09.02.1982
Sameinað þing: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2345 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Í upphafsræðu minni ræddi ég það mál, sem hér er á dagskrá, heldur þröngt og varaðist að gera þessa umr. að opinni umræðu almennri umr. um hervæðingu og vopnakapphlaupið, benti hins vegar á nokkur atriði sem sýna og sanna að hv. þm. eru nokkuð sammála um þau markmið sem koma fram í þessari till., burt séð frá því í hvaða flokkum þeir starfa, enda hafi orðið ákveðin stefnuþróun eða stefnuaðlögun hjá Alþb., sem ég kallaði svo, en Alþb. hefur nú tekið þátt í stjórnarsamstarfi í nokkrum ríkisstjórnum með sífellt minni kröfum um yfirlýsingar í stjórnarsáttmálunum í köflum er varða varnarliðið og afstöðuna til NATO.

Hæstv. utanrrh. tók undir þá meginskoðun sem kemur fram í þessari einföldu till. Eins og ég sagði í upphafsræðu minni er fyrirkomulagið ekki fast í hendi flm. og eðlilegt að hæstv. utanrrh. og hv. utanrmn. taki það mál til athugunar. Ég er viss um að það er ekki stórt mál fyrir þá, sem þar starfa, að komast að niðurstöðu um þetta atriði.

Hv. 11. þm. Reykv., Ólafur Ragnar Grímsson, hefur haldið hér tvær langar ræður í dag og reynt að drepa á dreif því máli, sem hér er á dagskrá, með því að víkka umræðuefnið langt umfram það sem ætlunin var í upphafi. Við því er auðvitað ekkert að segja. Hér er málfrelsi, hvort sem okkur líkar betur eða verr það sem sagt er úr þessum ræðustól. Hv. þm. hefur verið svarað af hv. 4. þm. Reykv., hv. 1. þm. Reykv. og af hæstv. utanrrh., en það er eins og fyrri daginn, að það er sama hve oft honum er svarað, hann stendur ávallt upp aftur og byrjar á sömu tuggunni.

Hv. 11. þm. gerði mikið úr því, að nú hefði Sjálfstfl. greinilega skipt um skoðun, hann hefði komið með nýjar kröfur í varnarmálunum, og vitnaði til ræðu Kjartans Gunnarssonar lögfræðings, sem er framkvæmdastjóri Sjálfstfl., og taldi það vera merki þess, að Sjálfstfl. væri að skipta um skoðun í varnarmálum, enda hefði ég lesið upp úr hans ræðu og Morgunblaðið hefði birt á síðum sínum útdrætti úr þessari ræðu og talið hana hafa markað þáttaskil. Síðan fór hv. þm. í nokkur efnisatriði sem komu fram í ræðu Kjartans Gunnarssónar. Ég held að það sé ástæða til þess, að það komi skýrt fram hér, að auðvitað talaði Kjartan Gunnarsson á sína eigin ábyrgð. Hann flutti þessa ræðu á vegum Varðbergs, var um það beðinn, og ræðan fjallaði um íslenskt frumkvæði í öryggismálum. Hitt er svo annað mál, að í þessari ræðu komu fram athyglisverð sjónarmið sem Sjálfstfl. eins og aðrir stjórnmálaflokkar hlýtur að hafa tekið eftir og hægt er að fara efnislega nokkrum orðum um.

Hv. 11. þm. Reykv. gerði óskaplega mikið veður úr þessu og taldi að nú ætti að fara að efla umsvif hersins hér á landi miklu meira en góðu hófi gegndi, en það er einmitt það sem Kjartan Gunnarsson bendir rækilega á í sínu erindi að ekki sé ætlunin. — Ég ætla að rifja upp hvaða atriði það eru sem Kjartan Gunnarsson benti á í sinni ræðu:

Í fyrsta lagi talaði hann um að koma hér á fót svokölluðu allsherjarvarnakerfi, sem ég lýsti í minni ræðu, og tók dæmi um hvað hægt væri að gera.

Í öðru lagi, og það minntist hv. þm. ekki á, talaði Kjartan Gunnarsson um að nota kjallara Seðlabankans hugsanlega í því skyni að koma þar upp geislaheldu skýli, eins og gert er víða annars staðar, til að takmarka og lágmarka hættu af geislavirkni, ef til þess kæmi að þá vá bæri að dyrum, sem enginn getur auðvitað sagt fyrir um. En ugglaust er ástæða til að hafa slíkan viðbúnað eða alla vega ræða um það. Menn sjá hvernig með þessi mál er farið í öðrum löndum, jafnvel þeim löndum þar sem ekkert SOSUS-kerfi er til.

