15.02.1982
Neðri deild: 40. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2429 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

175. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Hv. þm. sagði að þetta mál væri fyrst og fremst spurningin um vilja stjórnarsinna. Það getur verið að það mundi kosta eitthvað. Ég er helst á því, að það séu mjög háar fjárhæðir. En ég skal ekki leggja mat á það á þessu stigi. Það er til mat á því eins og málum var fyrir komið áður fyrr.

Áður var það í lögum að ákveðið hlutfall var reiknað af fasteignamati sem svokölluð eigin húsaleiga. Þar á móti var heimilt að draga frá viðhald, fasteignagjöld og iðgjald af húseigendatryggingu að 9/10 hlutum hennar og einnig fyrningu íbúðarhúsnæðis. Auk þess var þá heimilt að draga frá vexti af lánum sem voru tekin ekki aðeins til kaupa á íbúðarhúsnæði, heldur til annarra þarfa. Þegar breytingin á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt átti sér stað 1978 var eigin húsaleiga svipuð fjárhæð og viðhald, fasteignagjöld og iðgjald af húseigendatryggingum. Áður hafði það verið svo, að viðhald var frádráttarbært að öllu leyti samkvæmt reikningum. Þetta skapaði oft miklar deilur. Það er oft erfitt að ákveða það svo víst sé, hvað sé viðhald, hvað sé endurbætur og hvað sé endurnýjun. Um þetta voru endalausar deilur hjá skattyfirvöldum og ríkisskattanefnd og fyrir dómstólum. Síðan var farið út í það að hafa viðhaldið ákveðið hlutfall af fasteignamati, en breytt aftur þannig að um raunverulegt viðhald væri að ræða. Niðurstaðan varð sú, og sú ákvörðun var tekin af þeim sem þá voru við völd,— þá voru það sjálfstfl. og Framsfl.,- að það væri rétt að fella þessa liði niður, þ.e. bæði tekjumegin og gjaldamegin. Við, sem studdum þá ríkisstj., bárum ábyrgð á þessu athæfi.

Um það má vissulega alltaf deila hvað af útgjöldum manna skuli vera heimilt að draga frá skatti. Ef menn vilja hvetja til ákveðinna aðgerða, t.d. eins og að halda húsum við, býst ég við að það verki eitthvað hvetjandi að slíkt sé frádráttarbært. Það er einnig hugsanlegt, ef menn vilja hvetja sérstaklega til þess að menn haldi bílum sínum við, að viðhald bifreiða sé frádráttarbært. Þannig má lengi telja. En eitt verða menn þá að hafa í huga, að um þetta verða alltaf miklar deilur. Það verður alltaf mikið deilt um hvað sé viðhald og hvað sé endurnýjun o.s.frv. Það er skoðun mín að ástæða sé til að hafa sem fæsta slíka liði í tekjuskattsstofni. Það var breytt til fyrir nokkrum árum og ákveðið að hafa frádrátt ákveðið hlutfall af tekjum. Það var til mikillar einföldunar og sparaði mikið í skattkerfinu. Það var mikil vinna að fara yfir þetta áður fyrr. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, að þetta hafi verið rétt ákvörðun og það eigi ekki að breyta til, enda mun það kosta marga milljónatugi, ef ekki hundruð milljóna, að taka þennan lið inn aftur.

Hv. þm. sagði að það hefði verið afnumið líka að vextir væru frádráttarbærir. Það er ekki rétt. Þeir eru frádráttarbærir við kaup á eigin húsnæði, en það er sá liður sem mestu skiptir í sambandi við öflun eigin húsnæðis. Það er ekki fyrr en á síðari stigum almennt að viðhald kemur til, því að viðhald miðast við að halda eign í því ásigkomulagi sem hún var í þegar hún var keypt. Þess vegna er það miklu mikilvægari liður fyrir þá sem eru að afla sér eigin húsnæðis, að vextirnir séu með öllu frádráttarbærir í því sambandi. Viðhaldið kemur yfirleitt ekki fyrr en allmiklu seinna, þegar menn eru orðnir betur settir og betur stæðir. Þess vegna er frádráttarliður sem viðhald á eigin húsnæði miklu frekar heppilegur fyrir þá sem hafa komið sér sæmilega vel fyrir í þjóðfélaginu og hafa efni á að leggja í allkostnaðarsamar viðhaldsaðgerðir. Ég er ekki þeirrar skoðunar að þessi tegund af útgjöldum eigi að vera frádráttarbær frá skatti.