16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2449 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég skal ekki taka upp þrætur við hv. fyrirspyrjanda, enda hefur hann talað þrisvar sinnum í málinu þegar, en aðeins minna á það, að ég hef tvisvar áður svarað fyrirspurnum um þetta mál og það verður að viðurkennast, að það hefur vafist fyrir þessu kerfi sem við búum við. Ég hef lagt í það mikla vinnu eða mitt rn. að fjalla um málið við þá aðila sem koma við sögu. Þar á ég við bændasamtökin og bankakerfið fyrst og fremst. Sú vinna er enn þá í gangi, eins og ég greindi frá í svari mínu. Það hefur enginn utanaðkomandi aðili kippt í neinn spotta í sambandi við þetta mál, ekki við mig, enginn utanaðkomandi aðili minnist á þetta mál við mig, ég vil taka það skýrt fram. (Gripið fram í.) Nei, hvorki erlendur né innlendur, það er alger hugarburður. Ég mun halda áfram að vinna þannig að málinu að reyna að framkvæma þessa þál. að því marki sem talið er mögulegt. Það er ekki hægt að ætlast til meira.

Ummæli hv. þm. Árna Gunnarssonar um þetta mál voru mjög athyglisverð. Hann átti sæti í nefndinni sem fjallaði um það og athugaði mjög ítarlega, lagði í það mikla vinnu. Jafnframt voru athyglisverð ummæli hv. fyrirspyrjanda þegar hann gaf það í skyn, að e.t.v. þyrfti kerfisbreytingu á þessum málum til þess að hægt væri að framkvæma þáltill. út í æsar.

Auðvitað er hægt að gefa bönkunum fyrirmæli. Viðskrh. getur að sjálfsögðu skrifað bréf til bankanna og gefið fyrirmæli um eitt og annað. En ég held að það sé miklu skynsamlegri aðferð — vegna þess að bankarnir eru undir sérstakri stjórn, eins og kunnugt er, þó að þeir heyri undir viðskrn. sumir hverjir — að vinna að framgangi málsins í samvinnu og starfi við þá aðila sem hlut eiga að máli.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en mun vinna áfram að því að framkvæma þál. að því marki sem talið er mögulegt.