15.02.1982
Neðri deild: 40. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

183. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Halldóri Blöndal og Matthíasi Á. Mathiesen leyft mér að leggja fram frv., sem er að finna á þskj. 295, til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Frv. er aðeins ein grein, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við 1. mgr. 1. tölul. E-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðist svo:

Enn fremur skal heimilt að draga frá sem vaxtagjöld vexti og gjaldfallnar verðbætur af námslánum sem veitt eru með heimild í lögum um námslán og námsstyrki.“ 2. gr. er um gildistöku.

Efni þessa frv. var hluti af frv. sem flutt var á síðasta þingi. Hinn hlutinn var samþykktur sem lög frá Alþingi, en þessi hluti var ekki afgreiddur. Ég hef ástæðu til að ætla að meginástæðan fyrir því, að málið fékk ekki afgreiðslu í hv. fjh.- og viðskn., hafi verið sú, að þetta frv. tengist öðru frv. sem nú hefur verið lagt fram, en búist hafði verið við að lagt yrði fram á síðasta þingi. Það er frv. um námslán og námsstyrki.

Með samþykkt þessa frv. yrðu verðbætur og vextir af námslánum frádráttarbær frá tekjum manna áður en reiknaður er skattur, með sama hætti og vextir og verðbætur af lánum, sem tekin eru vegna húsbygginga eða húsakaupa, og — ég legg áherslu á það — með sömu takmörkunum og þar gilda. Þetta þýðir að samtals getur frádráttur af þessum vöxtum og verðbótum ásamt sams konar frádrætti vegna lána af húskaupalánum aldrei upp fyrir það þak sem um getur í E-lið 30. gr. skattalaganna. Á þetta vil ég leggja áherslu.

Flm. þessa frv. telja að framhaldsnámi megi líkja við fjárfestingu og það hafi þvílíkt þjóðfélagslegt gildi, að réttlætanlegt sé að fara þannig á svig við meginstefnu skattalaganna, sem er sú að fækka frádráttarliðum, eins og greinilega kom fram í ræðu hv. 3. þm. Austurl. þegar hann tók til máls um það mál sem var hér á dagskrá fyrr á fundinum. En ég legg áherslu á það, að hér verður um ákveðið hámark að ræða. Hér má segja að gildi sömu sjónarmið og varða húsakaup eða húsbyggingar í E-lið 30. gr. skattalaga.

Þá vil ég enn fremur leggja áherslu á að mér sýnist ekki ástæða til að þetta frv. fái afgreiðslu nema og ef ætlunin sé að afgreiða lagafrv. um námslán og námsstyrki sem nú liggur hér fyrir hv. deild og hefur reyndar verið sent til nefndar í deildinni.

Ástæðan fyrir því, að þetta telst vera réttlætismál um leið og það frv. er tekið til afgreiðslu, er að sjálfsögðu sú sem kom fram í umr. um það mál, að með því frv. er gert ráð fyrir að endurgreiðslur verði í raun mun meiri en þær eru nú. Samkv. upplýsingum, sem fyrir liggja, má gera ráð fyrir að endurgreiðslur námslána séu um það bil 60–65%, jafnvel lægra hlutfall af útlánum sjóðsins þegar miðað er við fast verð. En samkv. þeirri breytingu, sem lögð er til í hinum nýja lagabálki, verður hlutfallið a. m. k. 85% og jafnvel nær 90%. Þetta þýðir að sjálfsögðu að þeir, sem lokið hafa námi og eiga kost á að auka sínar tekjur, verða meira á sig að leggja, og sú vinna, sem þeir næla sér í með þeim hætti eða öðrum, hlýtur að lenda í efstu þrepum hins „prógressíva“ skattkerfis sem við höfum samþykkt að notað sé hér á landi. Þess vegna má segja að þetta sé enn frekar réttlætismál en ella.

Vegna þess að þetta mál hefur verið í umfjöllun fyrr á hv. Alþingi og var reyndar eins og annað slíkt í lögum áður en núverandi skattalög tóku gildi sé ég ekki ástæðu til að flytja um þetta lengra mál, svo skýrt og afmarkað sem það er í raun.

Ég óska eftir því, herra forseti, að málið verði sent hv. fjh.- og viðskn.