11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2378 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þess munu vera dæmi, að vísu ekki um lönd sem almennt eru kölluð lýðfrjáls, að einhver ákveðinn hluti af lögum, sem sett hafa verið, hafi ekki verið á almannavitorði. Þetta á einkum og sér í lagi við þegar slík lagasetning er notuð til að koma fram refsingum af hálfu stjórnvalda við þegna ríkisins, sem hafa e. t. v. brotið af sér. Þá hefur það gerst, að dæmt hafi verið eftir lögum, sem ekki hafa verið á almannavitorði, í réttarhaldi, sem ekki var opið fyrir almenningi. Þessir stjórnarhættir eru ekki taldir til fyrirmyndar.

Mér kemur ekki til hugar að afskipti ríkisstj. af þessari takmörkuðu lagasetningu eigi nokkuð skylt við þetta. Ég vildi aðeins vekja athygli manna á því, að það er almenn regla í öllum lýðfrjálsum löndum og öllum lýðræðisríkjum að lögin, sem í gildi eru í landinu, séu gerð opinber fyrir almenningi þannig að almenningur hafi a. m. k. möguleika á því að afla sér allra upplýsinga um þau lög sem í gildi eru hverju sinni.

Varðandi þær tilvitnanir, sem hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh. hafa báðir flutt fram um birtingu laga, vil ég aðeins taka það fram, að það er almenn regla um lagasetningu í okkar landi að Alþingi setur lög og Alþingi fjallar um lagasetningu sem opinbert mál fyrir opnum tjöldum að viðstöddum fulltrúum fjölmiðla og þeim meðal kjósenda sem áhuga hafa á því að koma til að hlýða á fundi Alþingis. Slíkar lagasetningar verða á Alþingi í þremur umræðum í hvorri deild, samtals í sex umr. í báðum deildum, og eins og ég sagði áðan fyrir opnum t]öldum. Þar að auki eru þau vinnubrögð hjá löggjafarsamkomunni, eins og allir vita, að í meðferð málsins í nefndum er öllum hagsmunaaðilum, sem e. t. v. tengjast málinu með einum eða öðrum hætti, gefinn kostur á að tjá álit sitt. Þegar lög eru sett með þessum hætti hefur það sem sé allt saman átt sér stað fyrir opnum tjöldum. Fjölmiðlum hefur verið gefið margháttað tækifæri til að fjalla um lagasetninguna og skýra frá henni, og öllum þeim, sem hagsmuna eiga að gæta, hefur verið gert ljóst að lögin séu í setningu. Birting laganna, sem hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. vitnuðu til, lýtur aðeins að því formsatriði að lög, sem hafa verið sett með þessum hætti af Alþingi fyrir opnum tjöldum, geti öðlast gildi.

Brbl., sem ríkisstj. setur, eru hins vegar algert undantekningartilvik og eiga að vera það vegna þess að ríkisstjórnarfundir, þar sem fjallað er um slíka lagasetningu, eiga sér ekki stað fyrir opnum tjöldum. Á þeim fundum eru engir fulltrúar fjölmiðla mættir. Á ríkisstjórn og ríkisstjórnarfundum hvílir engin upplýsingaskylda, og það er algerlega undir hælinn lagt hvort það fréttist einhvern tíma og þá hvenær hvað þar er gert. Þess vegna segir það sig sjálft, að ef lög eru sett á ríkisstjórnarfundum, ef menn ætla að hafa þær reglur í heiðri að almenningur geti fengið að vita hvaða lög eru í gildi í landinu, þá hljóta að vera gerðar meiri kröfur til þeirra laga, sem sett eru með þeim hætti, samþykkt á ríkisstjórnarfundi sem er lokaður, en gerðar eru til laga sem eru sett með þeim hætti að Alþingi fjallar um þau í opinberum umr. í þremur umferðum í Ed. og þremur umferðum í Nd. — eð öfugt. Þetta verður auðvitað að liggja alveg ljóst fyrir. Einmitt þess vegna, hæstv. forsrh., hefur það, eftir því sem ég best veit og best man eftir frá því að ég stundaði störf í fjölmiðlum, verið almenn regla að ríkisstjórnir teldu sér skylt að greina frá því í fréttatilkynningu eða með sambærilegum hætti að þær hefðu ákveðið á lokuðum ríkisstjórnarfundi að setja ný lög.

Þetta vildi ég að fram kæmi í sambandi við yfirlýsingu hæstv. ráðh. áðan, að það er alls ekki sambærilegt að bera saman annars vegar lög sem Alþingi setur fyrir opnum tjöldum og hins vegar lög sem ríkisstj. setur með samþykkt á lokuðum ríkisstjórnarfundi.

Hæstv. forsrh. var spurður einnar spurningar, hvernig á því stæði að ríkisstj. hans hefði ekki greint frá því, að á slíkum lokuðum ríkisstjórnarfundi hefðu ný landslög verið búin til. Hæstv. forsrh. byrjaði á að svara þeirri spurningu með því að lesa upp lagafyrirmæli um að Seðlabanki Íslands ákvæði gengi íslensku krónunnar. Þetta svar kom spurningunni ekki nokkurn skapaðan hlut við, var um allt annað mál en um var spurt, kom umr. ekkert við og var algerlega út í hött, eins og hæstv. ráðh. er von og vísa. Vissulega ákveður Seðlabankinn gengi íslensku krónunnar að fengnu samþykki ríkisstj., en hæstv. ráðh. var ekkert spurður um það. Hins vegar vita menn ósköp vel, ef menn endilega þurfa að ræða það, að Seðlabankinn gerði tillögu til ríkisstj. um allt aðra gengisbreytingu en raunin varð á. Það var ríkisstj. sem tók þau tilmæli Seðlabankans, bætti nokkru við gengisfellinguna og sendi þau síðan aftur til Seðlabankans með ósk um að gengisbreytingin yrði gerð önnur og meiri en Seðlabankinn hafði upphaflega óskað eftir samþykki ríkisstj. við. En m. ö. o., herra forseti, kemur þetta svar spurningunni ekki nokkurn skapaðan hlut við.

