09.02.1982
Sameinað þing: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2302 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

174. mál, afstaða ríkisstjórnarinnar til einræðisstjórnarinnar í Tyrklandi

Fyrirspyrjandi (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Á þskj. 278 hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. utanrrh. Ólafs Jóhannessonar:

„Hefur íslenska ríkisstjórnin beitt áhrifum sínum innan Atlantshafsbandalagsins til þess að mótmæla einræðisstjórn og mannréttindabrotum í öðru bandalagsríki, Tyrklandi?“

Í sept. 1980 gerðu herforingjar í Tyrklandi byltingu, afnámu lýðræði og mannréttindi. Að sönnu höfðu áður verið margháttaðir erfiðleikar í Tyrklandi, bæði í efnahagsmálum og mannvíg tíð vegna pólitískra átaka í landinu. Hins vegar hefur hið rétta eðli herforingjastjórnarinnar í Tyrklandi verið æ betur að koma í ljós. Andstæðingar herforingjastjórnarinnar hafa setið mánuðum saman í fangelsum sem og forustumenn í verkalýðsfélögum. Frjálsir fjölmiðlar hafa verið brotnir á bak aftur. Mannréttindi í Tyrklandi eru fótum troðin og nú upp á síðkastið hafa verið að berast upplýsingar, m. a. á vegum Amnesty International, um hroðalegar pyntingar í tyrkneskum fangelsum.

En lýðræði er annað og meira en réttur til að kjósa þjóðþing á nokkurra ára fresti. Lýðræði er nátengt hugmyndum um mannréttindi, að fólk sé ekki lokað inni vegna skoðana sinna, að fólk sé ekki tekið af lífi vegna skoðana sinna og að fólk sæti ekki pyntingum. Ljóst er að öll slík lögmál hafa verið brotin af einræðisstjórninni í Tyrklandi.

Þetta mál er okkur skylt, m. a. vegna þess að við erum í varnarbandalagi ásamt með Tyrklandi, Atlantshafsbandalaginu. Atlantshafsbandalagið er stofnað sem varnarbandalag gegn einræðisríkjum. Árum saman liðu stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins í norðurálfu vegna einræðisríkja sem í því voru, einkum var einræði í Portúgal og um hríð í Grikklandi. Stjórnarfar í þeim löndum eins og það var er svartur blettur á sögu Atlantshafsbandalagsins. Nú er sú saga því miður að endurtaka sig að hluta, hversu lengi sem það varir.

Það gæti verið komið undir viðbrögðum bandalagsríkja Tyrklands hversu lengi ógnarstjórn varir þar í landi. Það er augljóst, að einræðisstjórnin í Tyrklandi óttast rödd hins frjálsa umheims. Þess vegna á sú rödd að heyrast. Atlantshafsbandalagið á ekki aðeins að vera brjóstvörn gegn rauðu einræði, heldur gegn öllu einræði.

Ljóst er að nú situr í Bandaríkjunum ríkisstjórn sem um margt hefur furðulega og ósæmilega tvíátta afstöðu til lýðréttinda og mannréttinda í umheiminum. Stefna hennar má ekki vera stefna íslensku ríkisstjórnarinnar. Íslenska ríkisstjórnin á, þar sem hún hefur tækifæri til og þá ekki síst á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, að gera umheiminum ljóst að hún er mótfallin því tvöfalda siðferði sem felst í því að vera í samfloti við einræðisríki til að vinna gegn einræði. Atlantshafsbandalagið getur einmitt verið vettvangur til þess að gera umheiminum slíkar skoðanir ljósar, og þess vegna, herra forseti, er spurt: Hefur íslenska ríkisstjórnin beitt áhrifum sinum innan Atlantshafsbandalagsins til þess að mótmæla einræðisstjórn og mannréttindabrotum í öðru bandalagsríki, Tyrklandi?

Í þessari fsp. er sérstaklega spurt um afstöðu ríkisstj. til ástandsins í Tyrklandi á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Vegir Íslands og Tyrklands liggja auðvitað víðar saman, en það skiptir máli að á vettvangi Atlantshafsbandalagsins séu okkar skoðanir mjög ljósar í þessum efnum, og þess vegna er hæstv. utanrrh. spurður.