11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég bað um orðið í dag þegar ég snöggreiddist hæstv. forsrh. vegna ummæla sem hann viðhafði. Venjulega rennur mér reiðin fljótt, og svo er komið núna að hún er að mestu horfin. Engu að síður tel ég fyllstu ástæðu til að geta þess sem hæstv. ráðh. sagði, vegna þess að mér þótti raunverulega skarast það mál, sem var til umr., og sú umsögn hæstv. forsrh., að það heyrði til undantekninga og var haft eftir virðulegum blaðafulltrúa ríkisstj.brbl. væri fylgt úr hlaði með fréttatilkynningu. Ég er þeirrar skoðunar, að þegar menn viðhafa orð af þessu tagi, menn sem gegna mikilvægum embættum eins og ráðherraembættum, séu þeir raunveruleg að lýsa afstöðu til þings og þjóðar sem er ekki forsvaranleg. Ég hef alltaf litið svo á að brbl. væru alvarlegt mál, væru ráðstöfun, ákvörðun sem þjóðin ætti heimtingu á að vita um. Svo hefur það verið alveg frá því að ég fór að fylgjast með pólitík.

Nú ætla ég ekki að tala um þessi einstöku brbl. sem voru gerð að umræðuefni í dag, heldur almennt allar stjórnvaldsákvarðanir. Við lifum í lýðfrjálsu landi og hér eru frjálsar kosningar. Menn kjósa þm. og menn kjósa þá um leið, vænti ég, ráðh. Það fólk, sem þessa menn kýs til mikilsverðra og mikilvægra embætta, á auðvitað kröfu á að fá að vita þegar ríkisstj. tekur afdrifaríka ákvörðun eins og að gefa út brbl. Það var þessi þáttur í málflutningi hæstv. forsrh. sem ég vildi fara nokkrum orðum um.

Ég get ekki leynt því, að málflutningur, sem af þessum toga er spunninn, lýsir dálitlu stærilæti. Það geðjast mér ekki, hvort sem hæstv. forsrh. tekur nokkurt mark á þeim orðum eða ekki. Engu að síður tel ég að það hefði verið eðlilegra, eins og hv. þm. Eiður Guðnason minntist á áðan, að viðurkenna hreinlega að þarna hefðu orðið mistök og þjóðin hefði átt að fá að vita um þessi brbl. eins og önnur lög sem gefin eru út, brbl. og lög almennt.

Ég vil segja að það kann að vera að hér hafi veri gerður úlfaldi úr mýflugu, en það er þá vegna þess að hæstv. ráðh., sem hér töluðu í dag, litu svo á, af þeim orðum sem ég heyrði frá þeim koma, að ríkisstj. hefði í raun og veru ekki borið nein skylda til að gera meira en að birta þessi brbl. í Stjórnartíðindum. Það skýtur mjög skökku við þá reynslu sem ég hef af ríkisstjórnum almennt í þessu landi, því að brbl. hafa þótt mikil tíðindi og hafa þótt fréttir. M.a. af þeim sökum held ég að það hefði verið langsamlega skynsamlegast og eðlilegast í þeirri stöðu, sem hér kom upp, að viðurkenna, að þarna hefðu orðið mistök, og senda þessa fréttatilkynningu út þegjandi og hljóðalaust. Markmiðið með setningu þessara brbl. er ekkert umdeilt í sjálfu sér. Það er aðferðin sem er umdeild og var gerð að umræðuefni í dag.

Ég skal ekki tefja þessar umr. Það er kannske að mati hæstv. ráðh. nokkur tilætlunarsemi að óska eftir að hann komi hingað niður í þing kl. 6 að kvöldi eftir langan og ugglaust erfiðan vinnudag. En ég held að hér hafi orðið mistök, og ég vil eindregið mælast til þess, að menn geri sér ljósa grein fyrir því, að athafnir stjórnvalda af því tagi, sem hér eru til umræðu, eiga auðvitað að fara út á meðal fólksins, hvernig svo sem það er tryggt að fólkið í landinu, sem býr við þau lög sem sett eru, frétti a. m. k. af því að lög séu sett, en það finnst mér lágmarkskrafa.