10.02.1982
Neðri deild: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

160. mál, tollheimta og tolleftirlit

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 209 er flutt frv. um breyt. á lögum um tollheimtu og tolleftirlit, nr. 59 frá 1969, með síðari breytingum. Auk mín eru flm. hv. 10. þm. Reykv., hv. 6. þm. Norðurl. e., hv. 3. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Austurl. Þá er og á þskj. 210 flutt frv. til 1. um breyt. á sömu lögum og það eru sömu flm., en 1. flm. þess frv. er hv. 10. þm. Reykv. Og á þskj. 211 er flutt frv. til l. um breyt. á lögum nr. 120/1976, um tollskrá o. fl., með sömu flm., og er 1. flm. hv. 10. þm. Reykv.

Það er öllum þessum frv. sameiginlegt, að þau eru flutt til þess að koma fram þeirri breytingu á lögum um tollheimtu og tolleftirlit, að hér á landi verði hægt að taka upp það fyrirkomulag sem tíðkast hefur víða í löndum í kringum okkur, þ. e. að veittur sé frestur á greiðslu aðflutningsgjalda. Þessi greiðslufrestur hefur oft verið nefndur tollkrít. Frv. á þskj. 209 fjallar sérstaklega um það atriði, en frumvörpin á þskj. 210 og 211 eru hins vegar breytingar á lögunum um tollheimtu og tolleftirlit og tollskrá sem eru bein afleiðing af því ef Alþingi samþykkir frv. á þskj. 209.

Sem 1. flm. frv. á þskj. 209 mun ég gera grein fyrir því frv., en hv. 10. þm. Reykv., 1. flm. hinna tveggja frv. sem hér eru á dagskrá, mun gera grein fyrir þeim á eftir.

Þessi frumvörp eru endurflutt á þessu þingi, hafa áður verið flutt tvívegis, en ég tel ástæðu til að rekja örlitið sögu þessa máls og aðdraganda. Þess er að geta í leiðinni, að í umr. á Alþingi um skýrslu ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum fyrir skömmu var þess sérstaklega getið, að á næstunni yrði tekinn upp greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum, svonefnd tollkrít, frá og með næstu áramótum. Er því rétt og eðlilegt að forsaga þessa máls sé rakin nokkuð. En það er öllum kunnugt, sem fylgst hafa með innflutningsmálum okkar, að þeir aðilar, sem hafa innflutningsverslun að atvinnu, eru þess mjög fýsandi, að hægt sé að taka upp fyrirkomulag sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Samtök þessara aðila hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga, og ég hafði tækifæri sem fjmrh. á árinu 1976 að sitja ráðstefnu á þeirra vegum og hlýða á þau sjónarmið sem þeir höfðu fram að færa í sambandi við þetta málefni.

Ég var þeirrar skoðunar eftir þær umr., sem þar fóru fram, að hér væri um að ræða mjög athyglisvert mál sem vert væri að gefa gaum. Ég beitti mér því fyrir að skipuð var nefnd til að vinna að endurskoðun þessara laga. Í upphafi gerði ég ráð fyrir að haga störfum þessarar nefndar með þeim hætti, að fram kæmi frv. um tollkrít sem Alþingi gæti tekið til meðferðar og tekið afstöðu til. Ef Alþingi samþykkti það frv. héldi þessi nefnd áfram störfum og endurskoðaði lögin með tilliti til þeirrar samþykktar sem Alþingi þá hafði gert.

Nefnd þessi var skipuð ríkisendurskoðanda og tollstjóra, auk þess Júlíusi Ólafssyni framkvæmdastjóra og Hjalta Pálssyni framkvæmdastjóra, en formaður var Ásgeir Pétursson bæjarfógeti, þáv. sýslumaður. Með nefndinni starfaði sem ritari hennar skrifstofustjórinn í fjmrn. Þorsteinn Geirsson. Nefnd þessi skilaði áliti og ég vék að nokkrum atriðum úr skýrslu þeirri í ræðu minni á Alþingi 1979–80. Þá fluttum við sömu hv. þm. þessi frv., að vísu skömmu fyrir þinglok, en þá gafst tækifæri til að flytja hér framsöguræðu. Málinu var vísað til fjh.- og viðskn. sem leitaði síðan umsagna um málið. Það var haldinn fundur í nefndinni rétt fyrir þinglok til þess að auðvelda framgang þess. Þegar við fjöllum um þetta frv. nú ætti þess vegna að vera auðveldara fyrir fjh.- og viðskn. deildarinnar að hraða framgangi þess ef um er að ræða vilja meiri hl. En af því, sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh., mátti ráða að vilji væri nú fyrir hendi til þess að láta þetta mál ná fram að ganga.

