15.02.1982
Neðri deild: 40. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

192. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. flm. er hér um að ræða að hann telur rétt að víkja frá fasteignamati varðandi eignarskattsstofn. Það má sjálfsagt lengi um það deila, hvaða stofn er réttur og hvaða matsverð er rétt í sambandi við eignarskatt. Það má kannske segja að réttast sé að miða við upphaflegt kaupverð og síðan framreikna það með vísitölum. Það kemur vissulega til greina. En gallarnir við allar slíkar aðferðir eru fyrst og fremst þeir, að það verður nokkuð flókið. Þá þarf hver og einn að reikna út hækkun á sinni fasteign, og þá þurfa skattyfirvöld að endurskoða þann útreikning í stað þess að geta stuðst við opinbert mat á þeim tíma. Slíkt mat fær skattþegn sent til sín, á rétt á að kæra það og fá því breytt, og við endurskoðun skattframtala geta starfsmenn stuðst við hið opinbera mat.

Ég held, því miður, að menn verði fyrst og fremst að beina athyglinni að matinu sjálfu og reyna að gera það svo vel úr garði að það geti verið sæmilega sanngjarn stofn til álagningar eignarskatts og fasteignargjalda. Hitt er svo annað mál, að ef það mat hækkar langt umfram venjulegar hækkanir á að sjálfsögðu fremur að lækka skattinn, þ.e. lækka skatthlutfallið, sem nú er 1.2 % og er vissulega nokkuð hátt og hefur farið hækkandi. Það er að mínu mati miklu betri leið.

Ég vil hins vegar taka mjög undir það með hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, að sú mismunun, sem á sér stað við fasteignamatið, er mjög alvarleg. Það er vissulega mikil ástæða til að leggja meira að sér til að gera fasteignamatið betur úr garði þannig að þessi mismunun eigi sér ekki stað. Ég get t.d. ekki séð hvaða ástæða er til þess, að mat á eignum í ýmsum nágrannabyggðarlögum Reykjavíkur er lægra en víða í Reykjavík. Maður fær ekki séð rök fyrir slíku. Þessi mismunun kemur ekki aðeins fram í eignarskattinum, heldur einnig í fasteignagjöldunum. Þarna er fljótt að muna, því að ef um er að ræða við skulum segja 10 þús. kr. umfram það sem gengur og gerist, þá er þar um að ræða að 120 kr. þarf viðkomandi fjölskylda að borga í eignarskatt vegna þessarar skekkju. Fasteignamatið er orðið svo mikilvægur grundvöllur bæði varðandi fasteignagjöld og eignarskatt að það skiptir mjög miklu að þetta mat sé bæði rétt og sanngjarnt. Það er full ástæða til að það sé lögð í það veruleg vinna og þá reynt fremur að afnema aðra matsgerð í þjóðfélaginu.

Það var gert ráð fyrir því í lögum um fasteignamatið á sínum tíma að fasteignamatið gæti smátt og smátt orðið sá matsstjóri í þjóðfélaginu sem skipti mestu máli, en það hefur ekki orðið. Menn eru enn þá með sérstakt brunabótamat, og ef lánað er út á húsnæði hlaupa bankastofnanir af stað með sína matsmenn og Fiskveiðasjóður hleypur af stað með sína matsmenn og kannske Framkvæmdastofnun líka. Þannig er alltaf nóg af matsmönnum í þjóðfélaginu, það vantar ekki, en kraftar þessara ágætu matsmanna hafa alls ekki verið samræmdir með þeim hætti sem löggjöfin gerði ráð fyrir. Hvað þar kemur til skal ég ekkert fullyrða, en eitthvert áhugaleysi virðist ríkja hjá hinum ýmsu aðilum, sem hlut eiga að máli, á að samræma þessi möt.