09.02.1982
Sameinað þing: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2295 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

128. mál, öryggismál sjómanna

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Nú að undanförnu sem oft áður hafa átt sér stað allmiklar umræður um öryggismál sjómanna. Félagasamtök og stofnanir hafa látið frá sér heyra um þessi mál og nokkrir þættir þessara mikilsverðu mála verið í sviðsljósi. Hefur þar sérstaklega mátt nefna sjósetningarbúnað fyrir gúmbjörgunarbáta, uppfundinn af Sigmund Jóhannssyni, en þetta atriði var hér til umræðu vegna sérstakrar fsp. hv. þm. Péturs Sigurðssonar í síðustu viku í Sþ. Ber að fagna því, að samkv. fréttum fjölmiðla hefur nú verið gefin út reglugerð um þetta björgunartæki.

40. Fiskiþing samþykkti að tillögu allsherjarnefndar þingsins ályktun í 18 liðum um öryggismál sjómanna. Allir eru þessir þættir mikilsverðir, og veit ég að hv. alþm. hafa kynnt sér þessa samþykkt, því að hún var send þeim öllum frá Fiskiþingi, og vonandi erum við flestir samþykkir því sem þar er lagt til. Eftir lestur þessarar ályktunar taldi ég rétt að fá hér á hv. Alþingi frekari upplýsingar um tvo liði, þ. e. 15. og 18. lið samþykktarinnar.

15. liðurinn hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Skorað er á siglingamálastjóra að birta opinberlega efni þeirra reglugerða sem Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur samþykkt en íslenska ríkisstj. ekki samþykkt enn sem komið er.“

18. liður samþykktarinnar er þannig:

„40. Fiskiþing lýsir óánægju sinni yfir hvað mörg góð mál, sem varða öryggi sjómanna, virðast stranda hjá Siglingamálastofnun og Vita- og hafnamálastofnun og hafa oft verið þar í geymslu svo árum skiptir. Fiskiþing telur að Siglingamálastofnun eigi að vera hvetjandi stofnun um öryggismál, en ekki eins og verið hefur, að tillögur um öryggismál sjómanna, sem komið hafa fram frá hagsmunasamtökum í sjávarútvegi, svo sem útgerðarmönnum og sjómönnum, hafi ekki fengið þá meðferð hjá Siglingamálastofnuninni sem vænta hefði mátt, og skorar á siglingamálastjóra að breyta starfsháttum stofnunar til betri vegar.“

Þetta er úr samþykktum Fiskiþings. Ég hef því leyft mér að leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. samgrh.:

„1. Hverjar eru þær tillögur um öryggismál sjómanna, sem um getur í tillögum frá 40. Fiskiþingi og komið hafa frá hagsmunasamtökum í sjávarútvegi, en ekki fengið þá meðferð hjá Siglingamálastofnun sem vænta hefði mátt?

2. Hverjar eru þær reglugerðir sem Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur samþykkt en íslenska ríkisstj. ekki?“

Ég geri ráð fyrir að hæstv. samgrh. mun svara þessum spurningum fyllilega, og ég sé raunverulega ekki ástæðu til þess, að ég þurfi að koma hér upp aftur, nema eitthvað sérstakt komi til, og þakka því fyrirfram svör ráðh.