27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

197. mál, áhrif viðskiptakjara á verðbætur á laun

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu hér. Það er full ástæða til þess, því að við hófum sannarlega orðið varir við það á undangengnum mánuðum, eftir að þessi lagasetning átti sér stað hér á Alþingi, að sjómenn hafa mjög spurt um þetta. Þeir hafa komist í mikil vandræði út af því, hvernig þeir ættu að ná rétti sínum. Ég fagna þess vegna yfirlýsingu hæstv. ráðh. um það, að nú verði leitað annarra ráða en þeirra sem við vorum með í lagasetningunni í vor og ég hélt satt að segja þá í einfeldni minni að væru fullnægjandi, vegna þess sérstaklega að um málið hefur verið haft fullt samband við sjómannasamtökin. Þau ættu í raun og veru, eða forustumenn þeirra, að vita gleggst um hvað til þyrfti að koma svo að menn næðu þarna rétti sínum. Ég hef t. d. sannreynt það núna á næstum öllum útgerðarstöðum á Austurlandi, að þar er fáum — ef nokkrum — mögulegt að ná þessum rétti sínum samkv. reglum um lögskráningu. Síðan koma þeir mennirnir sem ekki eiga síst rétt á þessu. Það eru trillusjómennirnir sem eru alveg sér á báti og þarf líka sannarlega að huga að.

Ég fagna því, að sem fyrst komi sem réttlátust reglugerð hér um og tryggingaráði verði heimilt að meta það, hvort til greina eigi að taka beiðni sjómanna. Ég held að við verðum í þessu tilfelli að treysta því, sem hæstv. ráðh. kom inn á, að vitnisburður valinkunnra manna verði í mörgum tilfellum látinn ráða, vegna þess að ég hugsa að engin önnur ráð séu fyrir suma sjómenn til að ná rétti sínum en að leita til valinkunnra manna, hvernig sem tryggingaráð metur þá svo.