11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2409 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

118. mál, alþjóðleg ráðstefna um afvopnun á Norður-Atlantshafi

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ekki dreg ég í efa þann góða hug sem að baki þessari till. liggur. Hins vegar finnst mér, því miður kannske, að hér gæti fullmikillar bjartsýni og menn séu kannske ekki alveg nægilega raunsæir.

Friðun Indlandshafs hefur borið á góma í þessum umr. Það er svo, að menn hafa gert um það samþykktir, en því miður er það líka svo, að menn standa nákvæmlega í sömu sporum eftir sem áður. Það er enn verið að halda ráðstefnur á vegum Sameinuðu þjóðanna um þetta efni, friðun Indlandshafs, og menn koma sér ekki einu sinni saman um dagskrá þeirra funda. Þetta er auðvitað ákaflega miður, en þetta er staðreynd.

Ekki skal úr því dregið að við beitum okkur á þessum vettvangi, síður en svo, og ég tek undir það, sem ýmsir hafa sagt hér, að hið sérstaka aukaþing Sameinuðu þjóðanna, sem kemur saman til að fjalla um afvopnunarvanda á þessu ári, er auðvitað hinn rétti vettvangur til að fjalla um þessi mál. Þar eigum við að láta að okkur kveða. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fjallaði síðast um þessi mál 1978 á sérstökum aukafundi þar sem voru gerðar samþykktir sem því miður hafa ekki verið haldnar af þeim sem þar áttu hlut að máli. Það eiga kannske fyrst og fremst hlut að máli Sovétríkin, sem lofuðu að beita ekki kjarnorkuvopnum eða fara með kjarnorkuvopn á hendur neinu ríki sem ekki hefði slík vopn. Þessi yfirlýsing var auðvitað brotin þegar rússneskur kafbátur vopnaður kjarnorkuvopnum strandaði á sænsku landi. Við verðum auðvitað að gera okkur grein fyrir því, að allar yfirlýsingar, allar samþykktir í þessum efnum eru vitagagnslausar, ónýtar og ekki virði þess pappírs sem þær eru skrifaðar á, nema því aðeins að samkomulag takist stórveldanna í milli um að draga úr vígbúnaðarkapphlaupinu og um alhliða gagnkvæma afvopnun. Þetta eru því miður þær hörðu staðreyndir sem heimurinn býður okkur upp á og við getum ekki undan vikist.

Því miður hefur Indlandshaf ekki verið friðlýst. Stórveldin fara þar sínu fram með herskipaflota og heræfingum. Því miður er þetta þrátt fyrir alla hina miklu og góðu viðleitni í gagnstæða átt. En eins og ég sagði fyrr dreg ég ekki í efa þann hug sem er að baki þessari till., og ég get tekið undir mjög margt af því sem hv. 1. flm. sagði.

Ég held að það hefði e. t. v. verið heilladrýgra þessu máli til framgangs að beita sér fyrst að því, hvort ekki hefði verið hægt að skapa samstöðu hér á þingi um till. sem miðaði að því sem þessi till. miðar að. Ég held að slíkt hefði alls ekki verið útilokað.

Menn hafa vikið að því hér, að þessi mál ætti að ræða á fundum Norðurlandaráðs. Utanríkismál hafa yfirleitt ekki verið rædd á fundum Norðurlandaráðs vegna þess að í þeim málum hafa löndin farið hvert sína leið. Um þetta hefur verið samkomulag. Það hefur verið samkomulag um að ræða ekki varnarmál og utanríkismál á fundum Norðurlandaráðs. Að vísu hafa t. d. finnskir kommúnistar nær því á hverju þingi, oft og einatt með ágætum stuðningi íslenskra kommúnista, hafið utanríkismálaumræður á fundum Norðurlandaráðs. Það hefur, svo ekki sé meira sagt, mælst misjafnlega fyrir. Þar er ágreiningur á milli landanna. Þau fara hvert sína leið. Menn hafa orðið ásáttir um að ræða þau mál á öðrum vettvangi en í Norðurlandaráði.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en taldi nauðsynlegt að þetta kæmi hér fram, einkum það sem ég sagði um staðreyndir mála varðandi friðlýsingu Indlandshafs, sem því miður hefur ekki orðið að veruleika þrátt fyrir allar hinar góðu yfirlýsingar. En auðvitað eru orð til alls fyrst. Á það skal ég fyrstur manna fallast.