09.02.1982
Sameinað þing: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2296 í B-deild Alþingistíðinda. (1936)

128. mál, öryggismál sjómanna

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í raun og veru gætu þessar spurningar hv. þm. gefið tilefni til alllangrar ræðu því að hér er um mjög umfangsmikið mál að ræða. Eins og hann rakti sjálfur á fyrsta spurningin rætur sínar að rekja til samþykktar sem gerð var á síðasta Fiskiþingi.

Síðasta Fiskiþing, það 40., gerði ítarlega samþykkt í 18 liðum um öryggismál sjómanna, og það er 18. liður, þ. e. síðasti liður samþykktarinnar, sem hv. þm. las upp áðan. Ég vil taka það fram, að strax og þetta barst mér í hendur sendi ég það siglingamálastjóra til umsagnar og reyndar urðu síðan nokkur blaðaskrif út af þessu, því að samþykktin var birt í Morgunblaðinu — hún mun hafa birst 27. nóv. Siglingamálastjóri svaraði henni 5. des. og óskaði eftir nánari upplýsingum um það, við hvað væri hér átt, en engin svör hafa enn birst. E. t. v. er átt við eitthvað af því sem á undan er talið, þ. e. af þeim 17 samþykktum sem eru á undan þessari síðustu. Ég hef farið yfir þær og vil leyfa mér að fullyrða að þær séu allar í eðlilegri meðferð.

Hins vegar heyra margar af þessum samþykktum ekki undir siglingamálastofnun. Ég hef nú ekki tíma til að rekja hverja einstaka hér, en vil þó nefna það, að fyrsta samþykktin er um uppfinningu Sigmunds Jóhannssonar, sem ég ræddi hér á þingi nú fyrir skömmu sem svar við annarri fsp., og eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda hefur það mál nú þokast vel á veg. Að vísu er ekki búið að ganga frá reglugerð, en komin tillaga siglingamálastjóra, og ég gaf samstundis fyrirmæli um að sú tillaga yrði send hagsmunaaðilum, eins og ætíð er gert, til þess að þeir fái tækifæri til að gera við hana athugasemdir. Strax að slíkum athugasemdum fengnum, sem ég hygg að taki ekki langan tíma því að mikill áhugi er á þessum björgunarbúnaði, mun ég gefa út reglugerð sem ákveður slíkan björgunarbúnað í íslenskum skipum.

Hér er einnig ein ábending um að gerð verði fullkomin kvikmynd um gúmmíbjörgunarbáta. Þetta hefur út af fyrir sig verið gert, en lengi má bæta í slíka kvikmynd að sjálfsögðu. En ég vil geta þess, að árum saman hefur verið leitað eftir fjármagni til að gera slíkar kvikmyndir og hefur verið heldur dræmt með fjárveitingar í þessu skyni. Ég tel að sú mynd, sem hefur verið gerð, sé mjög athyglisverð — ég hef haft tækifæri til að sjá hana — mjög lærdómsrík, og tel að þar hafi vel tekist til með tiltölulega litla fjárveitingu.

Síðan eru hér ýmsar tillögur. Ég nefni nokkrar af handahófi:

Að felld verði niður öll gjöld og tollar af tækjum og öðrum búnaði sem björgunar- og hjálparsveitir nota við björgunarstörf sín. Ég hygg að þetta sé að mestu leyti svo, en ég er að láta athuga við hvað hér muni vera átt.

Síðan er 7. liður, sem krefst meiri löggæslu í sjávarplássum, eða leggur áherslu á að löggæsla verði ekki rýrð. Þetta er auðvitað málefni dómsmrn., og eftir því sem ég best veit hefur þessu verið komið á framfæri við það.

Að færa strax inn á sjókort grynningar og sker sem eru 10 sjómílur vestan við Dyrhólaey. Það eru Sjómælingar Íslands sem eiga að gera það.

Varað er við sjósókn þar sem einn maður er á bát o. s. frv.

Ég er síður en svo að gera lítið úr þessum mörgu samþykktum. Ég hygg að þær séu allar mjög athyglisverðar og sjálfsagt að athuga þær. Hins vegar ber þetta nokkur merki þess, að hér hafi verið safnað saman á einn stað flestu af því sem menn hafa á þinginu talið vera ábótavant í þessu sambandi. Er það út af fyrir sig lofsvert, en það er ekki nema hluti af þessu sem á erindi til siglingamálastjóra eða samgrh. Hins vegar má skilja svo síðustu samþykktina, þ. e. þá 18., að brotalömin sé öll hjá siglingamálastjóra, og því vil ég andmæla. Ég held að það sé alls ekki svo og þeim málum sé sinnt þar eins og frekast er kostur.

