11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2382 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta mál liggur allt saman ljóst fyrir og hefur þegar verið skýrt. En það eru örfá atriði úr ræðum hv. þm. sem þörf er á að svara og leiðrétta ranghermi.

Einn hv. þm., það mun hafa verið hv. þm. Halldór Blöndal, talaði um að með brbl. hefði helmingur gengishagnaðar verið gerður upptækur. Þetta fannst honum auðvitað hin mesta goðgá og vafasamt hvort stæðist samkv. stjórnarskránni að beita slíku eignarnámi. Það má vera að þessi hv. þm. viti það ekki, en ég held að flestir aðrir þm. hljóti að vita það, að við gengislækkanir hefur verið allt að því föst venja — með örfáum undantekningum — að allur gengishagnaður af birgðum hefur verið tekinn af fyrirtækjum með lögum og settur í sérstakan sjóð, gengismunarsjóð. Fé úr þeim sjóði hefur svo verið ráðstafað til ýmissa hluta, sumpart til fiskvinnslu, sumpart til sjávarútvegs eða útgerðarinnar eða sjómanna eða samtaka þeirra. Með þessum brbl. núna var hins vegar brugðið frá þessari venju að því leyti, að í fyrsta lagi er ákveðið að aðeins helmingur gengishagnaðar skuli tekinn, en auk þess er mikill meiri hluti allra birgða undanþeginn þessari skyldu. Þannig er t. d. öll frystingin undanþegin. M. ö. o.: í stað þess að áður hefur gengishagnaður yfirleitt verið tekinn af fyrirtækjunum við gengislækkun var nú aðeins örlítið brot af þessum gengishagnaði tekið og ekki látið renna í gengismunarsjóð, sem ráðstafar til ýmissa aðila, að vísu tengdra sjávarútvegi, heldur var hver eyrir af þessum gengishagnaði látinn renna í Verðjöfnunarsjóðinn og í viðkomandi deildir. Þetta ranghermi hv. þm. vil ég því hér með leiðrétta.

Deilt var á ríkisstj. eða mig fyrir að leggja ekki brbl. strax fyrir Alþingi þegar það kom saman. Það voru þrjár vikur frá því að brbl. voru gefin út og þangað til frv. var lagt fyrir þingið. En það er algerlega rangt þegar verið er að gefa í skyn að það sé skylda að leggja brbl. fyrir Alþingi strax. Það er þvert á móti tekið fram í stjórnarskránni, að brbl. skuli leggja fyrir næsta þing, og það er mjög algengt, að brbl. séu lögð fram á ýmsum tímum og jafnvel undir þinglok. Það er hins vegar tekið fram um eitt frv. sérstaklega í stjórnarskránni, það er fjárlagafrv., að það skuli leggja fyrir Alþingi þegar er það kemur saman. Þessi ádeila er því ástæðulaus.

Sumir hv. þm. hafa talað um að það sé ekki góður háttur að alþm. hafi ekki verið send nein tilkynning um þessi brbl. Ég vil vekja athygli þessara hv. þm. á því, að þó að gefin hefði verið út fréttatilkynning eru fréttatilkynningar ekki sendar alþm. Þetta vita hv. þm. ósköp vel. (Gripið fram í: Tilheyra þeir ekki þjóðinni?) Þeir vita ósköp vel að fréttatilkynningar eru ekki sendar til þeirra. Hins vegar skulum við aðeins líta á þetta nánar. Það er um tvennt hér að ræða. Það eru tvenns konar ráðstafanir sem gerðar voru. Annars vegar var gengislækkun og eins og ég gat um áðan gaf Seðlabankinn út sérstaka fréttatilkynningu um hana með skýringum. Í öðru lagi var svo ákvörðun um ráðstöfun á hluta af gengishagnaðinum sem tekin var með brbl. Þó að brbl. séu birt í Stjórnartíðindum samdægurs og það blað Stjórnartíðinda sé sent öllum fjölmiðlum leyfa menn sér að koma hér upp í stólinn, og það jafnvel þaulreyndir fjölmiðlamenn, og segja að með þessu sé öllu haldið leyndu, það sé farið með þetta eins og laumuspil. Í rauninni er sú útgáfa Stjórnartíðindanna, sem kemur út samtímis og er send til allra fjölmiðla, algerlega hliðstæð fréttatilkynningu. Það er furðulegt að heyra þennan málflutning, jafnvel frá reyndum mönnum.

Því hefur verið haldið fram hér, sem er algerlega rangt, af tveimur eða þremur hv. þm., að það sé allt að því föst regla, að þegar brbl. séu gefin út sé send út sérstök fréttatilkynning frá ríkisstj. Blaðafulltrúi ríkisstj. hefur kannað þetta og hann segir um það: „Það er undantekning að brbl. sé fylgt úr hlaði með sérstakri fréttatilkynningu.“ M. ö. o.: þessar fullyrðingar bæði þm. Eiðs Guðnasonar o. fl. eru algerlega rangar og ekkert annað en tilgátur út í loftið.

Þetta mál liggur auðvitað ákaflega skýrt fyrir. Annars vegar var um gengisbreytinguna send út formleg fréttatilkynning frá Seðlabanka. Hins vegar voru brbl., sem á að hafa verið haldið leyndum, birt samdægurs í Stjórnartíðindum og það blað eða það hefti var sent samdægurs til allra fjölmiðla. Ef á að saka einhvern um að halda einhverju leyndu ætti hv. þm., Eiður Guðnason að beina máli sínu til fjölmiðlanna, ef þeir hafa ekki skýrt frá þessu, en þeir fengu þetta allir í hendur samdægurs.

Af þessu er auðvitað ljóst að allt þetta tal um að einhverju hafi verið haldið leyndu, að ríkisstj. hafi eitthvað brotið af sér með því að gefa ekki út fréttatilkynningu, er staðlausir stafir og gersamlega tilefnislaust.