Síðan vék Kjartan Gunnarsson að því, hvað hann teldi að hugsanlega þyrfti að meta og innlendir aðilar gætu haft frumkvæði að, og nefndi í því sambandi sprengjuheldu flugskýlin. Í stað þeirra þriggja væri hugsanlegt að það þyrfti að byggja níu. Það er náttúrlega alveg gífurleg synd að minnast á það og hljóta að vera mikil hernaðarumsvif að byggja flugskýli yfir þær flugvélar sem þegar eru í landinu. Í öðru lagi minntist hann á ratsjárstöð á Langanesi í stað ratsjárstöðvar sem hefði fokið. Það gæti verið ástæða til að brúa það bil sem þar myndaðist eða athuga, eins og ræðumaður minntist á, hvort AWACS-flugvélarnar nægðu í því skyni. Hann minntist á stjórnstöðina, sem er á Keflavíkurflugvelli í gamalli flugstöðvarbyggingu, og spurði hvort það væri ástæða til að byggja sérstakt hús yfir hana. Það er hin fullkomna stjórnstöð. Það er allt og sumt um það mál sem hv. 11. þm. minntist á og gerði veður úr og lét í skína að væru stórkostleg hernaðarumsvif til viðbótar.

Síðan benti Kjartan Gunnarsson í ræðu sinni á að Björn Bjarnason hefði nýlega skrifað um að ef lagður yrði alþjóðlegur varaflugvöllur gæti verið ástæða til að hafa þar varnarviðbúnað. Þetta gerði hv. ræðumaður að stórkostlegu máli og reyndi að þyrla upp moldviðri varðandi það. Auðvitað vita allir að það er flugvöllur sem hefur hernaðarlegt gildi. Það vill svo til að á sömu flugvöllum má lenda vélum sem bæði eru í venjulegum flugrekstri og herflugrekstri. Þetta veit hv. þm. mætavel. Það getur verið full ástæða til að athuga þessi mál þegar metin er varnarþörfin, vegna þess að það er lega landsins og þau mannvirki, sem á landinu eru, sem gera landið hernaðarlega mikilvægt. En það fæst hv. þm. ekki til að segja né viðurkenna.

Þá minntist Kjartan Gunnarsson á að það þyrfti að meta hvort staðsetning aðalbækistöðvanna á Miðnesheiði væri rétt eða ekki eða hvort ætti að færa hana til. Þetta minntist hv. 11. þm. Reykv. ekkert á í sinni ræðu.

Þá var í ræðu Kjartans Gunnarssonar minnst á olíutankana og spurt hvort við ættum ekki að meta sjálfir hvort þetta olíugeymslurými væri nægilega mikið eða ekki. Um þetta mál hefur verið fjallað hér á þingi. Þetta eru hin stórkostlegu hernaðarumsvif. Við höfum rætt þetta hér á þinginu og komist að þeirri niðurstöðu margir, að það gæti verið sameiginlegt áhugamál innlendra aðila og þeirra sem eru á Keflavíkurflugvelli að hafa hér olíubirgðir í landinu. það sé lífsnauðsyn fyrir eyríki eins og Ísland, hvað þá fyrir varnarviðbúnað landsins.

Loks minntist Kjartan Gunnarsson á öryggisgæslu , innan löggæslunnar. En hér gat hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson komið í ræðustól og belgt sig út og sagt: Þetta eru alveg stórkostlegar kröfur um aukin hernaðarumsvif, ný stefna Sjálfstfl., sagði hann. Ný stefna Sjálfstfl., að þegar flutt er ræða þar sem er verið að leggja til að meta með íslenskum augum varnarþörf og varnarmöguleika þyrfti að líta til þessara atriða. Svona er málflutningur hv. þm. satt að segja fara menn að verða æðileiðir á að hlusta á hvernig hv. þm. reynir sífellt að blása út mýflugur þannig að þær verði að úlföldum.

Hv. þm. minntist síðan á GIUK-hliðið og las upp úr GIUK-hliðinu með alls konar áherslum og ætlaðist greinilega til að það yrði einhver ný uppgötvun sem kæmi fram í dagsljósið með þess konar upplestri. Tildrögin voru þau, að það væru bein tengsl varnarviðbúnaðarins hér við kjarnorkuvopnakerfið, og gaf þar með auðvitað í skyn að hér færi fram allt önnur starfsemi en hér fer fram, sem er fyrst og fremst eftirlitsstarfsemi. — Hann las upp af bls. 34 um gagnkafbátahernaðinn, en las ekki lengra en svo að ég tel ástæðu til að lesa til viðbótar þessar setningar, með leyfi forseta:

