11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

118. mál, alþjóðleg ráðstefna um afvopnun á Norður-Atlantshafi

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd þingflokks Alþb. lýsa yfir stuðningi við þessa fram komnu þáltill.

Miklar umræður hafa þegar farið fram hér í þinginu um þessi mál og er e. t. v. ekki ástæða til að halda um þau langa ræðu núna. Alþb. hefur alla tíð barist gegn kjarnorkuvopnum, vígbúnaði af öllu tagi, gegn aðild okkar að NATO og gegn herstöðvum á Íslandi. Það þarf því ekki langt mál til þess að skýra afstöðu Alþb. í þessum málum.

Í umræðu, sem farið hefur fram á Norðurlöndum um kjarnorkulaus Norðurlönd, er öllum kunnugt að Íslandi hefur beinlínis verið haldið utan við þá umræðu vegna veru herstöðvarinnar hér og vitaskuld ekki að ástæðulausu. Hér eru herstöðvar Bandaríkjamanna, ekki aðeins þjónustustöðvar og stjórnstöðvar, heldur gerast æ óskýrari mörkin milli svokallaðra eftirlits- og stjórnstöðva og beinna árásarstöðva í kjarnorkustríði. Staðfesting þessa er t. d. staðsetning AWACS-flugvélanna hér eins og öllum er kunnugt.

Í Noregi hafa farið fram háværar umræður af svipuðum ástæðum vegna þess að Noregur hefur verið í æ meira mæli eitt allsherjarmóðurskip fyrir risaflugvélar, sprengjuflugvélar sem borið geta kjarnorkuvopn, auk þess sem Noregur hefur stjórnstöðvar af svipuðu tagi og við höfum hér, sem geta verið hlustunar-, miðunar- og njósnastöðvar fyrir kafbáta í hafinu.

Ég held að hver einasti hugsandi Íslendingur ætti að gera það alvarlega upp við sig, hvort við látum við svo búið standa, að telja okkur of smá, eins og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson sagði hér áðan. Mesta siðferðileg uppgjöf manneskjunnar er að finnast hún sjálf ekki nógu stór til að hafa siðferðilega ábyrgð. Ég held að hversu smá sem þjóð er geti hún orðið jafnhávær um jafnsjálfsögð mál og þau sem fjalla um það, hvort manneskjurnar fá að lífa eða deyja á þessari jörð. Og ég held að við ættum sem allra fyrst að reyna að losa okkur við flokkslegan ágreining hér á okkar litlu eyju um þessi mál. Ég held að þau séu allt of alvarleg til þess að þau eigi að tilheyra ákveðnum stjórnmálaflokkum. Það er okkur auðvitað heiður og æra, að þau hafa mestan part mætt hingað til á Alþb. og íslenskum sósíalistum fyrr og síðar. En við erum sannarlega meira en glöð að fá fólk frá öðrum flokkum til þess að aðstoða okkur í þeirri baráttu. Og sem betur fer hafa stjórnmálamenn annarra flokka nú í síauknum mæli séð þessa hættu. Íslenska kirkjan hefur haft þrek til þess að vara við henni, og alþýða manna um allan heim hefur tekið saman höndum um að reyna að hafa vit fyrir stjórnmálamönnum.

Það hefur verið raunalegt að fylgjast með því gegnum árin, hvernig stjórnmálamenn hafa snúist í kringum heimatilbúin hugtök. Sú var tíðin að menn töluðu um „ógnarjafnvægi“ í trausti þess, að menn ættu nógu sterkar sprengjur sitt hvorum megin. Þá hvíldum við í jafnvægi ógnarinnar. Jafnvel það eru menn hættir að tala um nú. Nú tala menn um „takmarkaða kjarnorkustyrjöld“. Og við getum rétt ímyndað okkur hvar hún færi fram ef Bandaríki Norður-Ameríku og Sovétríkin kynnu að heyja kjarnorkustyrjöld. Ég hygg að ljóst sé hvar vígvöllurinn verður.

Það hlýtur að vera hverju barni ljóst, að því lengur sem við höfum þessa nauðsynlegu stjórnstöð Bandaríkjamanna hér — og væri þá sama hvort einhver annar aðili hefði slíka stjórnstöð — þeim mun meiri hætta er auðvitað á að hér verði í hafinu æ fleiri kjarnorkukafbátar. Stjórnstöðin á Íslandi og stjórnstöðin í Færeyjum eru auðvitað nauðsynlegar stöðvar fyrir þennan leik stórveldanna. Þess vegna ættum við að horfa af fullri alvöru á, hvernig þessi mál þróast, og taka höndum saman um að láta frá okkur heyra þó að við séum smá.

Einu sinni var minnst á að við værum svo fátæk og smá að það væri kannske ekki einu sinni hægt að slást við Dani. Það tókst raunar, og að við ættum að draga andann djúpt og láta frá okkur heyra þó að við séum smá. Þetta er okkar land, þetta eru okkar fiskimið og það ætti að standa okkur næst að gera a. m. k. tilraun til að verja þetta tvennt. Ég vil því fagna fram kominni þáltill. hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar og lýsa yfir stuðningi við hana fyrir hönd þingflokks Alþb., og ég vænti þess, að hv. utanrmn.-menn taki höndum saman um að afgreiða hana á þessu þingi.