11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2404 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

118. mál, alþjóðleg ráðstefna um afvopnun á Norður-Atlantshafi

Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þann stuðning sem þessi till. hefur fengið í umr. hér á þinginu. Mér virðist að allir, sem til máls hafa tekið hafi talið að tímabært væri að við Íslendingar hefðum nokkurt frumkvæði að því að hefja máls á þeirri hættu sem þjóðinni stafar af þeirri stefnubreytingu sem vígbúnaðurinn virðist vera að taka. Það má vel vera að menn séu ekki alveg sammála um með hverjum hætti helst ætti að taka slíkt frumkvæði. Það er eðlilegt að menn greini nokkuð á um það.

Ég hjó sérstaklega eftir því í ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e., Arna Gunnarssonar, að hann taldi nokkuð margt laust í reipum varðandi þessa till. og eðlilegra hefði verið að flytja hana á þingi Sameinuðu þjóðanna eða í Norðurlandaráði. Nú er það auðvitað svo, að menn getur greint nokkuð á um hvar skal byrja og með hverjum hætti. Ég held að það sé enginn vafi á að það stríð, sem Íslendingar eiga fram undan við að vekja athygli á málstað sínum í þessu máli, sé svo viðamikið stríð að þeir verði að heyja það á öllum þeim vettvangi sem þeim býðst, hvort sem það er á þingum Atlantshafsbandalagsins, þingi Sameinuðu þjóðanna, í Norðurlandaráði eða á öðrum þingum þar sem margar þjóðir koma saman. Hvort endilega hefði átt að byrja hjá Sameinuðu þjóðunum eða í Norðurlandaráði fremur en að halda ráðstefnu hér getur menn auðvitað greint á um, enda hjó ég eftir því, að hv. þm. gerði ekki upp á milli þess sjálfur, hvort hann hefði heldur viljað byrja í Norðurlandaráði eða hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég held að það sé deila um keisarans skegg sem þarna kemur fram. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar, að mesta athygli muni vekja á þessu máli að Íslendingar boði sjálfir til slíkrar ráðstefnu og geri það á Íslandi. Auðvitað geta aðrir haft aðra skoðun á því og þeim er frjálst að gera það. Það er sjálfsagt erfitt að meta með hverjum hætti væri eðlilegast að hefja þetta frumkvæði eða byrja á þessu starfi. En mér virðast orð þm. Norðurl. e., Árna Gunnarssonar, nokkuð út í hött varðandi þetta.

Um samstarfið við Grænlendinga og Færeyinga er ekki talað, í till., segir hann. Í till. er alveg sérstaklega gert ráð fyrir samráði við þau lönd sem liggja að Norður-Atlantshafi, og ef menn eru sæmilega vel að sér í landafræði hljóta þeir að vita að bæði Grænland og Færeyjar falla undir það. Ég hef í þeim greinum, sem ég hef skrifað um þetta mál, mörgum þeirra, sérstaklega minnast á samstarfið við Grænland og Færeyjar, en auðvitað koma þarna fleiri lönd til: Bretland, Kanada o. s. frv. Ég ætla ekki að telja það allt upp hér.

Þm. taldi að till. væri laus í reipunum vegna þess að ekki væri nákvæmlega ákveðið hvernig ráðstefnan ætti að fara fram. Það var alls ekki ætlunin að ákveða það endilega með þessum tillöguflutningi. Hér er verið að beina ákveðnum tilmælum til ríkisstj. og ætlast er til að hún undirbúi þetta mál. Það mál þarf að athuga gaumgæfilega. Það er hægt að gera með ýmsum hætti og þarf að athuga mjög vel. Það var aldrei hugmyndin að leysa öll heimsins vandamál með þessum tillöguflutningi, langt frá því.

Hv. þm. segir að það sé óljóst hvaða alþjóðastofnun ætti að hafa eftirlit með þessum ferðum um Atlantshafið og greiða kostnaðinn. Auðvitað er það óljóst. Ég lýsti þessu sem framtíðarsýn. Það hlýtur að verða samningsatriði allra þeirra, sem að þessu samningaborði koma, hvaða alþjóðastofnun um er að ræða, hvort það er ný stofnun eða einhver þeirra sem fyrir eru. Ég verð að segja það, að ég kem alveg af fjöllum ef 6. þm. Norðurl. e., Árni Gunnarsson, telur sig vera þess umkominn á þessari stundu að gefa yfirlýsingu um hvaða alþjóðastofnun það ætti að vera sem allt þetta eftirlit tæki að sér. Mér finnst hv. þm. vera að reyna að hræra í gruggugu vatni til að vekja einhvers konar tortryggni á till. án þess að vita nokkuð hvað hann er að fara sjálfur.

