10.02.1982
Neðri deild: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2371 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

178. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að flytja hér ásamt Jóni Inga Ingvarssyni frv. til 1. um breyt. á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

„1. gr.: 4. tölul. 66. gr. laganna orðist svo:

Ef maður hefur veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 14 ára og eldri.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég tel ekki þörf að lesa upp þá grg. sem fylgir þessu frv., hún er mjög stutt, en vænti þess að menn hugleiði það, þegar þetta mál kemur til umfjöllunar í nefnd, að aðstaða fólks til að fullnægja grunnskólalögunum og koma börnum sínum til mennta er mjög misjöfn í þessu landi. Annars vegar búa menn í það stórum samfélögum að þessi þjónusta er öll svo að segja við höndina, en aðrir búa í samfélögum sem eru það fámenn að ríkisvaldið hefur ekki séð sér fært að tryggja þessa þjónustu í heimabyggð. Þannig er það t. d. í mínu kjördæmi. Það eru fleiri þorp, sem hafa ekki 9. bekk í grunnskóla, en þau sem hafa 9. bekk. Í hinum fámennari sveitarfélögum, þar sem ekki er um neina þorpsmyndun að ræða, er í sumum tilfellum um mjög langan veg að fara fyrir nemendur, eins og t. d. úr Árneshreppi. Þaðan þurfa nemendur annaðhvort að fara inn á Hólmavík eða þá í Reykjaskóla í Hrútafirði. Þarna er um hróplega mismunun að ræða. Samfélagið, sem sparar sér fjármagn með því að byggja ekki skólana í heimabyggð, hlýtur að bera á því siðferðislega ábyrgð að stuðla að því, að unglingar fái þá menntun sem er undirstaða þess að þeir geti haldið áfram skólanámi. — Ég vil bæta því við, að samkvæmt gögnum, sem ég kynnti mér í sumar hjá menntmrn., fer ekki á milli mála að mun lægra hlutfall nemenda fer til framhaldsmenntunar í dreifbýlinu en af stór-Reykjavíkursvæðinu. Þar getur varla verið önnur skýring en sú, að nálægð íbúanna við skólana tryggi þeim meiri rétt í reynd.

Þar sem mér er ljóst að alþm. eru þessum málum kunnugir tel ég ástæðulaust að fjölyrða frekar um frv. Herra forseti. Ég legg til að frv. fari til fjh.- og viðskn. að lokinni umr.