Ég veit ekki hvort þetta getur talist svar við fyrstu spurningu hv. þm. Eins og ég sagði má fara miklu fleiri orðum um hvern einstakan lið. En ég endurtek að ég hef látið athuga og það hefur verið rætt við siglingamálastjóra hvort einhver af þessum liðum sé þannig staddur, að það megi telja ámælisvert að honum hafi ekki verið sinnt, og ég hef verið fullvissaður um að svo sé ekki. En jafnframt eru þarna margir liðir sem alls ekki heyra undir siglingamálastjóra. Í öðru lagi er spurt: Hverjar eru þær reglugerðir sem

Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur samþykkt en íslenska ríkisstj. ekki? Ég hef fengið lista sem er mjög langur, töluvert lengri en sá sem ég las upp úr áðan. Þessi listi er 13 síður og ekki gerlegt að lesa hann hér allan. Ég hef hins vegar látið fara yfir þennan lista yfir samþykktir Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og athuga hverju hefur ekki verið framfylgt hér. En áður en ég kem að því, vil ég geta þess, að farið hafa fram viðræður á milli ráðuneyta og sérfróðra manna á þessu sviði í því skyni að reyna að ákveða hvernig fara eigi með þessar alþjóðlegu samþykktir. Það er satt að segja gífurlega mikið verk að þýða þær frá orði til orðs. Mikið af því efni eru skýringar við jafnvel fáorða samþykkt, og það verður að segja eins og er, að sumu af þessu fylgir ákaflega mikill kostnaður.

Niðurstaðan af fundum, sem haldnir voru 15. og 16. júlí í fyrra að minni ósk um þessi mál, þar sem um fjölluðu bæði menn frá dómsmrn. og utanrrn. ásamt siglingamálastjóra og manni frá samgrn., varð sú, að mjög mörgum þessum samþykktum sé unnt að fullnægja með breytingum á gildandi reglugerðum án þess að leggja að nýju beinlínis fyrir Alþingi. Ef Alþingi hefur samþykkt í grundvallaratriðum þá alþjóðlegu samþykkt sem hér er um að ræða, þá sé í mörgum tilfellum um að ræða tiltölulega litlar breytingar. Hins vegar þurfi í öðrum tilfellum að sjálfsögðu að leggja slíkan samning í heild sinni fyrir Alþingi. Þarna ræður t. d. hvort íslensk lög eru þegar þannig úr garði gerð að þau heimila viðkomandi viðbætur í reglugerð o. þ. h.

Þegar þannig er farið yfir þennan langa lista telur samgrn. — og mér sýnist það á rökum reist — að langsamlega flestum þessum samþykktum hafi verið framfylgt með slíkum breytingum á reglugerðum. Þó eru hér fáein atriði sem ekki hafa hlotið nauðsynlega meðferð, m. a. sú samþykkt sem hefur verið rædd hér áður, þ. e. Solar — 1974. Hér er um mjög mikinn bálk að ræða. Farið hefur verið fram á oftar en einu sinni sérstaka fjárveitingu til að þýða þennan mikla bálk og leggja síðan sem slíkan allan fyrir Alþingi. Þessari beiðni hefur alltaf verið hafnað, bæði hjá hv. fjvn. og sömuleiðis þegar leitað hefur verið til fjmrn. með það. Niðurstaðan varð síðan sú, að það ætti að vera unnt að afgreiða þessa miklu samþykkt án þess að þýða hana orði til orðs, þ. e. með þeirri aðferð sem ég ræddi um áðan, og þó að leggja þurfi fyrir Alþingi, þá sé hægt að vísa í eldri samþykktir í því sambandi. Um þetta hefur verið fjallað í rn. ásamt utanrrn. og siglingamálastjóra og undirbúning að því að afgreiða þessa samþykkt frá 1974 er nú mjög langt á veg komið. Vona ég að mjög fljótlega verði unnt að ljúka því máli. Og ég vil leggja á það áherslu, að það er mjög mikilvægt að þetta mál komist sem snarast í höfn.

Hins vegar eru hér ýmsar minni háttar samþykktir eða breytingar sem koma okkur ákaflega lítið við og Siglingamálastofnun hefur ekki talið nauðsynlegt að taka hér upp í reglur, þær eigi ekki við hér. Er þetta allt saman merkt inn á þennan langa lista, sem ég er hérna með og hv. fyrirspyrjandi er velkomið að fá aðgang að, en ég hygg að hv. fyrirspyrjandi sé fyrst og fremst með þessa samþykkt frá 1974 í huga.

Í því sambandi er einnig að geta þess, að í janúar var fundur í Alþjóðasiglingamálastofnun. Þar sat fulltrúi okkar ekki. Nú er verið að reyna að spara í utanferðum og fleiru. Hins vegar eru samþykktir fljótlega væntanlegar og mun þá Siglingamálastofnun taka þær til athugunar og sömuleiðis hvaða breytingar þarf að gera hér í því sambandi, sem við gerum ráð fyrir að séu ýmsar.