27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

321. mál, húsnæðismál

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á bls. 11 í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. fyrir árið 1982 er tafla neðst á síðunni um hlutfal( fjárfestingarlána af framkvæmdakostnaði. Þar kemur fram að íbúðaeigendur hafa á árinu 1980 átt kost á 60% að láni, árið 1981 66.4%, árið 1982 70.8%, og er þetta hærra hlutfall en nokkru sinni fyrr. Er þar um að ræða opinber lán og lífeyrissjóðalán eins og þau eru metin af Seðlabanka Íslands. Þessar tölur tala skýrara máli en upphlaup hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar. (ÞK: Við erum ekki að tala um það sama.) Já, þm. reynir stundum að tala um annað en það sem hann á að tala um þegar það er honum óhagstætt. Ég kannast við það. (Gripið fram i.)

Hv. 6. þm. Reykv., Birgir Ísl. Gunnarsson, gat þess, að hér hefði ekki verið um að ræða djúpstæðan ágreining í húsnæðismálum á undanförnum árum. Þetta er rangt. Það hefur verið verulegur ágreiningur í húsnæðismálum á undanförnum árum. Borgarstjórnaríhaldið gamla hér í Reykjavík, sem núna siglir upp til forustu á nýjan leik og þykist ætla að vinna borgina með leiftursókn undir forustu Davíðs Oddssonar, — þetta gamla borgarstjórnaríhald, sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson var í fyrirsvari fyrir lengi, var alltaf á móti félagslegum aðgerðum í húsnæðismálum, felldi tillögur um leiguíbúðir aftur og aftur í borgarstjórn Reykjavíkur og borgarráði árum og áratugum saman. Við erum auðvitað að súpa seyðið af þessum vanda.

Núverandi borgarstjórnarmeirihluti hefur tekið myndarlega á þessum málum með góðum stuðningi núv. ríkisstj., og vonandi endist honum aldur lengi enn til að taka á þessum málum með þeim hætti sem gert hefur verið þannig að Reykvíkingar þurfi ekki aftur að búa við það sleifarlag sem ríkti í félagslegum íbúðarbyggingum í Reykjavík undir forustu borgarstjórnarmeirihluta íhaldsins.