10.02.1982
Neðri deild: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2357 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

172. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er alkunn staðreynd, að a. m. k. hér á jörðinni geta menn endað í vestri með því að stefna stöðugt í austur, en ég held að hæstv. sjútvrh. geti ekki endað með því að afnema olíugjaldið þegar stefna hans er þveröfug. Hvaða loforð sem hann hefur uppi um hvað hann hyggist gera, þá er það auðvitað framkvæmdin sem sker úr. Þó að hæstv. sjútvrh. stefni í þessum efnum stöðugt í austur, þá endar hann ekki í vestri. En það er ekki meginatriði míns máls. Meginatriðið var að gera nokkra athugasemd við frásögn í fréttatíma útvarpsins af 2. umr. um þetta mál hér á þingi á dögunum.

Ég vænti þess, að það hafi ekki farið fram hjá þm. að þá var þessu máli lýst þannig að hér væri á ferðinni frv. til l. um að lækka olíugjald á fiskiskipum og að þeir þm. stjórnarandstöðunnar, sem þá tóku til máls, hefðu verið andvígir því. Þetta er ekki rétt. Olíugjald til fiskiskipa féll niður um s. l. áramót. Hefði ekkert frv. komið fram hefði ekkert olíugjald verið innheimt á þessu ári. Hér er um það að ræða að setja ný lög um að olíugjald verði áfram innheimt á árinu 1982, eins og frv. gerir ráð fyrir, en ef ekkert slíkt frv. hefði verið flutt hefði ekkert olíugjald verið innheimt. Þetta kom ekki rétt fram í fréttum útvarpsins, eins og ég sagði áðan, og ég vil aðeins vekja athygli á því að menn fari rétt með. Við erum ekki andvígir því að olíugjaldið sé lækkað. Menn voru að lýsa afstöðu sinni til þess að gjald, sem var niður fallið. skyldi verða framlengt. Auðvitað ber mönnum að fara rétt með, einnig í ríkisfjölmiðlum.