10.02.1982
Neðri deild: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

172. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því, að ég verð enn þá einu sinni að leiðrétta fullyrðingar sem hér koma fram um það sem ég á að hafa lofað í sambandi við olíugjaldið. Hv. þm. Karvel Pálmason fullyrti að ég hefði lofað að afnema olíugjaldið fyrir lok þessa árs. Á þeim fundi, sem ég átti með fulltrúum sjómanna um þá fyrirvara sem þeir settu í kjarasamningum og vitni eru að má segja: hlutlaus vitni líka, tók ég fram að ég væri reiðubúinn að athuga um afnám olíugjaldsins, enda kæmu menn sér saman um eitthvað sem kæmi í staðinn og tryggði hlut útgerðarinnar. Þetta var skýrt tekið fram og reyndar hef ég í öllum tilfellum — ég hef reyndar flett þessu upp til vonar og vara — lagt áherslu á breytingu á olíugjaldinu. Ég hef alltaf sagt: Ég er mótfallinn greiðslu olíukostnaðar á þessum grundvelli og tel að það eigi að breyta til og finna annan grundvöll til þátttöku í þessum kostnaði útgerðarinnar. Ég vil einnig taka það fram, að á fundi, sem ég átti með tveimur fulltrúum sjómanna frá Ísafirði á skrifstofu minni þegar deila stóð þar yfir í byrjun ársins 1980, lýsti ég einnig þessari skoðun minni, að það ætti að afnema olíugjald í núverandi mynd og finna heldur einhverja aðra leið. En ég greip líka með mér til vonar og vara bréf sem ég ritaði til sáttasemjara og er dags. 21. apríl 1980. Til að hafa allt á hreinu um þessi mál vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa þetta bréf. Þar segir:

„Málefni: Kjaradeilan á Ísafirði. Þótt ekki sé það ætlun stjórnvalda að hafa bein afskipti af kjaradeilu þeirri, sem nú stendur á Ísafirði milli útvegsmanna og sjómanna, vil ég taka fram eftirfarandi, ef það gæti orðið til þess að stuðla að lausn deilunnar. Það skal tekið fram, að samráð hefur verið haft við forsrh. og félmrh. um efni þessarar yfirlýsingar.

1. Frítt fæði. Ég tel rétt að deiluaðilar sendi stjórn Aflatryggingasjóðs bréf þar sem óskað er eftir ýmsum lagfæringum, m. a. um samræmingu tveggja efstu flokkanna og að nýr flokkur verði stofnaður vegna útileguskipa sérstaklega. Athugun á slíkum breytingum er þegar hafin. Að því er ég best veit er þörf lagabreytinga. Fyrir slíkum lagabreytingum mun ég beita mér eins og frekast verður talið fært.“ — Ég skýt því hér inn í , að þetta var framkvæmt og lög, sem tryggðu þessa breytingu, samþykkt hér á hinu háa Alþingi. Við þetta hefur því verið að fullu staðið.

„2. Frívaktarvinna. Ég er tilbúinn að skipa menn í nefnd með deiluaðilum til að kanna og leggja mat á vinnuálag og vinnutíma sjómanna á Vestfjörðum. Við þá athugun yrði tekið mið af vökulögum, samningsbundnum frítímum sjómanna og vinnuálagi sjómanna í öðrum landshlutum.“ — Í umræðum um þennan lið var þetta afþakkað og ákveðið að útgerðarmenn og sjómenn beittu sér fyrir þessu sjálfir. Hins vegar hefur breyting orðið á nýlega, eins og hv. þm. vita, og er það mál þó í höndum Kjararannsóknarnefndar. Reyndar hef ég ákveðið að sjútvrn. veiti af því fjármagni, sem það hefur til mörkunar fiskveiðistefnu, nokkra fjárhagsaðstoð til þess að þessi athugun geti fari fram, samtals 250 þús. kr. sem er lofað í því skyni.

„3. Lögskráningar. Ég hef og mun leggja áherslu á að frv. það, sem er þegar komið til nefndar í Ed. Alþingis, verði afgreitt á þessu þingi.“ — Ég skýt hér inn í að þetta var gert, frv. var afgreitt.

„4. Réttur sjómanna til launa í veikinda- og slysatilfellum. Ég hef og mun áfram leggja á það ríka áherslu, að frv. það, sem komið er til nefndar í Nd. Alþingis um breytingu á 18. gr. sjómannalaga, verði afgreitt á þessu ári.“ — Við þetta var líka staðið. Frv. var afgreitt og þýddi mjög mikla réttarbót fyrir sjómenn. Þetta er dags. 21. apríl 1980 og undir þetta skrifa ég.