Þessi hv. nefnd, sem ég skipaði á sínum tíma, skilaði grg. sinni skömmu fyrir ríkisstjórnaskipti á árinu 1978. Það var því eðlilegt að sá, sem tók við embætti fjmrh. í septembermánuði 1978, fengi tækifæri til að fjalla um þá skýrslu sem var nýkomin til ráðuneytisins. Mér var jafnframt kunnugt um að fulltrúar innflutningssamtaka gengu á fund þáv. hæstv. fjmrh., Tómasar Árnasonar, lýstu áhuga sínum á málinu og óskuðu eftir því, að sú ríkisstj., sem þá sat, ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, tæki málið upp, flytti um það frv. og freistaði þess að ná þessu máli fram hér á Alþingi.

Það gerðist hins vegar ekki, og þegar ekki bólaði á neinu af hálfu ríkisstj., sem við tók í febrúarmánuði 1980, var þetta frv. flutt, eins og ég gat um áðan, og þá heyrðust raddir hæstv. forsrh. og fjmrh. sem ég vík að hér á eftir.

Þessi frumvörp hafa tvívegis verið flutt, en ekkert annað hefur gerst í málinu þar til nú, að það, sem ég áður gat um, kom fram í skýrslu hæstv. ríkisstj.

Það er enginn vafi á því, að tollkrít eða greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum leiði til lægra vöruverðs í landinu, auk þess sem það auðveldar og greiðir fyrir innflutningsversluninni með ýmsum hætti. Niðurstaða nefndarinnar, sem ég skipaði, var sú, eins og fram kemur í grg. frv., að nefndin var sammála um að mæla með að tekin yrði upp tollkrít.

Ef við lítum aðeins á nöfn þeirra manna, sem sátu í nefndinni, kemur í ljós að hér eru annars vegar fulltrúar innflutningsverslunarinnar og hins vegar þeir aðilar sem gæta og ætlað er að gæta hagsmuna hins opinbera, tollstjóri og ríkisendurskoðandi, auk þess sem þáv. formaður Félags héraðsdómara, Ásgeir Pétursson, var formaður nefndarinnar. Allir þessir aðilar hafa því staðgóða þekkingu á þeim málum sem hér er fjallað um. Það ber og að undirstrika að niðurstaða þeirra er samdóma, og það gæti e. t. v. verið leiðarljós fyrir ýmsa þá sem ekki eru gjörkunnugir tollafyrirkomulagi og greiðslu aðflutningsgjalda.

Í nál., sem hv. alþm. var öllum sent, er samdóma niðurstaða nefndarinnar, sem ég gat um áðan, og ég vil enn á ný — með leyfi forseta — lesa örstuttan kafla, en þar segir, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af framangreindum forsendum og vísan til fskj. leggur nefndin því einróma til við fjmrh., að tekin verði upp tollkrít hér á landi í því formi og með þeim takmörkunum, sem lýst er í þessu nál. í einstökum atriðum. Að ósk ráðh. var rökum og forsendum safnað í framangreint nefndarálit. Telur nefndin samdóma, að á grundvelli þessara upplýsinga sé fljótlegt að setja saman lagafrv. ef hæstv. ráðh. óskar, enda hefur allt meginefnið verið sett hér fram. Er hún jafnframt reiðubúin að vinna það verk fyrir næsta samkomutíma Alþingis.“