Þá greindi hæstv. forsrh. í öðru lagi frá því, að Seðlabanki Íslands hefði sent út fréttatilkynningu um þá gengisbreytingu sem varð nú í upphafi árs. Það svar hæstv. ráðh. kom ekki heldur spurningunni við því að ekki var um það spurt. Hæstv. ráðh. hlýtur að vera ljóst að allur almenningur á Íslandi vissi af því, að gengi íslensku krónunnar hafði verið skráð upp á nýtt. Um það var ekki spurt, hvort Seðlabankinn hefði gefið út fréttatilkynningu um það. Það er öllum ljóst að svo var. Að svara þeirri einföldu spurningu, sem hæstv. forsrh. fékk, með þessum hætti er að svara út í hött. Í þessari fréttatilkynningu Seðlabankans kom ekkert fram um efni spurninga hv. þm. Kjartans Jóhannssonar. Hæstv. forsrh. getur því ekki snúið sig út úr málinu með því að seðlabankinn hafi gefið út fréttatilkynningu því að í fréttatilkynningunni er ekki að finna neitt svar við þeirri spurningu sem til hæstv. forsrh. var beint.

Þá segir hæstv. forsrh., að þó ekki hafi verið send út nein frétt, hvorki frá rn. hans né ríkisstj., hefði fjölmiðlum samt sem áður átt að vera ljóst að ný lög hefðu verið sett á lokuðum fundi ríkisstj. vegna þess að Stjórnartíðindi hefðu verið gefin út og send fjölmiðlum. Ég brá mér hérna fram í skrifstofu Alþingis, sem er sú stofnun í þessu þjóðfélagi sem setur lög, og spurðist fyrir um hvort finnanlegt væri þar á skrifstofunni eða í bókasafni Alþingis, löggjafarsamkundu þjóðarinnar, þetta umrædda bréf, laust blað úr Stjórnartíðindum með umræddri tilkynningu. Það var ekki finnanlegt þar. Sjálfsagt hefur það borist til Alþingis eins og slíkar tilkynningar, en það er a. m. k. ekki að finna þar nú, og er þess vart að vænta að blöðin hafi þetta handhægt hjá sér fyrst það er ekki til á Alþingi.

Herra forseti. Það er okkar verk hér, alþm., að búa til lögin í þessu landi. Skyldi einhverjum öðrum frekar koma það við en okkur? Ef við, löggjafarsamkoman, vitum ekki að sett hafa verið lög í landinu er þá eðlilegt að fjölmiðlarnir og fólkið í landinu, sem ekki á sæti á þessari samkomu, hafi hugmynd um það? Auðvitað ekki. Alþm. fá ekki send Stjórnartíðindi með upplýsingum um lagasetningar fyrr en þau hafa verið heft. Enginn alþm. hefur enn fengið í hendur tilkynningu úr Stjórnartíðindum um að hæstv. ríkisstj. hafi sett brbl. 14. jan. s. l. Er okkar verk þó að setja lögin í þessu landi og ákveða hvort á að staðfesta þau brbl. sem hæstv. ríkisstj. setur á fundum sínum. Engum alþm. hefur enn þá borist tilkynning um þetta.

Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því, að enginn alþm. gat haft hugmynd um að ríkisstj. væri búin að setja ný lög í landinu fyrr en frv. til staðfestingar á brbl. var lagt fram á Alþingi. Það var ekki gert fyrr en 4. febr., fyrr en 4. þ. m., hálfum mánuði eftir að Alþingi hafði komið saman. Þá fyrst þann dag, 4. febr., þegar alþm., sem hafa því hlutverki að gegna að setja lögin í landinu, komu til þingfundar og höfðu þá verið á þingfundum í hálfan mánuð, rekast þeir á það á borðum sínum, að hæstv. ríkisstj. hafi 14. jan., mánuðinn áður, sett ný lög í landinu sem hefðu verið í gildi síðan. Alþm. vissu ekki um þetta fyrr en 4. febr. Þeir fengu engar upplýsingar um þessi nýju lög í Stjórnartíðindum vegna þess að þeim bárust ekki Stjórnartíðindi og þeim berast ekki Stjórnartíðindi fyrr en þau hafa verið heft. Ríkisstj. sá ekki heldur sóma sinn í því að leggja frv. til staðfestingar á brbl. fram fyrr en 4. febr.

Þetta er kannske ekki stórvægilegt mál, herra forseti, vegna þess að segja má að það skipti kannske ekki sköpum um afkomu og efnahag þjóðarinnar hvort þessi brbl. hafa verið sett eða ekki. En í mínum augum er það alvarlegt atriði þegar hæstv. ríkisstj. setur lög eða breytir lögum án þess að löggjafarsamkunda þjóðarinnar hafi hugmynd um, að þau lög hafi verið sett eða þeim lögum hafi verið breytt, fyrr en þremur vikum eftir að samþykktin um hina nýju lagasetningu var gerð á lokuðum ríkisstjórnarfundi. Þetta, herra forseti, kalla ég ekki að bera virðingu fyrir Alþingi. Ef það er að bera virðingu fyrir Alþingi að gera hv. alþm. Gunnar Thoroddsen að forsrh. hversu miklu fremur skyldi það þá ekki vera að bera virðingu fyrir Alþingi ef þessi sami hæstv. forsrh. sæi sóma sinn í því að láta löggjafarstofnun þjóðarinnar af því vita að hann hafi sett ný lög í landinu?