09.02.1982
Sameinað þing: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2305 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

174. mál, afstaða ríkisstjórnarinnar til einræðisstjórnarinnar í Tyrklandi

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Að sjálfsögðu skiptir meginmáli fyrir Atlantshafsbandalagið hver þróun innanríkisstjórnar í bandalagslöndunum reynist verða. Bandalagið hefur frá upphafi átt við erfiðleika að etja í Suður-Evrópu, en sem betur fer hefur þróunin í Portúgal og Grikklandi á síðustu tímum verið jákvæð, stefnt í átt til aukins lýðræðis. Á sama tíma hefur stefnt í öfuga átt í Tyrklandi og herforingjastjórn, sem þar greip völdin, hefur fært sig upp á skaftið. Er stjórnarfar þar nú með þeim endemum að ekki verður við unað, og er óhugsandi annað en hin voldugri Atlantshafsbandalagsríki reyni að beita sér fyrir breytingum á þessu þó að það verði ekki gert með formlegum samþykktum í NATO.

Þingmannasamtökum Atlantshafsbandalagsins eru mál hins vegar annars eðlis. Þar voru málefni Tyrklands tekin upp strax og núv. ríkisstj. hafði brotist til valda. Var þá þegar samþykkt að veita Tyrkjum aðeins eins árs frest til að gera á þessu breytingar og þetta eina ár fengju þeir að sitja áfram í þingmannasambandinu. Þetta ár er liðið og Tyrkir eru nú ekki aðilar að þingmannasambandinu, en munu sækja þar fundi sem réttlausir áheyrnarfulltrúar.

Ástandið í Tyrklandi er orðið mjög alvarlegt. Má geta þess, að nú eru aðeins fáir dagar síðan leiðtoga annars höfuðflokksins þar í landi, Ecevit, var sleppt úr fangelsi þar sem hann hafði verið hafður í haldi um nokkurn tíma, en fyrst eftir byltingu herforingjastjórnarinnar hafði hann verið í stofufangelsi. Um það hvað gerist með aðra fanga á bak við veggi fangelsanna þarf ég ekki að fjölyrða.

Ég vil að lokum nefna að Evrópuráðið er allt annars eðlis og þar er sjálfgert að taka upp mannréttindamál. Ég vil staðfesta að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson flutti á síðasta fundi utanrmn. till. um að Alþingi taki undir samþykkt Evrópuráðsþingsins í þessum efnum. Ég lýsti fyrir hönd Alþfl. stuðningi við þann málstað og tel rétt að Alþingi taki undir þessa samþykkt Evrópuráðsins.