Eins og ég sagði áðan hafði ekkert verið í málinu gert þegar kom fram á haustið 1978. Það var því á útmánuðum 1980 að við endurfluttum þessi frv. þegar umr. fóru fram um þetta mál, 1. umr., tók hæstv. forsrh. til máls og lýsti áhuga sínum á málefninu. Hann orðaði það svo í ræðu sinni, með leyfi forseta: „Allt frá því að ríkisstj. var mynduð hafa tillögur og hugmyndir um greiðslufrest á tollum og einföldun á tollmeðferð vöru verið til athugunar. Ráðuneyti, sem þetta mál snertir, hafa unnið að þessu og viðræður farið fram um málið milli ráðherra. Í stjórnarsáttmálanum er ákvæði þess efnis að greiða fyrir hagkvæmum innkaupum til lækkunar á vöruverði.“ Síðan fjallaði hann örlítið um greiðslufrest á tollum eða tollkrít, en sagði að lokum, með leyfi forseta: „Ég er því fylgjandi, að þessum frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. og mundi ríkisstj. þá hafa samráð um frekari könnun og meðferð þessa athyglisverða máls.“

Samráð við fjh.- og viðskn. eða þá menn, sem í henni hafa átt sæti frá þessum tíma, hefur ekki verið haft. Það fóru hins vegar fram umr. á síðasta þingi þessa efnis. Þá hafði ekkert svar borist frá hæstv. ríkisstj. og ekkert samráð eða neitt samband haft við þá þm. sem áttu sæti í fjh.- og viðskn. þegar þingi lauk vorið 1980.

Í stefnuræðu hæstv. forsrh. haustið 1980 var ekki vikið einu orði að því á verkefnaskrá ríkisstj. hvað gera skyldi í þessu máli, heldur ekki á s. l. hausti. Það er ekki fyrr en nú, þegar hæstv. forsrh. talar fyrir skýrslu frá ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum, að vikið er að þessu máli.

Ég held að allur sá seinagangur, sem verið hefur á þessu máli hjá hæstv. núv. ríkisstj., hafi valdið vonbrigðum hjá þeim aðilum sem um þessi mál fjalla og bera hag innflutningsverslunarinnar fyrir brjósti og þá í leiðinni verðlag á innfluttum vörum, og ég held að þeir hafi látið til sín heyra.

Það gerðist næst í þessu máli, að hæstv. fjmrh. skipaði nefnd á s. l. ári til þess að fara ofan í þetta mál aftur, sjálfsagt lesa þá skýrslu vel og rækilega, sem var til í ráðuneytinu, og gera sér síðan tillögur í sambandi við þetta mál.

Það er í septembermánuði s. l. sem þessir aðilar gera ráðh. grein fyrir skoðunum sínum í skýrslu, sem þeir nefna tillögu til fjmrh. um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, og komast nánast að nákvæmlega sömu niðurstöðu og sú nefnd, sem vann þetta mál að mínu frumkvæði 1978, og semja eða gera hugmyndir að frv. fyrir hæstv. fjmrh., eftir því sem mér sýnist þannig, að sameinuð séu frumvörpin á þskj. 209 og 210, og leggja til við fjmrh. að slíkt frv. með efnisatriðum úr þeim frumvörpum flytji hann sem frv. ríkisstj. nú á þessu vori.

Sjálfsagt kemur í framhaldi af því í skýrslunni margumræddu það, að greiðslufrestur af aðflutningsgjöldum, svonefnd tollkrít, verði tekinn upp í áföngum frá næstu áramótum að telja, eins og þar segir, með leyfi forseta: „En því fyrirkomulagi er ætlað að stuðla að hagkvæmari innkaupum og almennri hagræðingu í innflutningsverslun. Jafnframt verði gerðar ráðstafanir til þess, að þessi breyting komi ekki niður á íslenskum iðnaði.“

Þannig hljóðar það sem hæstv.,forsrh. sagði hér, eins og það stendur í skýrslu. En það, sem er sýnu merkilegra að það, sem hæstv. forsrh. segir, er ekki hvað hann segir, heldur hvar það stendur í umræddri skýrslu.