„Fyrsta og jafnframt mikilvægasta skrefið er að uppgötva kafbátinn í sjónum, en á því eru mikil tæknileg vandkvæði, einkum vegna eiginleika sjávarins hvað snertir orkuleiðni. Annað stigið felst í því að bera kennsl á kafbátinn og þriðja stigið í að staðsetja hann og fylgjast stöðugt með honum þar til að árás er gerð. Lokastigið árás á kafbát — krefst vopna sem ná til hans á hvaða dýpi sem hann er.“

Þetta er í kafla um gagnkafbátahernaðinn. (ÓRG: Ég hefði alveg getað lesið þetta líka.) Nú vill svo til, að það fara saman fyrstu stigin í því, sem við getum kallað gagnkafbátahernað, og það, sem kallað er eftirlit, þ. e. að vita með sem ódýrustum hætti hvar hugsanlegir óvinakafbátar halda sig, og til þess er sá varnarviðbúnaður sem hér er og kallaður er SOSUS-kerfi, en ekki farnar þessar gömlu leiðir, sem kallaðar voru svo, eða einhverjar aðrar leiðir? Ástæðan er einfaldlega sú sem kemur fram ef maður gripi niður í því, sem hann las næst á bls. 38, og héldi þar áfram. Ég les þar orðrétt, með leyfi forseta, þetta er um SOSUS-kerfið, upplýsingarnar:

„Án slíkra upplýsinga yrði að leita kafbáta andstæðingsins uppi alls staðar þar sem þeirra væri von. Slíkt krefðist aukins viðbúnaðar í lofti og umfram allt á sjó.“

SOSUS-kerfið er þess vegna ódýrasta aðferðin til að geta fylgst grannt með því hvar í þessu tilviki sovéskir kafbátar halda sig. Ef SOSUS-kerfið væri ekki til staðar þyrftum við aukin viðbúnað. Þetta stendur í þessari ágætu skýrslu og auðvitað las hv. þm. þetta ekki vegna þess að þetta kom sér ekki vel fyrir þann málstað sem hann var að verja hérna eða sækja á fyrir og allur var á sömu hliðina: að gefa eitt í skyn og lesa svo upp úr þessari bók og láta líta svo út að það væri til stuðnings því sem hann hefði sagt.

Nei, ég held að það sé einhver misskilningur hjá hv. þm. þegar hann telur sig hafa á undanförnum árum náð að tileinka sér gífurlega þekkingu á þessum málum. Það er einfaldlega vegna þess að það vill svo til að eftirlitið og frumvarnirnar eru auðvitað nákvæmlega sömu gerðar og ef um stríð væri að ræða. Það er mergurinn málsins. Í fyrsta lagi þarftu að vita hver óvinur þinn er, í öðru lagi þarftu að vita hvar hann er. Við höfum þann háttinn á, við sem í þessu landi kjósum að starfa með vestrænum lýðræðisþjóðum og kjósum að skapa eigin örlög; að við viljum vita hvar sá aðili er sem hugsanlega gæti gert árás á landið. Hv. þm. las upp úr þessari bók, GIUK-hliðinu — og hann virtist hallast að því, að það væri gífurleg yfirvofandi árásarhætta af hendi Sovétríkjanna. Annað var ekki að heyra hjá hv. þm. Hann lét hér öllum illum látum vegna þess. Það var meginatriðið í hans rökstuðningi. Og ég segi eins og hann: Það var ekki ég sem hélt því fram. Nei, nei, það var ekki ég sem hélt því fram. Það var hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem hélt því fram. Svona má leika sér með orð og blekkingar fram. og til baka, gefa eitt í skyn og þykjast finna orðum sínum stað. En þegar grannt er skoðað er þetta óskaplega einfalt mál.

Ég hirði ekki um að lesa fleira upp úr þessu riti. Það er, hélt ég, öllum hv. þm. ljóst, að það kerfi, sem við notum hérna, er til að finna út hvar kafbátar eru, og það er auðvitað, eins og hefur komið fram hjá öðrum hv. þm., óþarfi fyrir Bandaríkjamenn að hafa þetta kerfi til að finna sína eigin kafbáta. Þetta er enginn nauðsynlegur liður til þess, eins og mátti skilja fyrst af orðum hv. þm.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég þakka jákvæðar undirtektir undir þessa till. Ég heyri að allir virðast vera nokkuð sammála í þessu ákvæði, og þótt stuðningur hv. 11. þm. Reykv. hafi hvorki verið ótvíræður né ákveðinn leyfi ég mér að skilja ræður hans á þann veg, þótt þær fjölluðu um allt annað en tillöguna, að hann sé reyndar á báðum áttum, en það megi líklega skilja hann þannig, að hann sé samþykkur þessari till. Sé það rétt skilið vil ég þakka honum stuðninginn og veit að þetta mál á greiða leið í gegnum hv. utanrmn.