16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2447 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. nefndi nafn mitt í svari sínu áðan, og ég tel mér skylt að gera nokkra grein fyrir því áliti sem ég hef á þessu máli.

Í fyrsta lagi vil ég segja það, að ég er mjög hlynntur tillögu hv. þm. Eyjólfs Konráðs um beinar greiðslur til bænda. Hins vegar átti ég þess kost að starfa í þeirri nefnd sem tók þessa tillögu til athugunar og kannaði hvort hún væri framkvæmanleg. Það verður að segjast eins og er, að eins og málum er háttað er það ekki andskotalaust að kreista út úr bönkunum það fjármagn sem sláturleyfishafar eiga að fá núna. Þar stendur kannske Seðlabankinn sjálfur stífastur fyrir. Þegar við fórum að kanna þetta mál kom auðvitað strax í ljós að við urðum að fá svar við þeirri spurningu, hvar ætti að taka allt það fjármagn sem bændur ættu að fá á þeim degi er fé þeirra eða gripum væri slátrað. Þetta eru gífurlegar upphæðir og hér verða að koma til stjórnvaldaákvarðanir um það, hvaðan þessir fjármunir eigi að koma, því að þeir verða ekki rifnir upp úr svelli, það er gersamlega útilokað. Miðað við núverandi kerfi á þessu greiðslufyrirkomulagi, eins og ég sagði við umr. sem hæstv. viðskrh. vitnaði í, eru þessar beinu greiðslur tæknilega útlokaðar. Það verður að koma til ákvörðun ríkisvaldsins eða ríkisstjórnar um hvaðan þessir peningar skuli teknir. Það hefur reynst mjög erfitt að fá greiðslur úr bönkum til afurðalána og fjármunir bænda hafa verið að brenna upp á verðbólgubálinu undanfarin ár vegna þess að greiðslur hafa borist til þeirra á allt að 12 mánaða tímabili.

Einnig vil ég segja það, að menn verða líka að hugleiða hver á að greiða vaxtakostnað vegna lántöku af þessum toga, hver á að greiða geymslukostnað á afurðum sem seljast hægt og seljast illa, og inn í þetta dæmi koma fjöldamörg önnur atriði.

Ég held að ef leysa eigi þetta mál verði að koma til ákvörðun ríkisstj. um að fá þetta fjármagn með stjórnvaldaákvörðun úr bönkunum. Og þá er spurningin: Hvernig? Hvaða banki? Á þetta að koma alfarið fram hjá Seðlabankanum eða viðskiptabönkunum eða hvaðan á þetta fjármagn að koma? Í mínum huga er spurningin ákaflega einföld sem hér liggur fyrir. Hún er um allar þær gífurlegu upphæðir og það gífurlega fjármagn sem þarf að greiða til bænda um leið og þeir leggja sláturfé sitt inn hjá sláturleyfishöfum.

Að endingu, herra forseti, langar mig að segja það, að hugmynd Seðlabankans, sem kom fram í athugun þessarar nefndar, um að þeir bændur sem vildu gætu fengið þessi lán, getur ekki náð nema til örfárra bænda, einfaldlega vegna þess að bændur geta ekki sett veð eða tryggingar fyrir svona miklum upphæðum. Það hefur komið greinilega í ljós.

Að endingu þetta: Ef þetta mál á að leysast verður að finna fjármagn. Og ég vil í þessum efnum spyrja hv. fyrirspyrjanda: Hvar eigum við að taka þetta fjármagn? Hvaðan á fjármagnið að koma? Á það að leggjast í einhvern afurðalánasjóð? Á það að koma úr einhverjum sérstökum banka ? Á það að koma úr ríkissjóði? Hvaðan á það að koma?