Hv. þm. vakti athygli á að hættan væri kannske mest af kjarnorkuknúnum skipum, af mengun sem af þeim gæti stafað. Það má vel vera, að það sé nokkur hætta, og sjálfsagt alveg rétt að íslensku þjóðinni getur stafað hætta af mörgu, ekki bara kjarnorkuvopnum eða kjarnorkuknúnum skipum. Þessi till. er auðvitað fyrst og fremst varðandi þá stefnu sem k arnorkuvígbúnaður er að taka. Hv. 6. þm. Norðurl. e., Árni Gunnarsson, getur talið upp hundrað hættur aðrar sem steðja að íslensku þjóðinni án þess að þær falli undir þessa till., og sjálfsagt væri nauðsynlegt að taka þær til athugunar sérstaklega. Þarna er um að ræða mengunarmál ekki hvað síst. Ég hygg að lög okkar varðandi íslenska landhelgi og rétt Íslendinga til þess, jafnvel innan 200 mílnanna, að setja kröfur um búnað skipa, sem þar fara um, og skaðabótarétt, sem íslenska ríkið á, ef slíkt skip veldur tjóni, þurfi að endurskoða hið bráðasta. Ég er hræddur um að það sé engan veginn ljóst hvaða rétt Íslendingar eiga ef kjarnorkuknúið skip sleppir kælivatni, sem er geislavirkt, á fiskimiðum okkar, en samkv. hafréttarsáttmálanum geta þjóðir sett einhlít lög um hvernig með slík mál skuti fara. Það er vafalaust alveg nauðsynlegt að Íslendingar setji slík lög og endurskoði þau ákvæði sem um það fjalla. Ef ég man rétt mun fyrrv. formaður Alþfl. einmitt hafa flutt á síðasta þingi þáltill. sem var samþykkt, í þá átt að þessi ákvæði verði endurskoðuð. Þar fellur auðvitað alveg sérstaklega undir skaði sem kjarnorkuknúin skip gætu valdið.

Hv. þm. sagði: Mér finnst þessi till. einhvern veginn ekki hitta í mark. Það hefði átt að flytja hana á alþjóðavettvangi. — Honum er auðvitað frjálst að hafa þá skoðun, og ég skal ekki leggja dóm á hvernig best hefði verið að hefja þessa umræðu. Það var okkar mat að það væri eðlilegast að gera það hér á Íslandi vegna þess að það eru hagsmunir íslensku þjóðarinnar, tilvera íslensku þjóðarinnar sem um er að tefla. En að sjálfsögðu verður að hefja þetta mál með íslenskum rómi og íslenskri rödd á þingi þjóðanna sem víðast.

Hv. 7. landsk. þm. ræddi hér nokkuð um þessi mál. Í sambandi við það, sem hann sagði, vil ég sérstaklega vekja athygli á því, að burt séð frá öllu öðru, sem um þessi mál hefur verið rætt áður, er ég þeirrar skoðunar, að einmitt þessi þróun sé að komast sérstaklega í brennidepil nú. Hann hélt því fram, að kannske væri vonlaust að ræða raunverulega afvopnun nema mannréttindi í heiminum væru aukin. Þetta má vafalaust til sanns vegar færa og í þessu er sjálfsagt nokkur dýpri speki. En þessi till. hljóðar ekki fyrst og fremst um alhliða afvopnun á þessum hnetti sem við lífum á. Hún hljóðar ekki heldur um vandamál Póllands eða Tyrklands. Hún hljóðar fyrst og fremst um það, að þungamiðja þess vígbúnaðarkapphlaups, sem nú stendur yfir og því miður virðist vera að aukast og styrkjast er að færast í hafið hér í kringum Ísland. Alveg burt séð frá hvort afvopnun almennt tekst eða ekki geta Íslendingar ekki unað því, að stórveldin reyni að tryggja hag sinn með því að færa þessa þungamiðju yfir í hafið hér við Ísland, vegna þess að þau sjálf eða önnur ríki geti með engu móti unað því að hafa kjarnorkuvopn í landi sínu.

Það má vel vera rétt hjá hv. 7. landsk. þm., að litlar líkur séu til árangurs nema miklu fleiri þættir séu skoðaðir, almenn mannréttindi, staðan í Póllandi o. s . frv. En ég vara menn við að drepa málinu á dreif á þennan hátt. Þungamiðjan í þessum tillöguflutningi er að það er Íslendingum og íslensku þjóðinni algjör nauðsyn að vekja máls á þessari þróun, hafa frumkvæði að því að ræða þetta og kynna erlendum þjóðum hvað hér er að gerast, algjörlega án tillits til þess jafnvel hvort nokkur árangur næst. Við verðum að vera við því búin að árangur sé ekki skjótfenginn, jafnvel að hann verði enginn. En það breytir ekki því, að það er og hlýtur að vera skylda okkar að láta rödd okkar heyrast um þetta og berjast fyrir því, að tilvera íslensku þjóðarinnar sé ekki stefnt í hættu með þeirri þróun sem þessi mál eru nú að taka.