Við skyldum halda að hér væri kafli um það, með hvaða hætti væri hægt að lækka verð á innflutningsvörum, og hér væri verið að ræða um hluta af kafla um einhvers konar breytingar í sambandi við þá hluti. Nei, þegar þessi upplestur á sér stað er verið að ræða um kafla sem heitir: „Önnur fjáröflun fyrir ríkissjóð“. Þá hefur mönnum tekist að snúa þessu þannig við að hugmyndir, sem fram hafa komið og lagðar hafa verið fram til þess að lækka vöruverð, til þess að stuðla að hagkvæmari innkaupum, almennari hagræðingu í innflutningsverslun, eins og segir, eiga að verða til þess, að auka tekjur ríkissjóðs, til fjáröflunar í sambandi við lausn á þeim vandamálum sem ríkisstj. hefur nú við að glíma. Þegar búið er að telja upp önnur atriði, sem ríkisstj. hefur fram að færa í sambandi við aðra fjáröflun, kemur setningin: „Lagt verði á sérstaki tollafgreiðslugjald við tollmeðferð vöru samkvæmt nánari reglum sem kynntar verði á næstunni.“ síðan heldur áfram: „Greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum, svonefnd tollkrít, verði tekinn upp í áföngum.“ Þá er þessu dæmi þannig snúið við, að hugmyndir, sem fram eru settar til þess að ná fram hagkvæmari innkaupum, til þess að fá lækkun á vöruverði í landinu, eru nú hugsaðar til að afla ríkissjóði tekna til þess að hægt sé að halda áfram þeim vísitöluleik, þeirri vísitölufölsun sem núv. ríkisstj. hefur stundað allt frá því að hún var mynduð í febrúarmánuði 1980 eða um tveggja ára skeið. Ég vakti athygli á því í ræðu, sem ég flutti hér fyrir hönd fulltrúa Sjálfstfl. í fjh - og viðskn. þegar til umr. var frv. til laga um lækkun tolla á nokkrum vörutegundum, að ljóst væri að tekjutap það, sem gert var ráð fyrir að ríkissjóður yrði fyrir, 22 millj. kr., væri ætlað að bæta ríkissjóði upp með öðrum hætti, með þeim hætti sem hér hefur verið vikið að — og meira til, ekki aðeins að tryggja ríkissjóði 22 millj., ekki 44 millj., heldur e. t. v. 66 millj. kr. á móti þeim 22 sem ríkissjóður tapar við þá tollalækkun sem samþykkt var.

Það var verið að lækka tolla á vörum, sem eru vísitöluvörur, um 22 millj. Það á síðan að hækka tolla með sérstöku tollafgreiðslugjaldi, ekki um þá upphæð, heldur þrisvar sinnum þá upphæð, til þess að ná inn tekjum fyrir ríkissjóð, leggja það á vörur sem ekki eru í vísitölunni og hækka þannig vöruverðið í landinu. Ég verð að segja að það veldur mér miklum vonbrigðum hvernig hér er hugsað að nýta afar góða hugmynd í sambandi við enn eina skattlagninguna hjá núv. hæstv. ríkisstj. Ég held að það hefði verið skynsamlegra fyrir hæstv. ríkisstj. í baráttunni við verðbólguna að flytja eða standa að þeim frv., sem við fimm alþm. höfum flutt í sambandi við tollkrít og koma þannig fram lækkun á vöruverði, ná þannig niður verðbólgustiginu sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að glíma við allan tímann, en árangurslaust.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða meira um það frv. sem ég tala hér fyrir. Í því felst fyrst og fremst ákvörðun um það, hvort upp skuli tekinn greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum. Því frv. er ætlað að ná fram mikilli lækkun á vöruverði. Tölur voru nefndar þegar það var samið og vísað þá til þeirrar grg. sem nefndin frá 1978 lagði fram. Það var gerður mjög vel grundaður útreikningur á því, hvað þetta gæti þýtt í krónum talið, og það skipti milljörðum. Þegar frv. er nú aftur til umr., þá er af hálfu ríkisstj. hugsað að nota þessa hugmynd til annarra hluta, nota þessa hugmynd í samræmi við allt annað sem ríkisstj. hefur verið að gera. Ég verð að segja það eins og er, að ég hefði gjarnan viljað að hæstv. fjmrh. væri hér viðstaddur þegar þetta frv. og önnur frv. í tengslum við það væru rædd. Ég hef trú á því, að hann sé hér í húsinu, herra forseti, og enda þótt ég sé að ljúka máli mínu eiga sjálfsagt eftir að fara hér farm umr. um þau frv. sem eru hér á dagskrá á eftir. Mér sýnist því eðlilegt og rétt að leitað sé að hæstv. fjmrh. til þess að vera hér viðstaddur þessar umr.

Ég ætla ekki að orðlengja þessar umr. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.