27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

321. mál, húsnæðismál

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Það kom mér til að biðja um orðið um húsnæðismál, að ég vil undirstrika, eins og hæstv. félmrh. gerði áðan, nauðsyn þess að taka til vandlegrar athugunar húsnæðislöggjöfina að því er varðar vissa þætti og sérstaklega það sem hann talaði um í sambandi við að stytta tíma milli útborgunar lánshluta. Ég veit að það er ákaflega þýðingarmikið mál, þó að það raski ekki í raun og veru því fjármagni sem um er að ræða. Þetta er fyrirkomulagsatriði sem ég veit að kemur sér mjög vel fyrir húsbyggjendur.

Þá er ekki síður hitt atriðið, á hvern hátt er hægt að veita hærra lán til frumbýlinga. Það var eitt af þeim málum sem mikið voru til umræðu þegar lögin um húsnæðismál voru sett 1980, á hvern hátt væri hægt að leysa þetta brýna verkefni. Mér finnst mjög ánægjulegt að heyra að húsnæðismálastjórn er að vinna að hugmyndum um á hvern hátt þetta væri hægt áður en lengra er gengið.

Ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram í sambandi við húsnæðismál almennt. Húsnæðismálin ber okkur skylda til að leysa á viðunandi hátt því að þau eru mjög mikið vandamál í okkar þjóðfélagi, eins og raunar kom fram í máli hæstv. ráðh.

Þá get ég ekki látið hjá líða að minna á að einn þáttur húsnæðismála er kaupskylda sveitarfélaga í sambandi við félagslegar íbúðir. Eins og þetta er framkvæmt samkv. reglugerð Húsnæðisstofnunar kemur það mjög illa við sveitarfélögin að því er varðar íbúðir á félagslegum grundvelli sem byggðar eru fyrir gildistöku nýju laganna. samkvæmt nýjum matsreglum getur munað allt frá 8–15 millj. gkr. í sambandi við kaupskyldu þessa, miðað við söluíbúðir og leiguíbúðir, vegna þess að matsgerðin í sambandi við þau lán, sem hvíla á íbúðum verkamannabústaða, er meðhöndluð eftir reglum sem eru í ósamræmi við nýju lögin. Þetta þarf að athuga og verður sennilega ekki breytt nema með lagabreytingum.