10.02.1982
Efri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

188. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Út af fsp. hv. þm. Kjartans Jóhannssonar vil ég taka fram að ég veit ekki betur en þetta hafi verið gert heyrinkunnugt um leið og brbl. voru gefin út. Hvort formleg fréttatilkynning var gefin út skal ég ekki segja, það skal að sjálfsögðu kannað, en ég held að þetta hafi ekki farið fram hjá neinum sem hlut eiga að máli.

Ég hafði ekki hugsað mér að fara nú út í almennar umr. um gengismálin. Þó væri full þörf á að leiðrétta þær rangfærslur sem hér hafa komið fram hjá bæði hv. þm. Kjartani Jóhannssyni og hv. þm. Lárusi Jónssyni. Gengisstefna ríkisstj. er skýrt mörkuð í stefnuræðu minni frá því í okt. s. l. Geta hv. þm., sem hlustuðu á þá ræðu, lesið hvernig sú stefna er orðuð og mótuð.

Varðandi hitt atriðið var ákveðið í efnahagsáætlun ríkisstj. frá 31. des. 1980 að hætta um sinn gengissigi sem þá hafði verið viðhaft mjög langan tíma og mér skilst nú á hv. þm. Kjartani Jóhannssyni að hann vilji helst taka upp aftur sem meginreglu í gengismálum. Það var ákveðið um sinn a. m. k. að hætta því og að stefnt skyldi að því að halda genginu sem stöðugustu fyrst um sinn. Eins og ég hef oft skýrt frá áður var ætlun okkar þá að tækist í fyrstu þrjá mánuði ársins 1981 að halda genginu stöðugu. Það tókst í fimm mánuði, til maíloka. Þetta veit hv. þm. ósköp vel að var það sem ákveðið var og boðað og engin ástæða til að vera með þær rangfærslur sem hér eru hafðar uppi.