09.02.1982
Sameinað þing: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

174. mál, afstaða ríkisstjórnarinnar til einræðisstjórnarinnar í Tyrklandi

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í svari hæstv. utanrrh. samþykkti þing Evrópuráðsins 28. jan. ítarlega ályktun um málefni Tyrklands. Meginkjarni þeirrar ályktunar er að herforingjastjórnin í Tyrklandi er fordæmd fyrir að banna starfsemi stjórnmálaflokka, banna starfsemi verkalýðsfélaga, banna frjálsa fjölmiðla, setja hömlur á starfsemi háskóla, láta pyntingar viðgangast í fangelsum og á annan hátt skerða þau grundvallarréttindi sem talin eru kjarni í samtökum lýðræðisríkja. Á þingi Evrópuráðsins var nokkur hópur manna sem vildi nú þegar ganga svo langt að vísa Tyrklandi úr Evrópuráðinu eða réttara sagt fara þá leið að vekja athygli ráðherra ráðsins á því, að hefja ætti undirbúning að brottför Tyrklands úr ráðinu. Ég og ýmsir aðrir vorum þeirrar skoðunar, að það væri fyllilega tímabært að vinna að slíku. Hins vegar myndaðist meiri hluti þm. á þinginu sem að svo komnu máli vildi liggja höfuðáherslu á leið sem annars vegar fól í sér skýra fordæmingu á stjórnarfarinu í Tyrklandi og hins vegar bein tilmæli til ríkisstjórna Evrópuráðsins að stefna herforingjastjórninni í Tyrklandi fyrir víðtækt brot á mannréttindaákvæðum Evrópuríkjanna og vinna þannig að því að herforingjastjórnin stæði annaðhvort fyrir máli sínu fyrir Mannréttindanefndinni eða drægi sig til baka úr störfum samtakanna ella.

Ég vil láta það koma hér fram, herra forseti, að á fundi utanrmn. s. l. mánudag lagði ég fram drög að tillögu, sem utanrmn. legði fyrir Alþingi, þar sem lýst er yfir stuðningi við þessa ályktun Evrópuráðsþingsins og jafnframt að Alþingi lýsti yfir að íslensk stjórnvöld ættu að hafa samvinnu við aðrar ríkisstjórnir Evrópuráðsins um undirbúning þessarar kæru. Ég hefði vænst þess að utanrmn. gæti náð samstöðu um till. sem efnislega væri í þessa veru. Formaður nefndarinnar hefur tjáð mér að það verði fundur í nefndinni á mánudaginn kemur þar sem þetta mál verður væntanlega afgreitt. Væri mjög æskilegt að Alþingi gæti þá sameinast um að lýsa yfir stuðningi við þessa ályktun og fordæma þannig herforingjastjórnina í Tyrklandi og gefa ríkisstjórn Íslands umboð til að taka þátt í undirbúningi þessarar kæru. Mér er kunnugt um að þegar hefur komið fram vilji frá ríkisstjórnum annarra Evrópuráðsríkja um að ríkisstjórn Íslands hafi samvinnu við þær ríkisstjórnir um þessa kæru.