirra, sem gera fokhelt, frá 1. oki. til 30. sept. Það sama verður gert nú. Þeir, sem gerðu fokhelt fyrir 1. júlí s. l., hafa þegar fengið sín frumlán. Þeir, sem gerðu fokhelt í júlí s. l., fá sín frumlán 5. nóv. n. k., og þeir, sem gerðu fokhelt í ágúst og sept. s. l., fá sín frumlán 5. des. n. k.

Húsnæðismálstjórn hefur ekki enn tekið ákvörðun um hvenær veitt verða G-lán, þ. e. lán til kaupa á eldri íbúðum, til þeirra sem lögðu inn umsóknir frá 1. apríl s. l. til 30. júní s. l., um 23 millj. kr. til um 490 íbúða. Undanfarin ár hefur lánveiting til þeirra, sem leggja inn umsóknir á 2. ársfjórðungi, verið í des. Hins vegar hafa þeir, sem leggja inn umsóknir eftir 1. júlí fengið sín lán eftir áramót.

Nokkur sveitarfélög og félagasamtök bíða eftir lánum til íbúðaheimila fyrir aldraða og dagvistarheimila fyrir börn, en í áætlun húsnæðismálastjórnar fyrir árið 1981 var gert ráð fyrir 10 millj. kr. eða 1 milljarði gömlum í þennan útlánaflokk. Nú þegar hefur 3 millj. nýjum verið ráðstafað í þessu skyni.

Þeir aðilar, sem sóttu um lán fyrir 1. júlí s. l. til meiri háttar endurbóta og til orkusparandi breytinga á húsnæði, fá lán sín afgreidd 15. nóv. n. k. Eftir 1. júlí s. l. hafa fáar umsóknir um þessi lán borist stofnuninni.

Þeir, sem sótt hafa um lán til meiri háttar viðbygginga og gert þær fokheldar fyrir 1.okt. s. l., fá lán sín afgreidd á árinu.

Þau sveitarfélög, sem sótt hafa um lán til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis vegna fokheldra íbúða fyrir 1. okt. s. l., fá sín lán afgreidd á árinu.

Í áætlun húsnæðismálastjórnar fyrir árið 1981 var gert ráð fyrir 14 millj. kr. í framkvæmdalán til byggingarsamvinnufélaga og byggingameistara. Þessu fjármagni hefur þegar verið ráðstafað.

Í fjórða lagi er spurt: Hvernig er staða Byggingarsjóðs ríkisins nú miðað við fjárhagsáætlun sjóðsins fyrir árið 1981?

Áætlun húsnæðismálastjórnar fyrir árið 1981 er frá 17. febr. s. l. Þar er gert ráð fyrir 307 millj. kr. í útlán á þessu ári á vegum Byggingarsjóðs ríkisins Þessi áætlun var samþykki 11. mars s. l. af félmrh. með fyrirvara, þar sem lánsfjáráætlun hafði gert ráð fyrir um 300 millj. kr. í útlán árið 1981. Flest bendir til að þessi útlánaáætlun, sem þarna var gerð, standist í meginatriðum. Það er tvennt sem hefur sett strik í reikninginn:

1. Skyldusparnaðurinn hefur ekki skilað þeim tekjum sem áætlað hafði verið. Við gerum okkur vonir um að frá og með næstu áramótum, þegar innheimta skyldusparnaðar verður komin í svokallað póstgírókerfi, skili hún sér betur en verið hefur til þessa og betri möguleikar verði á að halda utan um skyldusparnað en áður, líka vegna þess að hér er tvímælalaust um að ræða langheppilegasta sparnaðarformið sem ungt fólk á völ á í landinu.

Annar þáttur, sem hefur ekki skilað sér sem skyldi, eru lífeyrissjóðirnir. Kem ég að því í sambandi við tölulið 5. Samkv. lánsfjáráætlun ársins 1981 eiga lífeyrissjóðirnir að kaupa skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins fyrir 152.9 millj. kr. og af Byggingarsjóði verkamanna fyrir 14 millj. kr. (Forseti hringir.) Ég er alveg að ljúka, herra forseti. — Fyrstu 9 mánuði ársins keyptu þeir aðeins af Byggingarsjóði fyrir tæpar 87.3 millj. kr. eða um 52% af áætluðu heildarkaupverði. Þessi kaup námu aðeins 16.2 millj. kr. í júlí og sept. s. l.

Hér eru uppi þrjár spurningar í viðbót og ætla ég að fara hratt yfir þær. Það er fyrst spurt: Hvað er áætlað um ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins á árinu 1982 og skiptingu þess milli útlánaflokka?

Svar: Áætlað ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins á árinu 1982 er samkv. fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun 374 millj. kr. Ekki liggja fyrir endanlegar tillögur um skiptingu þess milli lánaflokka, en samkv. lögum nr. 51/ 1980 er gert ráð fyrir að húsnæðismálastjórn geri tillögur um þá skiptingu við endanlega gerð fjárhagsáætlunar fyrir sjóðinn.

Í sjöunda lagi er spurt hvaða fyrirætlanir ríkisstj. hafi varðandi sveitarfélögin og Byggingarsjóð verkamanna. Svar: Engar áætlanir eru uppi um bein afskipti ríkisstj. að þessu leytinu til af fjármálum sveitarfélaganna. Varðandi framlög sveitarfélaga til Byggingarsjóðs verkamanna skal bent á að samkv. nýju lögunum var það lækkað úr 25–35% í 9% af byggingarkostnaði verkamannabústaða. Ekki virðist því ástæða til að óttast að slíki verði sveitarfélögunum of erfitt. Auk þess eru nú í fyrsta sinn lánuð úr Byggingarsjóði verkamanna 80% af endursöluverði eldri íbúða í verkamannabústöðum. Þó sveitarfélögin þurfi að leggja fram 10% af þeim lánum léttir það sveitarfélögunum mjög það verkefni að hjálpa efnalitlu fólki að leysa sín húsnæðismál.

Í áttunda lagi er spurt um óafgreiddar umsóknir hjá Byggingarsjóði verkamanna og áætlanir 1982.

Engar fullgildar umsóknir liggja nú óafgreiddar hjá Byggingarsjóði verkamanna. Lánssamningar hafa þegar verið gerðir vegna byggingar 244 verkamannabústaða og leiguíbúða. Vitað er að í undirbúningi eru á mjög mismunandi stigum um 580 íbúðir, þar af 116 í leiguíbúðum sveitarfélaga. Í grg. með fjárlagafrv. fyrir 1982 er gert ráð fyrir að Byggingarsjóður verkamanna veiti 80% lán til byggingar 100 leiguíbúða sveitarfélaga, 80% til 1 10 endursöluíbúða og loks að veitt verði 300 full lán, 90% lán, til nýrra verkamannabústaða. Samtals 268.3 millj kr.

Herra forseti. Tíminn leyfir ekki að ég fari út í nánari umr. um þessi mál að sinni. Ég hef því miður ekki tíma til þess núna að svara aths. þeim sem hv. þm. lét frá sér fara, en voru utan við fsp. þær sem lagðar voru fram hér á sérstöku blaði, en við getum sjálfsagt átt saman um það fróðlegar viðræður síðar ef tími leyfir.