15.02.1982
Neðri deild: 40. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2435 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

183. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Austurl. fyrir ágætar undirtektir, enda er liðsstyrkur hans mikils virði í þessu máli, þar sem hann er formaður hv. fjh.- og viðskn.

Ég felli mig að sjálfsögðu mjög vel við þann hugsunarhátt, að hv. menntmn. deildarinnar verði látin fylgjast með þessu máli, einkum og sér í lagi vegna þess að hjá henni er frv., sem við höfum báðir getið um, frv. til laga um námslán og námsstyrki. Í almennri greinargerð og athugasemdum með því frv. er einmitt sagt frá því, að nefndinni, sem útbjó það frv., fóru fram heilmiklar umræður um þetta mál og niðurstaðan varð sú, að taka bæri tillit til þeirra atriða í skattalögum, er þetta varða, og annarra slíkra atriða sem til álita gætu komið.

En það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. 3. þm. Austurl., að þetta kann að vera álitamál, einkum og sér í lagi vegna hins tekjulæga endurgreiðslukerfis námslánakerfisins. Ég skal gjarnan viðurkenna það hér og gerði það reyndar í umr. um það mál, að ég hefði talið að lánasjónarmið ættu fremur að ráða varðandi útlán úr þeim sjóði, þ.e. að endurgreiðsla ætti að taka meira tillit til upphæðar lána heldur en til tekna, eins og nú er gert. En vissulega er það atriði sem æskilegt væri að hv. menntmn. og hv. fjh.- og viðskn. ræddu sín á milli.

Ég vil þess vegna, herra forseti, þakka undirtektir sem hér hafa komið fram við þetta mál, og vænti þess, að hv. 3. þm. Austurl., formaður fjh.- og viðskn., beiti sér fyrir því að hv. menntmn. og hv. fjh.- og viðskn. ræði málið sín á milli og skili til hv. deildar niðurstöðu í þeim efnum. Skal ég gjarnan vera stuðningsmaður þeirrar niðurstöðu sem þannig fengist, ef hún gengur í sömu átt og ég veit að við, ég og hv. 3. þm. Austurl., erum sammála um.