27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

197. mál, áhrif viðskiptakjara á verðbætur á laun

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Með samþykkt laga um breyt. á lögum um almannatryggingar, nr. 30 frá 26. maí 1981, var gerð sú breyting á gildandi lögum, að sjómenn, sem stundað hafa sjómennsku í 25 ár eða lengur og náð hafa 60 ára aldri, eigi rétt til töku ellilífeyris. Samkv. lögunum er ráð fyrir því gert, að starfsár sjómanns skuli í þessu sambandi miðast við að hann hafi verið lögskráður á íslenski skip eigi færri en 180 daga að meðaltali í 25 ár. Í lagagreininni er enn fremur gert ráð fyrir að nánar verði kveðið á um þessi atriði í reglugerð.

Þegar frv. til l. var samið á sínum tíma í samráði við sjómannasamtökin, í tengslum við gerð síðustu kjarasamninga, var þegar vitað og rætt milli aðila að það gæti orðið erfiðleikum bundið fyrir sjómenn að sanna starfstíma sinn á sjó á grundvelli lögskráningar síðustu 25 ár, þar sem lögskráning sjómanna hefur verið gloppótt víða og er jafnvel enn, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Var því ljóst að fljótlega yrði að koma til móts við þarfir sjómanna í þessu sambandi með setningu reglugerðar. Það yrði að finna lausn vandans og gera sjómönnum kleift að sanna sjósókn sína með öðrum hætti en lögskráningu þegar lögskráningarreglur hafa verið brotnar.

Til þess að gera sér ljóst eðli og umfang þessa vandamáls ákvað rn. að bíða með setningu reglugerðar þar til nokkur reynsla væri komin á lögin og vísbending fengin um það, að hve miklu leyti sjómenn gætu sannað sjósókn sína skjallega. Reynslan hefur sýnt að lögskráning utan Reykjavíkur hefur verið mjög laus í reipunum á undanförnum árum og áratugum, svo að ekki sé sterkar til orða tekið. Frá heilum landssvæðum fjölmennra verstöðva eru ófullkomin gögn og víða með öllu glötuð vegna bruna og ófullnægjandi geymslu og því útilokað fyrir hlutaðeigandi sjómenn að sanna veru sina í skipsrúmi eða lengd skráningartíma. Skilyrðið um lögskráningu á íslenskum skipum þýðir einnig að þeir sjómenn, sem stundað hafa alla sína sjómennsku á opnum bátum eða þilfarsbátum undir 12 brúttólestum, hafa aldrei verið skráðir, þar sem það er ekki lagaskylda.

Að fenginni reynslu, sem komið hefur fram síðustu mánuði, er nú talinn tími til þess kominn að setja umrædda reglugerð. Verður þar reynt að leysa þetta vandamál sjómanna og tryggja að hin annars sanngjarna lagasetning um lífeyri sjómanna nái tilgangi sínum og menn njóti þeirra réttinda sem þar eru boðin. Undanfarnar vikur hefur rn. unnið að samningu reglugerðar um þessi mál í samvinnu við sjómannasamtökin, þ. e. Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands. Í þeim drögum, sem nú liggja fyrir, er eftir sem áður gert ráð fyrir að aðalsönnun verði lögskráning sjómanna á íslensk skip og réttar njóti menn eftir 180 daga starf að meðaltali í 25 ár. Hins vegar er gert ráð fyrir í þeim drögum, sem nú liggja fyrir, að tryggingaráði sé heimilt eftir atvikum að meta sjóferðabækur eða önnur skrifleg sönnunargögn um starfstíma sjómanns ef lögskráning hefur eigi farið fram lögum samkvæmt eða gögn um hana eru glötuð. Þá er gert ráð fyrir því, að tryggingaráði verði heimilt að meta til sönnunar um starfstíma sjómanns vitnisburð valinkunnra manna um starfstíma hans. Slíkur vitnisburður verður að bera með sér hvar, hvenær og hve lengi sjómennska sú var stunduð sem sönnunin á að ná til.

Að lokum er gert ráð fyrir því í þeim reglugerðardrögum sem nú liggja fyrir, að þegar þannig stendur á að sjómaður hafi stunda sjómennsku í 25 ár eða lengur á opnum báti eða þilfarsbáti undir 12 brúttólestum og þar af leiðandi ekki borið skylda til lögskráningar, þá sé tryggingaráði heimilt að úrskurða honum ellilífeyri einnig frá og með 60 ára aldri, enda sé sannað að sjómennska hafi verið aðalstarf viðkomandi.

Það skal tekið fram, að samkvæmt framangreindum drögum, sem nú liggja fyrir, er fyrst og fremst um það að ræða, að tryggingaráð hafi heimild til þess að meta til sönnunar önnur atriði en lögskráningu. Rökin eru fyrst og fremst þau, að það sé engan veginn sanngjarnt að láta sjómenn gjalda þess, að hin lögbundna skjallega sönnun sem lögskráningin er sé annaðhvort glötuð eða hafi aldrei farið fram.

Mér þótti rétt, herra forseti, í tilefni af þessari fsp. að gera ykkur, hv. þm., grein fyrir því, hvernig við erum að reyna að nálgast málið í heilbr.- og trmrn. og hvaða forsendur það eru sem við reynum að byggja þetta á. Ég veit að hv. alþm. átta sig á að það er engan veginn einfalt verk að koma þessari reglugerð saman. Reglugerðardrögin, sem við hófum núna unnið, eru til umsagnar og meðferðar hjá sjómannasamtökunum og öðrum umsagnaraðilum, tryggingaráði einnig að sjálfsögðu, og ég vænti þess, að unnt verði að setja þessa reglugerð á næstu vikum. Aðalatriðið í okkar huga er auðvitað það, að þessi reglugerð verði ótvíræð þannig að hún skapi ekki nýjan vanda, nýja þröskulda eða hindranir í þá veru að menn geti ekki nýtt sér þann rétt sem vilji löggjafans stóð til með setningu þeirra laga sem vitnað er til í fsp. hv. þm. Karvels Pálmasonar.