10.02.1982
Efri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

194. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til. l. um breyt. á sveitarstjórnarlögum, nr. 58 29. mars 1961. Flm. ásamt mér eru þeir hv. þm. Stefán Jónsson, Stefán Guðmundsson og Eiður Guðnason.

Frv. þetta er borið fram til samræmis við breytingar á lögum nr. 52 14. ágúst 1959, um kosningar til Alþingis, en þar er nú kveðið svo á, að kosningar til Alþingis skuli fara fram á laugardögum. Frv., sem fól í sér þá breytingu og sömu flm. stóðu að, varð að lögum, eins og kunnugt er, skömmu fyrir jólin.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa mörg orð um þetta frv., það skýrir sig sjálft. Það kom fram í grg. með frv. um kosningar til Alþingis varðandi þetta atriði, að breyting frá sunnudegi til laugardags er aðeins afleiðing af þeirri þróun sem orðið hefur á starfstíma, og áhugi og meðferð fjölmiðla á kosningu veldur því jafnframt að vaxandi fjöldi landsmanna vakir nóttina sem atkvæði eru talin og þess vegna er æskilegt að dagurinn eftir talningu sé frídagur.