11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

118. mál, alþjóðleg ráðstefna um afvopnun á Norður-Atlantshafi

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er kannske ekki ástæða til að fara að elta ólar við orð hv. síðasta ræðumanns, en hann tekur það stundum óstinnt upp ef ekki eru allir á sama máli og hann, og hefur hann auðvitað fullt leyfi til þess.

En ég vildi segja við hv. þm. í fyrsta lagi, að við höfum vettvang til að ræða þessi mál á, og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson benti auðvitað réttilega á þennan vettvang. Það eru Hinar sameinuðu þjóðir. Ég vil benda hv. þm. á að kynna sér hvernig t. d. friðlýsing Indlandshafs varð að veruleika. Við hann vil ég einnig segja það, að þó að ég hafi margoft bent á þær hættur, sem að þjóðinni steðja vegna hinnar gífurlegu vopna- og heruppbyggingar á Norður-Atlantshafi, er ég ekki til með að kokgleypa till. sem eru ekki raunhæfar. Og ég verð að segja við hann, að það hefði auðvitað verið margfalt eðlilegra að við hefðum borið þetta mál upp á þingi Sameinuðu þjóðanna, að við hefðum gert öllum þjóðum heims þar ljósa grein fyrir að við hefðum miklar áhyggjur af þessari flotauppbyggingu á Norður-Atlantshafi.

Ég vil líka benda hv. þm. á það, að fyrir skömmu kaus Alþingi Íslendinga nefnd, sem er skipuð þm. úr öllum flokkum, til þess að vinna að auknum samskiptum Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga. Ég hefði talið eðlilegt, úr því að hv. þm. hefur slíkan áhuga á alþjóðlegri ráðstefnu hér á landi, að þá hefði verið skynsamlegt að hafa samband við þessa félaga okkar hér við Norður-Atlantshafið og ræða hugmyndina við þá. Það hefði veitt málinu enn þá meiri þyngd og enn þá meiri kraft.

Ég verð að segja það berum orðum, að mér finnst þessi till. að mörgu leyti ekki vera raunsæ og mér finnst að í henni felist talsverð sýndarmennska. Við höfum haft tækifæri til þess á undanförnum árum og áratugum, á sama tíma og við höfum fylgst með flotauppbyggingunni á Norður-Atlantshafi, að reifa þessi mál á þingi Sameinuðu þjóðanna. Þangað fara íslenskir alþm. á hverju einasta ári í hópum og þeim hefði verið í lófa lagið að taka þetta mál upp þar. En ég er ekki að draga úr hættunni af þessari flotauppbyggingu. Ég hef margoft í ræðum hér á þingi bent á hana. En hvort þetta er aðferðin til að fá þjóðir heims til að fjalla um þessi mál með okkur, það veit ég ekki. Ég er t. d. þeirrar skoðunar, að miklu fljótvirkara hefði verið að taka þetta mál upp hjá Hinum sameinuðu þjóðum en að við færum að boða til ráðstefnu hér uppi á Íslandi, eins og hv. ræðumaður sagði: án þess að vita hvort yfirleitt nokkur árangur yrði, enda tekið fram í till. að hér sé um framtíðarsýn að ræða.

Nei, ég held að það hefði verið viturlegra að við hefðum beitt okkur — og þá fulltrúar allra þeirra stjórnmálaflokka sem hafa áhyggjur af þessari flotauppbyggingu — á þeim vettvangi þar sem sem flestir gátu á okkur hlustað og eftir okkur tekið. Ég óttast sem sagt að ef svona ráðstefna yrði vindhögg sé lakara að hafa farið af stað en að hafa setið heima. Þetta er mín skoðun á málinu. Þess vegna vil ég taka undir með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni: Auðvitað er nú tækifæri okkar og hæstv. núv. ríkisstj., hafi hún áhuga á því, að gera þjóðum heims grein fyrir vaxandi áhyggjum okkar af kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaupinu á Norður-Atlantshafi, en þá eigum við að gera það á aukaþingi Sameinuðu þjóðanna sem fjallar sérstaklega um afvopnunarmál. Það er vettvangurinn. Með dugnaði og röskum málflutningi gæti einn íslenskur ráðh. gert þar meira og með minni tilkostnaði en ef við boðuðum til ráðstefnu hér uppi á Íslandi. Þetta er mín skoðun á þessu máli og ég vil að hún komi skýrt fram. Ég fer ekki dult með áhyggjur mínar af þessari flotauppbyggingu. Allir ærlegir menn hljóta að hafa áhyggjur af henni. Ég hef t. d. nefnt að það þarf ekki að verða mikið slys um borð í kjarnorkuknúnum kafbát, sem missir út geislavirkt kælivatn t. d. á hrygningarslóð þorsksins eða einhverrar annarrar dýrmætrar fisktegundar hér við land, til að þessi þjóð verði fyrir ægilegu áfalli. Þess vegna er ég hlynntur allri umræðu um þessi mál og við styðja og stuðla að því, að þessi mál verði tekin upp, en á réttum stöðum. Það getur vel verið að það sé skemmtileg hugmynd að Íslendingar boði til svona ráðstefnu og ég mun ekki snúast gegn þeirri hugmynd. Ég er hins vegar staðfastlega þeirrar skoðunar, að við höfum vettvang til að fjalla um þessi mál á og þann vettvang eigum við að nota.