27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

327. mál, frumvarp til laga um umhverfismál

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. 13. júlí s. l. skipaði ég nefnd til að semja frv. til l. um umhverfismál sem m. a. ætti að fela í sér að helstu málaflokkar þeirra falli undir eitt rn. Nefndinni var falið að taka sérstakt tillit til frv. um sama efni er þáv. félmrh., Gunnar Thoroddsen, lagði fram á 99. löggjafarþinginu 1977–78 á þskj. 620. Enn fremur skyldi nefndin hafa hliðsjón af lögum, sem síðan hafa verið sett, og nýjum viðhorfum sem fram hafa komið að undanförnu.

Í nefndina voru skipaðir Árni Reynisson, sem var formaður hennar, Eysteinn Jónsson fyrrv. ráðh. og Gunnar G. Schram prófessor.

Nefndin komst upphaflega að þeirri niðurstöðu, að eldra frv., sem samið var af mþn. og flutt á Alþingi vorið 1978, væri um flest í fullu gildi. Hlutverk nefndarinnar yrði því að endurskoða frv. og gera á því nauðsynlegar breytingar og æskilegar viðbætur í ljósi nýrrar löggjafar og viðhorfa. Frv. var vel tekið á sínum tíma og einnig hlaut það jákvæðar undirtektir þm. í hv. Ed. s. l. vor.

Sú nefnd, sem ég skipaði 13. júlí, hefur lokið störfum. Hún hefur lagt fyrir frv. til l. af sinni hálfu. Það málefni er nú til meðferðar í ríkisstj. og verður væntanlega flutt hér inn á hv. Alþingi núna á næstunni, væntanlega fyrir áramót.